
Jóhann Þorvarðarson:
Landsmenn hafa nú tekið stefnuna í rétta átt og vita að þeir bera ábyrgð á eigin illræði. Mjólkurspena hugsunarhátturinn víkur nú fyrir hægt vaxandi sjálfbærni og gagnsæi. Og Grikkir þakka fyrir að vera ekki undir hæl Pútíns!
Þegar ég var í framhaldsnámi á Englandi á árunum 1990 til 1991 þá koma það á óvart hvað mikið var um gríska nemendur í skólanum. Hafði ég kynni af nokkrum þeirra og frásögurnar voru athyglisverðar. Mér fannst til dæmis undarlegt að heyra hvað þeim fannst það sjálfsagt að vera það land sem þáði mest úr sameiginlegum sjóðum Evrópusambandsins. Átti þetta við hið smáa og stóra samhengi. Var eins og um sjálfstætt markmið væri að ræða þó sagt sé að sælla sé að gefa en þiggja.
Grikkirnir sóttust eftir því að vinna hópverkefni með mér án þess að vera sjálfir með neitt framlag. Tók það mig smá tíma að lesa rétt í aðstæður því afsakanirnar á köflum voru trúverðugar. Ég öðlaðist svo vissa færni í að koma mér hjá grískri samvinnu, ef samvinnu skyldi kalla
Grikkirnir voru lunknir við að koma sér í allskyns nefndir og ráð á vegum skólans. Alveg sérstaklega ef það gat gefið eitthvað í aðra hönd. Þeir voru lúmskir, kurteisir og skjallandi dagana langa. Ég var bara farinn að hafa gaman að þeim. Þeir kenndu mér til dæmis að hringja ókeypis milli landa úr næsta símasjálfsala frá British Telecom. Síðan voru mér sagðar sögur af hugarfari ungu kynslóðarinnar að fara seint út á vinnumarkaðinn og snemma á eftirlaun, helst vel fyrir sextugt án þess að slíkt fyrikomulag væri fjármagnað.
Bókhald ríkisins var skáldskapur vegna djúpstæðrar spillingar.
Þeir kölluðu sjálfan sig „kamaki“ sem er skírskotun í hvalveiðimenn og skutulinn sem notaður er við veiðarnar. Hér var bæði átt við meintan kvennaljóma grískra karlmanna og færnina í að ná í fé úr umræddum Brusselsjóðum. Grikkir hafa nefnilega lengi verið við eða á toppnum yfir þjóðir sem þiggja mestu fjárframlögin. Þegar fjármálahrunið skall síðan á þá get ég ekki sagt að vandræði Grikkja hafi komið mér á óvart þó ástandið hafi verið lygilegt.
Bókhald ríkisins var skáldskapur vegna djúpstæðrar spillingar. Enginn hafði yfirsýn yfir raunverulegar skuldir, sem nýttar voru til að fjármagna ósjálfbært ástand. Hallinn á fjárlögum var kominn í 15 prósent af landsframleiðslu þegar allt hrundi. Skuldabréfamarkaðurinn gufaði upp og var staðan í raun áþekk því sem við Íslendingar stóðum frammi fyrir í hruninu. Engin ný erlend lán var að hafa og landið lokaðist. Í öllu umrótinu þá kom í ljós að gríska ríkið hafði logið til um að hafa náð að uppfylla Maastricht skilyrðin svo landið fengi að taka upp evruna. Grikkland var gjaldþrota!
Landið stóð frammi fyrir tveimur afar þungbærum kostum. Að yfirgefa evruna, og jafnvel Evrópusambandið, og taka aftur upp eigin gjaldmiðil. Eða að þiggja aðstoð frá vinaþjóðum innan sambandsins og Alþjóða gjaldeyrissjóðnum gegn ströngum skilyrðum um djúpstæðar kerfisbreytingar og upprætingu spillingar. Grikkir völdu seinni kostinn enda bauð fyrra úrræðið ekki upp á ljós við enda gangnanna.
Erfiðir tímar fóru í hönd og atvinnuleysi var mest um 28 prósent. Efnahagskreppa varði í mörg ár. Afstaða vinaþjóða var einfaldlega sú að Grikkir yrðu sjálfir að bera ábyrgð á eigin spjöllum. Ýmsar þjóðir sem komu úr ranni Sovétríkjanna þurftu á eigin kostnað að vinna sig upp í það að fá aðild að Evrópusambandinu. Koma sér upp úr djúpri holu spillingar og efnahagsóreiðu. Grikkir stóðu einfaldlega frammi fyrir nýrri dögun fyrir hartnær 15 árum.
Sem betur fer voru Grikkir skynsamari en Davíð Oddsson.
Ekki voru allir sáttir við hin ströngu skilyrði (austerity measures) og bentu á að afarkostirnir leiddu til kreppu. Þeir höfðu eitt og annað til síns máls, en Grikkir voru bara rúnir öllu trausti og vinaþjóðirnar tóku afstöðuna „have to be crule to be kind“. Endurheimt traust fæst nefnilega ekki nema unnið sé fyrir því og Grikkir eru á þeirri leið þó sársauki fylgi. Einkaaðilar þurftu að sætta sig við vænan krúnurakstur á lánum til Grikklands og það gleymist seint. Ef Grikkland hefði valið fyrri kostinn þá væri landið undir hælnum á Rússlandi svo þröng var staðan á sínum tíma. Sem betur fer voru Grikkir skynsamari en Davíð Oddsson, sem vildi að Ísland leitaði á náðir Pútíns í fjármálahruninu.
Staðan í dag er sú að verðbólga er undir 2 prósentum, atvinnuleysi er komið undir 11 prósent, ríkissjóður var réttu megin við strikið þegar kóvít-19 skall á og hagvöxtur er jákvæður. Tekist hefur að varða leiðina að nútímalegra hagkerfi og upprætingu spillingarhefðar. Á mælikvarða velsældar (The Legatum Prosperity Index) þá hafa síðustu 5 ár leitt af sér framfarir. Grikkland situr nú í fertugasta sæti á lista 167 þjóða og hefur því endurheimt stöðu sína frá því fyrir hrun. Ísland situr í áttunda sæti á meðan hin Norðurlöndin raða sér í efstu fjögur sætin. Af þeim 12 flokkum sem velsældar vísitalan skoðar þá standa Grikkir sig verst í flokknum yfir traust gagnvart opinberum stofnunum. Það er því enn mikil vinna fram undan hjá Grikkjum og tekur það líkast til kynslóðaskipti að ná endamarkmiðinu.
Það er óumdeilt að lykillinn að bættum hag Grikkja og inngöngu landsins í hóp nútíma lýðræðisþjóða byggir á evrunni. Án hennar þá væri allt í skralli og líkast til væri umhorfs þar í landi eins og var í Sovétríkjunum rétt áður en kommúnistaveldið féll. Allt tal um að Evrópusambandið og Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn hafi reynst Grikkjum illa er í besta falli misskilningur. Grikkland var fram að hruninu gjörspillt og með stórt undirheima hagkerfi. Landsmenn hafa nú tekið stefnuna í rétta átt og vita að þeir bera ábyrgð á eigin illræði. Mjólkurspena hugsunarhátturinn víkur nú fyrir hægt vaxandi sjálfbærni og gagnsæi. Og Grikkir þakka fyrir að vera ekki undir hæl Pútíns!