- Advertisement -

Fyrirlitlegur fjármálaráðherra

Nýjasta árásin er ómálefnaleg venju samkvæmt og sett fram til að forðast efnislega umræðu.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Endurteknar árásir fjármálaráðherra á þá sem minnst mega sín í samfélaginu eru ógeðfelldar. Tímabært er að hann snúi sér að öðru en stjórnmálum ef mannsæmandi kjör þeirra verst settu í samfélaginu eru honum svona andsnúin. Árásirnar minna á mann með þráhyggju og er ræðustóll Alþingis óhikað nýttur til að setja fram allskonar fordóma og fáfræði um kjör fólksins. Nýjasta árásin er ómálefnaleg venju samkvæmt og sett fram til að forðast efnislega umræðu. Staðreyndir breytast aftur á móti ekkert þó geðhæð ráðherrans fari sífellt hækkandi. Sýnt hefur verið fram á að aldraðir, öryrkjar og fatlaðir sem fá greiðslur frá almannatryggingum eru með kjör sem ekki duga til framfærslu nema sultur og seyra komi til.

Í minnisblað ráðherrans til ríkisstjórnarinnar er fullyrt að greiðslur almannatrygginga til þessa hóps hafi tvöfaldast frá árinu 2013 án þess að svara spurningunni hvort þær dugi fyrir nauðþurftum. Fullyrðingin er augljóslega sett fram til að forðast umræðu um kjarna efnisins og viðhorfsþvætta samráðherra. Hann gerir aftur á móti tvenn fyrirséð reginmistök. Fyrri mistökin eru að framreikna ekki fjárhæðina frá árinu 2013 til dagsins í dag. Ég sjálfur man ekki hvað mjólkurlítri kostaði árið 2013, en ég veit hvað hann kostar í dag. Ef lítraverð frá árinu 2013 yrði framreiknað þá gæti ég lagt mat á verðhækkun mjólkur. Ég hef ekki tilfinningu fyrir fjárhæðum frá árinu 2013 vegna verðbólgu og þannig er það líklega með flesta.

Prósentureikningar ráðherrans eru sérstakt vandamál.

Ég ákvað því að vinna vinnuna fyrir ráðuneytið og framreiknaði útgjöld í þennan málaflokk frá árinu 2013 til dagsins í dag að teknu tilliti til mannfjöldaaukningar. Kemur þá í ljós að framlög til málaflokksins hafa hækkað um 49 prósent, en ekki tvöfaldast. Ímyndið ykkur ef ráðherrann hefði nú valið að gera samanburðinn við árið 1980. Þá myndi aukningin mælast í hundruðum prósenta, jafnvel yfir þúsund, sem hann hefði getað nýtt í falskan áróður.

Prósentureikningar ráðherrans eru sérstakt vandamál. Ef þú leggur sömu krónufjárhæðina ofan á ólíkar fjárhæðir þá mælist aukningin í prósentum ekki sú sama. Lífskjarasamningarnir hækkuðu lágmarkslaun um 41 þúsund krónur á fyrsta ári gildistíma hans. Það mælist vera 13,7 prósent hækkun á 300 þúsund króna mánaðarlaun. Sá sem fékk sömu hækkun ofan á 400 þúsund króna laun fékk með sama laginu 10,25 prósent hækkun. Mæling út frá prósentum svarar því ekki spurningunni hvort þeir verst settu séu í færum að láta enda ná saman öðruvísi en með hungurlús að vopni.

Aðalsmerki fjármálaráðherra landsins eru rangfærslur.

Landsmenn vita að þeir sem þiggja greiðslur í gegnum almannatryggingar voru í mjög lágri tekjustöðu árið 2013 og því auðvelt að belgja prósentur upp eins og ráðherrann gerir. Seinni mistökin voru nefnilega að leggja ekki mat á framfærslugetu fólksins í nánu samstarfi við Félag eldri borgara (FEB) og Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ). Félög sem vita best hvar skóinn kreppir. Ráðherrann er augljóslega í engu talsambandi við félögin á sama tíma og símalínan er galopin beint inn á skrifstofur hagsmunasamtaka atvinnulífsins. Svo náin eru samskiptin að hann hikar ekki við að apa staðleysu atvinnulífsins upp beint úr ræðustól þingsins. Aðalsmerki fjármálaráðherra landsins eru rangfærslur.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: