- Advertisement -

Glataður prófessor gegn láglaunakonum, aftur og aftur!

Um þetta talar prófessorinn ekki enda myndi falla á glansmyndina hjá honum.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Ónefndur prófessor í hagfræði tjáir sig regluega í fjölmiðlum og furðanlega oft í miðri kjarabaráttu láglaunafólks. Áróður hans er bæði augljós og lúmskur, fátækir eigi að vera áfram fátækir og lifa um ókomna tíð á hungurlús. Með óbreyttri skipn geta hans líkir lifað áfram í eigin hófleysi. Afstaða hans er ekki studd stöndugum hagfræðikenningum heldur þvert á móti.

Prófessorinn talar gjarnan í meðaltölum, en eins og þjóð veit þá geta meðaltöl verið varasamur grunnur að alhæfingum. Þekkt er dæmisagan af manninum sem er með annan fótinn í ísköldu vatni en hinn í sjóðandi vatni. Að meðaltali þá líður honum vel þó hann sé að frjósa á öðrum og brenna á hinum. Í þessum anda þá hefur prófessorinn alhæft að á Íslandi ríki meiri jöfnuður en annars staðar og að laun séu hvergi hærri á byggðu bóli, að meðaltali auðvitað. Fullyrðingin á að skapa andúð á réttmætri kjarabaráttu láglaunafólks sem ekki ná endum saman. Vandi prófessorsins er að hann skoðar ekki dreifingu launa sem standa að baki meðaltalinu. Þannig athugun segir aðra og sannari sögu um stöðu láglaunafólks en meðaltöl prófessorsins. Skoðum dæmi úr nútíðinni.

Einstæðar og barnlausar konur á aldrinum 25-64 ára sem búa í leiguhúsnæði á Íslandi eru samtals 23.500. Ráðstöfunartekjur kvennanna eru að meðaltali 354 þúsund krónur á mánuði. Það er um það bil það sem kostar hverja konu í þessum hóp að framfleyta sér á núllinu ef engin skakkaföll koma upp. En þegar dreifing launanna er skoðuð þá kemur í ljós að 60% kvennanna í þessum hóp eru með ráðstöfunartekjur sem eru að meðaltali 265 þúsund krónur á mánuði. Þarna munar 90 þúsund krónum sem myndi breyta miklu fyrir þennan 60% hóp. Um þetta talar prófessorinn ekki enda myndi falla á glansmyndina hjá honum. Hún yrði of raunsönn fyrir hans smekk. Hann sullar öllum konunum saman og segir þær hafa það fínt að meðaltali. Samt lifa samtals 14.100 konur úr hópnum í sárri fátækt.

Útreikningar mínir sýna að 34% líkur eru á því að kona sem valin er af handahófi úr þessum hópi 23.500 kvenna sé með ráðstöfunartekjur allt niður í 222 þúsund krónur á mánuði. Konan nær engum endum saman og er á vaxandi yfirdrætti í bankanum. Prófessorinn vill ekki heyra á konuna minnst. Hann situr bara í sínu skjóli í eigin fílabeinsturni og strýkur yfir spikfeitan launatékka. Greyið er nefnilega úr tengslum við raunveruleikann.