
En þetta dugar ekki frekjugenginu því nú er þess krafist að laun í landinu verði lækkuð.
Jóhann Þorvarðarson skrifar:
Framvörður ferðaþjónustunnar hann Jóhannes Niðurrífari er gangandi efnahagsógn. Og hann er svo sannarlega við stjórnvölinn í landinu. Með aðra krumluna inn í ríkissjóði á meðan hin krumlan rótar í hirslum Seðlabankans. Ríkissjóður mokar milljörðum króna í ferðaútveginn á sama tíma og krónan hríðfellur. Fall krónunnar færir nú á annað hundruð milljarða króna frá almenningi yfir til útflutningsfyrirtækja. Niðurrífarinn er með báðar hendur á stýri og hefur tvo þjónandi farþega, Bjarna Ben vara-fjármálaráðherra og Ásgeir Jónsson vara-seðlabankastjóra.
Að baki Niðurrífaranum í Barlómakórnum eru svo hinir söngfölsku Halldór Benjamín og Grímur Bláalónskóngur sem hefur greitt sér og sínum 12 milljarða í arð á undanförnum árum. Þessir þrír vaða yfir land og þjóð á grútskítugum skónum.
En þetta dugar ekki frekjugenginu því nú er þess krafist að laun í landinu verði lækkuð. En bara ekki hjá þeim sjálfum og alls ekki hjá Grími litla. Frekjugenginu hefur tekist að reka bláfótinn inn fyrir þröskuldinn hjá Alþýðusambandi Íslands með þeim árangri að tveir forystumenn hafa hrökklast á brott, Vilhjálmur Birgisson og Ragnar Þór Ingólfsson. Það þarf að stöðva þetta skaðræðis gengi strax áður en tjónið er óafturkræft!