- Advertisement -

Gjaldþrota fyrirtæki og Sjálfstæðisflokkurinn

Með haustinu kemur því væntanlega hrina gjaldþrota.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Fjöldi gjaldþrota fyrirtækja það sem af er ári er 51 prósent meiri en á sama tíma í fyrra. Aukning varð strax í janúar og hélst hún út mars mánuð. Í apríl þá stöðvaðist vöxturinn eins og sést á myndinni með því að bera saman súlurnar fyrir árin 2019 og 2020. Fjöldinn í apríl síðastliðinn var kominn á par við apríl á síðasta ári og var einnig umtalsvert lægri en mörg áranna þar á undan. Það út af fyrir sig vekur athygli þegar haft er í huga að langt var komið inn í hagsveifluna. Svo má ekki gleyma því að hagkerfið hefur stækkað jafnt og þétt undanfarin ár og fjöldi fyrirtækja aukist mikið. Þróun mála fyrstu fjóra mánuðina hefði því átt að líkjast súlunum fyrir árið 2013. Búast má við því að maí mánuður verði einnig afbakaður. Umskiptin í apríl eiga sér þó afar einfalda skýringu að mínu mati.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Eftir stendur að almenningur hefur gefið vonlausum fyrirtækjum tugi milljarða af almannafé.

Tölurnar í apríl í ár eru ómarktækar vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar. Markaðnum var kippt úr sambandi á vakt Sjálfstæðisflokksins með hlutastarfaleiðinni, greiðslu launa á uppsagnarfresti og greiðslufresti á sköttum. Fallandi fyrirtæki hafa fundið tímabundið skjól undir pilsfaldi ríkisins. Þegar pilsfaldinum verður lyft samfara hækkandi sumarhita þá má búast við að þessari gervibjörgun ljúki. Með haustinu kemur því væntanlega hrina gjaldþrota. Þar inn í verða gjaldþrot sem hefðu átt sér stað í apríl ef ríkisstjórnin hefði ekki slökkt á gangverki markaðarins.

Eftir stendur að almenningur hefur gefið vonlausum fyrirtækjum tugi milljarða af almannafé. Fé sem hefði mátt nýta til dæmis í að lækka skatta, í atvinnuskapandi verkefni, í að efla eftirspurnina eða bara margt annað gáfulegra en að reka fyrirtækja-sósíalisma Sjálfstæðisflokksins.

Eins og myndin sýnir þá hefur íslenskt hagkerfi oft þurft að fara í gegnum gjaldþrotahrinur þar sem þjóðhagslega mikilvæg fyrirtæki fóru á hliðina. Muna ekki allir eftir því að Icelandair var bjargað fyrir nokkrum árum án þess að galopna ríkissjóð. Á síðustu öld þurfti oftar en einu sinni að bjarga Flugleiðum. Þannig að staðan í dag er ekki endilega eins fordæmalaus eins og haldið er fram. Það sem er fordæmalaust er þessi opni og greiði aðgangur vildarvina Sjálfstæðisflokksins að ríkissjóði landsmanna. Já, og án þess að ríkið handtaki hlutafé á móti.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: