- Advertisement -

Gapuxinn Eyþór Arnalds sér ekki til sólar

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Eyþór Arnalds hefði sjálfur betur átt að fylgja góðum reikningsskilavenjum í eigin vafstri. Þá hefði baukið kannski farið betur.           

Það er holur hljómur í máli Eyþórs Arnalds þegar kemur að málefnum Reykjavíkur enda Sjálfstæðismenn langþreyttir á honum og fylgið fallandi. Hann er á móti öllu sem kemur frá þeim sem stjórna Reykjavík, alveg sama hvað það er. Eyþór hefur neikvæðnina og niðurrifið að sínu pólitíska leiðarljósi. Alveg eins og Vigdís Hauksdóttir, sem kastar grjóti úr steinhúsi eins og frægt er.

Eyþór á viðskiptasögu að baki sem er sviðin jörð. Allt frá þátttöku í gjaldþrota Oz, gjaldþrota járnvinnslu á Grundartanga yfir í eign í Morgunblaðinu, sem hann hefur aldrei geta útskýrt hvernig var fjármögnuð. Slóðin er lengri.

Á sama tíma og ríkissjóður undir forystu Bjarna Ben og Sjálfstæðisflokksins er rekinn með risahalla og vaxandi skuldsetningu þá gerir Eyþór kröfur um að borgin sé bara á sama snúningi og fyrir heimsfaraldurinn. Veiran á víst að hafa haldið sig utan borgarmarka og engin efnahagsleg áhrif haft í Reykjavík. Þrátt fyrir allt þá er fjárhagsstaða borgarinnar traust, en það hryggir víst Eyþór enda sjálfur vanur fjárhagsóreiðu. Eiginfjárhlutfallið stefnir í að verða 54 prósent og sjóðsstreymið er viðunandi í faraldrinum. Handbært fé frá rekstri er að skila 19 milljörðum á þessu ári og svo þegar búið er að taka tillit til fjárfestinga og fjármögnunar þá er fjárflæðið á jöfnu. Ef Reykjavík væri á hlutabréfamarkaði þá væri virði bréfanna á uppleið þrátt fyrir sólarleysið í kringum Eyþór Arnalds.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Eyþór talar um að efnahagur borgarinnar minni á skuldsettan vogunarsjóð, eitthvað sem gammurinn Eyþór kannast sjálfur svo vel við. Þetta fullyrðir hann þrátt fyrir að hrein eign borgarinnar nemi 54 prósentum af öllum eignum. Í öllum samanburði þá þykir hlutfallið hraustlegt og dugar lítt að tala um vogunarsjóði. Sjóði sem hafa það eitt að markmið að sýsla með annarra manna peninga. Til samanburðar þá er eiginfjárhlutfall Mosfellsbæjar, sem Sjálfstæðismenn hafa stjórnað í áraraðir, ekki nema 29 prósent, og sjálfbærni rekstrar varð fyrir miklu höggi þegar faraldurinn reið yfir. Stefnir í að handbært fé frá rekstri geti orðið neikvætt á þessu ári.

Eyþór kann lítið fyrir sér í reikningshaldi eins og innihaldslaust tuðið í honum endurspeglar.  Gagnrýnir hann endurmat á virði húsnæðis á vegum borgarinnar. Innlendir og alþjóðlegir reikningsskilastaðlar krefja þess að eignir og skuldir séu metnar á núvirði, að undirskrift löggiltra endurskoðenda ávarpi rekstrar- og fjárhagsstöðuna og hæfi til framtíðar. Fjölmargir löggiltir og utanaðkomandi endurskoðendur hafa undirritað ársreikninga borgarinnar athugasemdalaust í áraraðir. Eyþór Arnalds hefði sjálfur betur átt að fylgja góðum reikningsskilavenjum í eigin vafstri. Þá hefði baukið kannski farið betur.           


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: