- Advertisement -

Gaggó Alþingi

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Sjóndeildarhringur Framsóknar nær nefnilega ekki út fyrir Skagafjörðinn. Og jafnvel ekki út fyrir skrifstofu Kaupfélags Skagfirðinga.

Þetta er náttúrulega þvæla.

Enn eitt árið er traust almennings til Alþingis njörvað niður í kjallara. Aðeins 36 prósent landsmanna treysta löggjafarsamkundunni. Þar með hefur Katrínu Jakobsdóttur mistekist markmið sitt að auka á traustið. Engan ætti að undra enda hafa margir þingmenn og ráðherrar verið staðnir að hreinni fávisku og blaðri í umræðum á Alþingi. Nærtækt er að nefna nýlegt tal Framsóknarmanna um að rétt væri að snúa verðbólgumælingum á haus vegna þess að hömlulaus verðbólgan endurspeglar óstjórnina vel og það fer í taugarnar á þeim sem mestu ábyrgðina bera. Flokkur fólksins bætti um betur og lagði fram lagafrumvarp um að best væri falsa verðbólgumælingar. Rökstuðningur með frumvarpinu var fullur af rangfærslum samanber þessi grein Er Tommi enn sofandi í vinnunni.

Nú er formaður Framsóknar búinn að bæta um betur. Sagði að bankarnir hefðu ekki hækkað vexti eftir síðustu vaxtabreytingu Seðlabankans vegna þess að Lilja Alfreðs blikkaði bankana. Þetta er náttúrulega þvæla og tvennt við málflutninginn að athuga. Í fyrsta lagi, og ef bankarnir hafa ekki nú þegar hækkað vexti, þá er ekki útséð um hvort og hve mikið bankarnir munu hækka vexti. Það er nefnilega engin regla að viðbrögð banka við ákvörðunum Seðlabankans komi strax fram heldur gerist það eftir hentugleika bankanna. Síðara atriðið varðar það hvort stöðumat banka sé á sömu lund og Seðlabankans. Það þarf alls ekki að vera enda geta verðbólgu- og áhættuvæntingar umræddra aðila verið ólíkar innbyrðis af margvíslegum ástæðum. Og væntingarnar geta breyst á augabragði.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Ný breyta raungerðist eftir að Seðlabankinn hækkaði vexti um 0,75 prósentustig á dögunum. Þar á ég við innrásina í Úkraínu. Á ferðinni er  meiriháttar atburður, sem úrelti fyrirliggjandi greiningar á þessu augabragði. Endurgera þarf allar greiningar vegna breyttra forsenda. Nýtt stöðumat þarf að fara fram og nýleg vaxtahækkun Seðlabankans gæti orðið að víkjandi áhrifaþætti. Flækjustig hagspáa hefur aukist og búast má við því að bankar í heiminum séu almennt ekki búnir að átta sig fyllilega á stöðunni sem upp er komin. Af þessum ástæðum þá getur vel verið að íslensku bankarnir bíði nú átekta í stað þess að verða afturreka með ótímabærar ákvarðanir.

Tilraun formanns Framsóknar til að skreyta sig með ímynduðum hanafjöðrum var því vandræðaleg, en hún kom samt ekki á óvart. Sjóndeildarhringur Framsóknar nær nefnilega ekki út fyrir Skagafjörðinn. Og jafnvel ekki út fyrir skrifstofu Kaupfélags Skagfirðinga.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: