- Advertisement -

Grá forneskja í Borgartúni 35

Hvað Ísland varðar þá var og er eina góða úrræðið að taka krónuna af markaði.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Enn ein áróðursgreinin birtist í Fréttablaði Helga Magnússonar í dag. Hún er eftir Önnu Hrefnu Ingimundardóttur hjá Samtökum atvinnulífsins. Hún eyðir mörgum orðum í að fjalla um úrelt tæki til hagstjórnar. Mælist til að aukin raunveiking krónunnar sé leiðin fram á við til að efla efnahagslífið. Hér er á ferðinni sjónarmið sem kemur úr grárri forneskju í skilningi hagfræðinnar. Ég veit ekki um eitt þróað ríki sem styðst við veikingu eigin gjaldmiðils til að bæta og örva hagkerfi sitt. Búið er að láta reyna á úrræðið og jafnframt afskrifa vegna skaðlegra áhrifa á efnahag ríkja og heimsins.

Ef ríki heims tækju upp á því að beita þessu eitraða úrræði myndi hefjast „Gjaldeyrisstríð eða Currency war“ þar sem fórnarlömbin eru launþegar, neytendur. Þegar uppi eru fordæmalausar aðstæður eins og í dag þá er afsakanlegt að grípa til viðeigandi aðgerða til að verja stöðugleikann og almannahagsmunina. Hvað Ísland varðar þá var og er eina góða úrræðið að taka krónuna af markaði í stað þess að verja milljarðatugum úr varasjóð landsins til að halda uppi fölskum markaði.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þegar gjaldmiðlar eru veiktir þá fer verðbólgudraugurinn á kreik. Þjóðhagsleg verðmæti fara forgörðum og sjálfsagi hagkerfa gufar upp. Atvinnuleysi verður kergt og vaxandi, sem aftur leiðir til aukinnar niðursveiflu. Fer þá af stað spírall sem varað getur lengur en mig langar að rifja upp. Allur vindur verður úr eftirspurnarhlið hagkerfisins. Það bitnar hart á fyrirtækjum og leiðir þau í fjöldagjaldþrot. Boðskapur Samtakanna kallar á allt þetta og er úr takt við nútíma hagstjórn.

Söguleg gögn um gengið milli evrunnar og bandaríska dollarsins sýna að sama og engin gengisbreyting hefur orðið á þeim rúmum tveimur áratugum sem liðnir eru frá sjósetningu evrunnar. Upphafsgengi hennar var 1,1789 dollarar fyrir eina evru. Í dag þá stendur krossinn í 1,17, sem mælist vera veiking upp á 0,75 prósent. Á tímabilinu þá hafa orðið öfgakenndar hreyfingar og þá helst á upphafsárum evrunnar þegar markaðsaðilar réðust á evruna til að kanna styrk hennar. Evran hafði glæstan sigur! Nýliðinn áratug eða svo þá hefur evru/dollar krossinn sýnt mikinn stöðugleika og inngrip hafa ekki sést. Þetta endurspeglar að hagkerfin reiða sig á önnur og nútímalegri hagstjórnarúrræði til að ná fram efnahagslegum úrbótum.

Síðan evran kom til sögunnar þá hefur verðbólga verið vel tamin bæði í Bandaríkjunum og innan Evrusvæðisins. Sem dæmi þá hefur evrubólgan verið að jafnaði 1,97 prósent árlega frá stofnun myntarinnar árið 1999. Fyrir utan einn öfgatopp í fjármálahruninu þá er atvinnuleysi þar vestra jafnan 4-6 prósent ef mælt er frá aldamótum og til loka síðasta árs, en þá var það komið í 3,5 prósent. Sögulegt atvinnuleysi á evrusvæðinu hefur aftur á móti verið hærra að jafnaði af ástæðum sem ekki verða raktar til gengis evrunnar. Við sjósetninguna þá var atvinnuleysi á milli níu og tíu prósent og var komið undir sjö prósent árið 2008. Í kjölfar fjármálahrunsins, sem á uppruna sinn í New York, þá fór atvinnuleysið upp í 12 prósent, en var komið aftur niður undir sjöuna á síðasta ári. Í dag stendur atvinnuleysið í átta prósentum. Sem sagt, bæði hagkerfin hafa haldið góðan sjó án þess að fikta við gengið.

Samtök atvinnulífsins eru ekki bara föst í áðurnefnda úrelta hagúrræðinu um að veiking krónunnar sé framtíðin. Þau átta sig ekki á því að hið forna og öfuga langtíma samband milli verðlags og atvinnustigs hefur tekið breytingum frá því kenningin kom fyrst fram um miðja síðustu öld. Kúrfan í dag er flatari vegna þess að hagkerfi heimsins hafa breyst og þau hafa opnast. Til skemmri tíma litið þá hefur það einnig sýnt sig að lág verðbólga og lítið atvinnuleysi fer vel saman. Þannig eru komnar fram vísbendingar um að þetta samband geti verið pósitíft, báðir mælikvarðar geta verið lágt stilltir samtímis. Ísland er dæmi um þetta jákvæða samband, en á undanförnum fimm árum eða fram að kórónuveirunni þá var lág verðbólga og lítið atvinnuleysi samstiga.

Ég tel að það sé ögurstund hjá Samtökum atvinnulífsins, ef þau vilja láta taka sig alvarlega, að tileinka sér nútíma hagfræði í stað reglubundinna árása á almannahagsmuni. Að grein Önnu Hrefnu hafi verið birt í Fréttablaðinu kemur ekki á óvart. Aðaleigandi blaðsins er hluthafi í Bláa Lóninu. Fá fyrirtæki njóta eins góðs af veikingu krónunnar og lónið. Með öðrum orðum, blaðið er misnotað í sérhagsmunagæslu fyrir eiganda þess.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: