- Advertisement -

Getur Seðlabankinn útskýrt sinn eigin þvætting?

Sem sagt, verðtryggða lánið er með hærri mánaðarlegar afborganir í 82,5 prósent lánstímans.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Ég er oft undrandi á því sem kemur frá Seðlabanka Íslands. Það nýjasta kom frá einum af varaseðlabankastjórum bankans í Moggaviðtali í vikunni. Þar sagði viðkomandi „En greiðslubyrði óverðtryggðra lána er almennt þyngri og næmari fyrir vaxtabreytingum en fólk er vant þegar kemur að verðtryggðum lánum“. Mogginn birti þetta gagnrýnislaust og vil ég bæta hér úr. Á myndinni sem fylgir má sjá samanburð á tveimur 40 ára íbúðalánum í 3 prósent verðbólgu. Verðtryggða lánið ber 2,8 prósent fasta vexti á meðan óverðtryggða lánið ber 5,14 prósent fasta vexti. Þetta er í samræmi við kjör sem voru í boði í mörg ár áður en vaxtalækkanir gengu yfir á vormánuðum. Verðtryggða lánið er með jöfnum afborgunum höfuðstóls á meðan óverðtryggða lánið er með jöfnum mánaðarlegum greiðslum. Eins og glögglega sést þá er óverðtryggða lánið með hærri afborganir upp að sjöunda árinu, en eftir það þá snýst dæmið við. Sem sagt, verðtryggða lánið er með hærri mánaðarlegar afborganir í 82,5 prósent lánstímans. Til þess að lánin fái jafnstöðu þá þurfa fastir vextir óverðtryggða lánsins að vera 6,5 prósent.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Lánaform sem er hvergi annars staðar í boði á byggðu bóli.

Árleg meðalverbólga á öldinni er 4,5 prósent. Miðað við þá bólgu þá verður verðtryggða lánið með lægri afborganir einungis fyrstu 11 árin eða 27,5 prósent af lánstímanum. Það skiptir í raun ekki máli hvernig ég sný tölunum í þessu dæmi, verðtryggða lánið verður aldrei með hagfelldari greiðslubyrði heillt yfir nema kannski ef við styðjumst við skrítnar tölur sem koma ekki upp í raunveruleikanum. Ef Seðlabankinn hækkar vexti vegna vaxandi verðbólgu þá leggst verðbólgan þyngra á verðtryggð lán en óverðtryggð vegna þeirra aðferðar að verðtryggingin leggst ofan á höfuðstólinn ár hvert. Verðtryggingin er þannig kastað að stórum hluta inn í framtíðina. Síðan reiknast vextir af verðbættu láni. Þetta veldur því að verðtryggð lán eru miklu dýrari. Í umræddum dæmi þá kostar verðtryggða lánið skuldarann rúmlega 13 milljónum króna meira. Að núvirði þá nemur fjárhæðin 7,4 milljónum króna, sem nálgast að vera lágmarkslaun yfir tveggja ára tímabil.

Yfirlýsing varaseðlabankastjóra fæst ekki staðist. Ég velti því aðeins fyrir mér hvað fær viðkomandi til að koma með svona þvætting og á bágt með að trúa því að viðkomandi sé svona illa að sér í efninu. Það er þó ekki útilokað. Augljóst er að Seðlabankinn er að agitera fyrir blóðugum verðtryggðum íbúðalánum þar sem íbúðarkaupandinn er gerður að skuldaþræl ævilangt. Á sama tíma fær lánarinn bæði axlabönd og belti, ber enga áhættu. Það er eins og bankinn hafi ekki gert ráð fyrir þeim mikla áhuga almennings á óverðtryggðum íbúðalánum sem orðinn er og þolir bara ekki sjálfstæðan vilja fólksins um að velja sér það lánaform sem tíðkast alls staðar annars staðar í veröldinni. Umrædd yfirlýsing er grafalvarleg enda varðar hún mikla fjárhagslega hagsmuni skuldara. Ég hef sjálfur ekki heyrt aðra Seðlabanka viðra aðrar eins áhyggjur á umliðnum þrjátíu árum og mæla með verðtryggðum lánum. Lánaform sem er hvergi annars staðar í boði á byggðu bóli. Ég hef að vísu ekki skoðað hvað er í boði á Antarktíku.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: