
Jóhann Þorvarðarson:
Áhrifin þar eru ekki síst sálræns eðlis og munu fyrirtæki sjá sér leik á borði og hækka verð í skjóli ríkisstjórnarinnar. Ríkisstjórn Katrínar Jak hefur misst tökin á efnahagsstjórninni og sendir illt fordæmi inn á markaðinn.

Í morgun þá kom góð og slæm frétt af evrusvæðinu. Sú góða er að ársverðbólga í desember lækkaði úr 10,1 prósenti og niður í 9,2 prósent eða um nærfellt 1 prósentustig. Evrópski seðlabankinn var með væntingar í þessa átt um leið og hann áætlar að bólgan taki aftur til við að aukast núna í janúar og febrúar.
Slæma fréttin er að undirliggjandi verðbólga heldur áfram að aukast og er hún komin í 5,2 prósent, samanber myndin, eftir að hafa staðnæmst við 5 prósentin tvær mælingar í röð. Líta má á undirliggjandi verðbólgu sem einskonar verðbólgugólf, sem er hækkandi nú um stundir. Á Íslandi þá er verðbólgugólfið komið í 7 prósent og á Bretlandseyjum þá situr gólfið í 6,3 prósentum eftir að hafa reynt við 6,5 prósentin.
LAUN HÆKKA OG VINNUVIKAN STYTTIST.
Í Bandaríkjunum þá er verðbólgugólfið í 6 prósentum eftir að hafa þrýst á 6,6 prósentin fyrr í haust. Nýjar tölur af vinnumarkaðnum komu út í gær og sýna þær að enn er mikil spenna á atvinnumarkaðnum þar vestra. Og enn aðrar vinnumarkaðstölur komu út í dag og staðfesta þær einnig hagspennuna, sem er í gangi. Laun hækka og vinnuvikan styttist.
Örðugt getur reynst að ná gólfinu aftur niður nema með sársaukafyllri aðgerðum en hingað til. Aðilar ættu því að búast við áframhaldandi vaxtahækkunum í heiminum. Hvað Ísland varðar þá er verðbólguþrýstingurinn enn upp á við og hvað framhaldið varðar þá leika ákvarðanir ríkisstjórnarinnar um að hækka gjaldskrár ekki lítið hlutverk. Áhrifin þar eru ekki síst sálræns eðlis og munu fyrirtæki sjá sér leik á borði og hækka verð í skjóli ríkisstjórnarinnar. Ríkisstjórn Katrínar Jak hefur misst tökin á efnahagsstjórninni og sendir illt fordæmi inn á markaðinn.