- Advertisement -

Gammar vilja mjólkurpeninginn þinn

Frekar er kosið að ráðast á lífeyrissjóðina úr launsátri að hætti ragmenna.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Fréttablaðið beinir kastljósi sínu að lífeyrissjóðunum þessa vikuna með ómálefnalegum hætti í tveggja síðna breiðsíðugrein í miðvikudagsblaðinu. Ýmsu er þvælt inn í umfjöllunina eins og ófrelsi, samþjöppun valds, valddreifing og misbeiting valds hjá lífeyrissjóðum. Gefið er í skyn að lífeyrissjóðakerfið sé illa rekið.  Tilgangur greinarinnar er augljóslega sá að skilja lesandann eftir með neikvæða tilfinningu gagnvart lífeyrissjóðakerfinu.

Fjölmargar furðulegar fullyrðingar eru settar fram af nafnlausum viðmælendum, sem þora ekki að standa skil á eigin skoðunum. Frekar er kosið að ráðast á lífeyrissjóðina úr launsátri að hætti ragmenna. Einstaklega aumkunarvert er að í jafn mikilvægu máli séu bestu heimildir Fréttablaðsins nafnlausir aðilar út í bæ. Það eitt og sér gjaldfellir alla umfjöllun blaðsins.   

Fjárfesting í nýsköpun fellur ekki að hagsmunum sjóðfélaga vegna geipilegra áhættu.

Greinin fjallar ekkert um öryggi og stöðugleika arðsemi fjárfestinga sem lífeyrissjóðir þurfa að hafa að leiðarljósi lögum samkvæmt. Bæði atriðin eru forsendur þess að lífeyrissjóðir geti staði undir lífeyrisskuldbindingum. Nei, það er mest fjallað um að auka þurfi eitthvað óskilgreint frelsi til að mögulegt sé að nota séreignasparnaðinn í nýsköpun og aðra eins hlutabréfa áhættu. Blaðið gleymir aftur á móti alveg að segja frá því að margir bílskúrar heimsins eru stútfullir af misheppnuðum nýsköpunartilraunum. Í lögum um lífeyrissjóði er einnig talað um að sjóðunum beri að hafa hagsmuni sjóðfélaga að leiðarljósi. Fjárfesting í nýsköpun fellur ekki að hagsmunum sjóðfélaga vegna geipilegra áhættu.

Muna ekki allir eftir netbólunni sem gekk yfir heiminn og flest allt endaði á ruslahaugunum. Já, munið þið ekki líka eftir íslenska fyrirtækinu Plain Vanilla sem gaf út tölvuleikinn „Quiz Up“ fyrir fáeinum árum. Fyrirtæki sem þóttist vera að slá í gegn á heimsvísu með tölvuleikja nýsköpun. Svo flott átti fyrirtækið að vera að tólf milljarða tilboði í fyrirtækið var hafnað. Örlög fyrirtækisins eru aftur á móti þau að jarðarför þess fór fram í kyrrþey.

Það er ekki hlutverk séreignasparnaðar eða væntanlegra mjólkurpeninga eldra fólks að standa í svona yfirgengilegri áhættu sem nýsköpun er í grunninn. Ef þetta yrði leyft þá mun það á endanum lenda á ríkissjóði að bæta upp ónæga lífeyrissöfnun launafólks. Slíkt gerist bara með hækkun skatta að öllu öðru jöfnu. Nýsköpunarfjármagn er allt önnur tegund fjármagns en lífeyrir og ber að meðhöndla með allt öðrum hætti. Af þessum ástæðum er nauðsynlegt að varast allan áróður um að það sé skynsamlegt að heimila að séreignasparnaður sé notaður í nýsköpun.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: