- Advertisement -

Fyrrverandi bankastjóri býður upp á skemmd jólaepli

Atvinnuleysi, verðbólga og vextir er miklu hærra á Íslandi og veldur ör-krónan þar miklu.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Ragnar Önundarson setur reglulega fram skoðanir sínar á krónunni sem hagstjórnartæki á Fésbókinni. Viðhorf Ragnars tengist heimsmynd sem ekki er lengur til. Vangaveltur Ragnars byggja á úreltum hugmyndum um gagnsemi mikilla gengisbreytinga eða gengisfellinga. Ég hef í nokkrum greinum hér á Miðjunni rakið hversu mikið skaðræði óstöðug króna er fyrir íslenska neytendur og heimili landsins. Í þeim ber ég saman hagstjórn Norðurlandanna fjögurra sem hafa sínar krónur sem gjaldmiðil. Ísland stenst engan samanburð. Atvinnuleysi, verðbólga og vextir er miklu hærra á Íslandi og veldur ör-krónan þar miklu.

Það var aftur á móti annað en gamaldags vangaveltur Ragnars um krónuna sem vakti athygli mína. Á einum stað í kommentakerfinu skrifar hann orðrétt „Finnar tóku upp evruna, svo hrundi Nokia“. Hér er Ragnar að falsa söguna og munar honum ekkert um það að því er virðist. Nokia hefur um áratugaskeið haft starfsemi víða í heiminum og innan ólíkra myntsvæða. Það var aftur á móti röð rangra fjárfestingaákvarðanna og breyting á markaði sem olli erfiðleikum Nokia, ekki evran. Á fyrstu fimmtán árum aldarinnar þá var Nokia atkvæðamikið í alls konar yfirtökum og samruna við önnur fyrirtæki. Má þar til dæmis nefna eitt lítið dæmi eða kaup Nokia á OZ Communications í Kanada, sem Skúli WOW Mogensen átti hlut í og starfaði hjá. Það var aftur á móti ákvörðun Samsung og Sony Ericsson að framleiða farsíma með Android stýrikerfinu frekar en Symbian hugbúnaði sem var örlagavaldur. Síðan þarf vart að rekja sigursögu iPhone símanna svo kunn er hún. Nokia lenti einfaldlega undir í samkeppninni, og hafði það ekkert með evruna að gera eða hvort símtækin væru framleidd í Finnlandi, Búlgaríu eða Asíu. Á skömmum tíma þá fór Nokia úr því að vera vinsælasti farsími í heimi niður í tíunda sætið.

Þú gætir haft áhuga á þessum
Ragnar Önundarson.

Inn í söguna blandast síðan kaup Microsoft á farsímahluta Nokia árið 2014 og færsla yfir í Microsoft stýribúnað. Á markaðinn komu Lumia símarnir og Nokia merkið hvarf inn í bakgrunninn. Símarnir fengu heitið Microsoft Lumia og hefur verið hætt.  Á þessum tíma þá voru miklar sviptingar og hræringar á farsímamörkuðum. Í þessu sambandi má nefna að Google keypti bandaríska farsímafyrirtækið Motorola til að breiða út notkun Android stýrikerfisins og efla eigin auglýsingatekjur. Síðar var framleiðsluhluti Motorola seldur til kínverska fyrirtækisins Lenovo. Google hélt eftir Android stýrikerfinu og áfram eru Google símar framleiddir hjá ýmum framleiðendum undir merkinu Nexus. Rekstur Motorola var erfiður þegar Google keypti þrátt fyrir að starfa að öllu leyti utan evrusvæðisins.

Til gamans má geta þess að fyrir um það bil fjórum árum hófst aftur framleiðsla og sala á Nokia farsímum eftir að Nokia keypti til baka farsímahluta Microsoft. Í gegnum vörumerkja- og tækniþjónustuleigu frá Nokia þá hefur finnska fyrirtækið HMD Oy einkarétt á vörumerkinu Nokia Mobile. Símarnir koma með Android stýrikerfinu og á HMD í samstarfi við Google um notkun þess. Símar HMD eru bæði þessir gömlu góðu farsímar og snjallsímar. Þeir koma á frábæru verði og eru virkilega góðir. Starfsmenn HMD eru staðsettir á 50 stöðum í heiminum, en höfuðstöðvarnar eru merkilegt nokk innan evrusvæðisins eða í Espoo í Finnlandi. Alveg eins og Nokia, sem er hluthafi í HMD. Stjórnendur þess koma margir frá Nokia og framleiðsla símanna er í Taiwan. Annars vona ég að Ragnar sé bara hress þrátt fyrir að Finnum vegni mjög vel með sína evru.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: