
Og að slá til Samfylkingarinnar vegna þess að hún fór fram á rannsókn á málum Gunnars í Kópavogi á sínum tíma?
Jóhann Þorvarðarson skrifar:
Gunnar Birgisson fyrrverandi bæjarstjóri Kópavogsbæjar og þingmaður Sjálfstæðisflokksins er maður ekki einhamur. Hann stígur nú fram á ritvöllinn eftir nokkurt hlé og ræðst að verkalýðshreyfingunni, Pírötum og Samfylkingunni með talsverðum ósóma. Segir í Moggagrein að aðilarnir hafi verið með aðför að Flugleiðum (lesist Icelandair því Gunnar kann ekki skil á nafni fyrirtækisins) í nýafstöðnu hlutafjárútboði. Sakar síðan verkalýðshreyfinguna um pólitískt ofstæki. Afar stór orð eru sett hér fram sem kalla á upprifjun á tveimur gömlum fréttum um Gunnar, sem eru báðar frá árinu 2009.
Önnur fréttin er um Verktakafyrirtækið Klæðningu og hitt um Frjálsa Miðlun. Hvað fyrr talda fyrirtækið varðar þá lá Gunnar undir ámælum að vera beggja megin við borðið þegar kom að afgreiðslu byggingaverkefna hjá Kópavogsbæ. Hann var einnig vændur um að vera hluthafi í Klæðningu í gegnum lepp með snúning í gegnum Kaupþing í Lúxemborg. Þeir sem vilja rifja meira upp geta lesið fréttina hér https://timarit.is/page/6364001?iabr=on#page/n5/mode/2up/search/Gunnar%20Birgisson
Síðartalda fyrirtækið var í eigu dóttur Gunnars og í Morgunblaðsgrein frá maí 2009 segir orðrétt „Viðskipti Kópavogsbæjar við fyrirtækið Frjálsa Miðlun, sem er í eigudóttur Gunnars I. Birgissonar bæjarstjóra, eru nú til rannsóknar hjá löggiltum endurskoðendum bæjarins og í biðstöðu þar til úttekt þeirra liggur fyrir. Gunnar er sakaður um að hafa staðið fyrir óeðlilega háum greiðslum, um 50 milljónum króna til fyrirtækis dóttur sinnar vegna verkefna sem bærinn fól því á tímabilinu 2003-2008. Síðar í sömu grein segir síðan orðrétt „Á sama tíma er einnig beðið niðurstöðu Ríkisendurskoðunar á greiðslum til sama fyrirtækis frá Lánasjóði íslenskra námsmanna, sem námu 11 milljónum króna, á meðan Gunnar Birgisson sat þar í stjórn. Stjórn LÍN taldi eðlilegt að utanaðkomandi rannsökuðu málið“. Þeir sem vilja alla fréttina geta lesið hana hér https://timarit.is/page/5253624?iabr=on#page/n5/mode/2up/search/Gunnar%20Birgisson
Getur verið að Gunnar Birgisson sé að kasta steinum úr glerhýsi í átt að fólki sem vill fara varlega í fjármálum. Og að slá til Samfylkingarinnar vegna þess að hún fór fram á rannsókn á málum Gunnars í Kópavogi á sínum tíma?