
Jóhann Þorvarðarson:
Að hleypa Flokki Fólksins að hagstjórninni væri ávísun á glundroða að óbreyttu. Hann veður áfram í blindu síns þekkingarleysis. Þetta er miður því flokkurinn meinar vel, en meira þarf til en velvilja ef flokkurinn vill verða marktækur.
Þingmenn Flokk fólksins lögðu fram frumvarp um breytingu á útreikningi verðbólgu fyrr á árinu. Í frumvarpinu stendur „Til að sporna gegn hörðustu áhrifum verðbólgunnar á heimilin er lagt til að húsnæðisliðurinn verði felldur út úr vísitölu neysluverðs. Þetta fyrirkomulag tíðkast víða, t.d. í verðbólgumælingum ESB.“ Um þetta, en frá öðru sjónarhorni en núna, fjalla ég í þessari grein „Er Tommi enn sofandi í vinnunni.“
Verði frumvarpið að lögum þá er verið að grafa undan heilbrigðri hagstjórn, hagkerfinu og trúverðugleika verðbólgumælinga enda eigið húsnæði (húsnæðisliðurinn) stór útgjaldaliður í hagkerfinu. Það er því bæði eðlilegt og æskilegt að mæla verðbreytingar vegna eigin húsnæðis. Spurning er bara hvernig best er að haga mælingunni, en skoðum þróun mála frá sjónarhorni Breta.
Bretar gefa út þrjár höfuð neysluverðvísitölur. Langelst er RPI (Retail Price Index) og grípur hún utan um allar útgreiðslur tengdar eigin húsnæði (payments approach). Þar inn í eru vaxtagreiðslur. Upp úr 1990 þróar Evrópusambandið síðan samræmda neysluverðsvísitölu (CPI- Consumer Price Index eða HICP) þar sem H-ið stendur fyrir „Harmonized“. Vegna ósamkomulags um hvernig reikna á út kostnað við eigið húsnæði þá var liðnum alfarið sleppt að sinni.
RPI vísitalan er enn í dag reiknuð út vegna tenginga ýmissa opinberra rekstrarstærða við vísitöluna og til að varðveita sögulegt samhengi verðmælinga. Hún vék fyrir CPI, sem aðal verðbólguvísitala Breta, árið 2003. Ástæðurnar eru öðru fremur tölfræðilegar.
Segja má að ákvörðun um það hvernig reikna á út og safna upplýsingum um kostnað við að búa í eigin húsnæði hafi þarfnast lengri fæðingartíma innan Evrópusambandsins því árið 2017 hóf breska hagstofan að gefa út þriðju vísitöluna, CPIH þar sem H-ið stendur fyrir „Housing“. Að uppistöðu þá er hún alveg eins og CPI vísitalan að viðbættum kostnaði við að búa í eigin húsnæði (húsnæðisliðurinn) og einum skattstofn (Counsil Tax). Evrópusamabandið er á sömu vegferð, en skemmra á veg komið.
Samkvæmt yfirlýsingu breskrar stjórnvalda þá mun CPIH vísitalan taka við sem megin verðmælikvarði landsins árið 2030. Þannig að Bretar eru komnir á sama stað og flest Norðurlönd þar sem tekið er tillit til bæði leigu- og séreignamarkaðarins. Þróunin hjá nágrönnum okkar er því í gagnstæða átt við stefnu Flokk fólksins. Það er umhugsunarvert.

Áhugavert er að skoða myndrænt hvaða niðurstöðu CPI og CPIH gefa samanber myndin sem fylgir. Hún nær aftur til ársins 2005 og hefur breska hagstofan bakreiknað nýju verðvísitöluna, CPIH, til að hún fangi allt tímabilið. Eins og sést þá mældi CPIH, sem inniheldur húsnæðisliðinn, verðbólgu upp á 8,8% í september á meðan CPI mældi 10,1% verðhækkun. Yfir allt tímabil myndarinnar þá heldur húsnæðisliðurinn haldið verðbólgunni lægri en ella. Uppsöfnuð bólga er minni samkvæmt CPIH samanber bláa línan. Þetta er í hrópandi andstöðu við fullyrðingar Flokk fólksins um að húsnæðisliðurinn sé vandamál.
Yfir löng tímabil á Íslandi þá hefur húsnæðisliðurinn haldið íslenskri verðbólgu í skefjum ef ég man hlutina rétt. Að hleypa Flokki Fólksins að hagstjórninni væri ávísun á glundroða að óbreyttu. Hann veður áfram í blindu síns þekkingarleysis. Þetta er miður því flokkurinn meinar vel, en meira þarf til en velvilja ef flokkurinn vill verða marktækur.