- Advertisement -

Gosi við stýrið

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Smánarhorn seðlabankastjóra stækkar í jöfnu hlutfalli við tjáningar hans, sem margar eru vondur skáldskapur.

Er svo illa komið fyrir honum að ítalska frumgerðin af Gosa (Pinocchio) bliknar í samanburði við íslenska frændann.

Sá ítalski er dauðöfundsjúkur sökum lengdar íslenska nefsins, sem státar jafnframt af stærri og svartari díl fremst á trjónunni.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Bæði einkennin eru til marks um hversu snjall ósannindamaður íslenski spýtukarlinn er. Því stærri og dekkri díll því svæsnari eru ósannindin. Er nú svo komið að sá ítalski hefur ekki séð annað eins á 145 ára ævi sinni og er af býsn að taka.

Nýtt útspil íslenska Gosans kom á fjölmiðlafundi Seðlabankans í gær eftir snarhækkun stýrivaxta öðru sinn á einum mánuði.

Beindi hann þar löngu og oddmjói lyganefinu að gagnrýnendum bankans. Uppnefndi hann þá „baksýnishagfræðinga“ sem hvorki búa yfir spáhæfni eða góðu stöðumati.

Jafnframt sagði Gosi baksýnismennina ekki vita hvað ætti að gera nú um stundir þegar verðbólga er komin úr böndum vegna mistaka bankans.

Ég get ekki annað en tekið hrakyrði Gosa til mín þar sem ég hef verið án alls vafa mesti gagnrýnandi bankans síðan heimsfaraldurinn hófst. Ádrepur mínar eru sannarlega málefnalegar og standast tímans tönn. Eins og með ritþjófnaðinn þá heldur íslenski Gosinn að fólk hafi gullfiskaminni og nenni ekki að rifja upp.

Hann treystir á andrána í tjáningum sínum. Því miður fyrir hann þá birti ég eigin hagspá hér á Miðjunni um mitt ár 2020, sem ég kallaði:

„Miðjan / Ný hagspá fyrir árið 2020.“

Orð mín eru þar með skjalfest og í spánni er horft fram á við. Margt kemur inn í spána og þar á meðal er ákvörðun Seðlabanka um að afnema sveiflujöfnunarauka viðskiptabanka snemma árs 2020. Að öllu vegnu þá var ég sá eini á öllu landinu, sem birti hagspá opinberlega, sem spáði að verðbólga væri á hraðri uppleið. Að 12 mánaða rúllandi verðbólga stefndi í 4,5%.

Á sama tíma spáði Seðlabankinn 2,4% bólgu.

Ég uppfærði spána árið 2021 og áleit að verðbreytingar stefndu yfir 7% á ársgrundvelli. Verðhækkanir nú um stundir mælast 7,6% og eru á uppleið. Seðlabankinn var aftur á móti steinsofandi og spáði áfram verðstöðugleika.

Ég hafði rétt fyrir mér á fleiri sviðum hagmælinga eins og umrædd spá mín endurspeglar. Það dugar því lítt fyrir Gosa að uppnefna mig „baksýnishagfræðing“. Hann er bara öfundsjúkur, með lítið sjálfstraust. Enda er hann í ruglinu þegar kemur að spám.

Fræg er spá Gosans eina sekúndu í fjármálahrunið um að betri tíð væri í vændum. Hvað varðar fullyrðingu Gosa um að hinir meintu „baksýnishagfræðingar“ viti ekki hvað eigi að gera í stöðunni í dag þá get ég upplýst hvað ég myndi gera hefði ég völd til þess.

Mitt fyrsta verk væri að kalla Alþingi saman til lagasetningar og skipta um áhöfn uppi á Svörtuloftum Seðlabankans. Ég myndi reka Gosa.

Tiltrú bankans, sem er í kjallarastöðu, myndi lyftast upp um 12 hæðir.

Næsta verk mitt væri að lækka vexti aftur til samræmis við það sem gerist í kringum okkur. Það hjálpar að viðhalda samkeppnishæfni landsins og losar fólk og fyrirtæki undan vaxtaokrinu. Síðan myndi ég setja upp traustar fjárgirðingar utan um lánveitingar banka landsins því það gengur ekki að féð hlaupi villt um allar þorpagrundir og milli sóttvarnarhólfa.

Þar næst myndi ég taka krónuna tímabundið af markaði í nafni neyðarréttar til að verja efnahagsleg landamæri á ögurstundu.

Fleiri aðgerðir kæmu til, en verða ekki tíundaðar hér.

Með aðgerðunum þá væri strax ráðist að innlenda hluta verðbólgunnar í stað aðgerða bankans sem hafa áhrif eftir langan tíma og drepa loks allt í dróma. Skipstjóri í brimskafli býr ekki við þann munað að geta dokað veðrið af sér heldur verður hann að glíma við aðstæður í núinu.

Allir vita að birta mun til, en spurningin er bara hvað má skaðinn verða mikill þar til. Þetta snýst um að lágmarka tjónið, en ekki bæta gráu ofan á svart eins og aðgerðir bankans gera.

Ákvarðanir Seðlabankans í dag beinast ekki að öllu hagkerfinu heldur að þeim sem skulda. Í því fellst mismunun, óréttur og stuðlað er að auknum ójöfnuði. Skuldarar þurfa að greiða meira til lánara.

Fyrst fyrir barði Seðlabankans verða þeir sem eru með breytilega vexti, síðar þeir sem hafa verðtryggð lán og þarna á milli aðilar með tímabundna fasta vexti, sem losna með tíð og tíma.

Það er ámælisvert og brottrekstrarsök þegar embættismaður er staðinn að ritþjófnaði, ósannindum og að uppnefna fólk sem tjáir sig málefnalega um þjóðþrifamál.

Alvarlegast af öllu eru þó axarsköft bankans, sem bitna illa á buddu landsmanna.

Burt með þennan Gosa.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: