- Advertisement -

Gripdeildir í Reykjavík: Tveimur bátum stolið

Siðla á sunnudagskvöldið var, voru nokkrir skipverjar af kolaskipinu Vanadís, hér í landi. Sex þeirra urðu nokkuð síðbúnir, og er þeir ætluðu að komast aftur á skipsfjöl, voru hinir félagar þeirra farnir á undan og höfðu auðvitað tekið með sér bátana. En þessir piltar urðu ekki ráðalausir fyrir því. Fjórir þeirra tóku bát, sem stóð í fjörunni, og Kristinn Sæmundsson sótari átti. Fluttust þeir á honum fram til skips og slepptu honum þar lausum. Bátinn rak þegar til hafs og hefir hann ekki sést síðan.

Hinir skipverjarnir, tveir, tóku pramma, sem Frederiksen kolakaupmaður átti, og létu hann einnig lausan, er þeir voru komnir á skipsfjöl. En maður, sem var á verði á kolabarki Frederiksens, sem liggur hér á höfninni, sá til þeirra og gat gefið upplýsingar, er það vitnaðist að pramminn var horfinn.

Var nú leitað hófanna hjá skipverjum, hverju þeir vildu bæta stuld þennan, en þeir brugðust ókunnuglega við, og neituðu þverlega að þeir ættu nokkurn þátt í hvarfi prammans. Leið svo mánudagurinn að engar málsbætur fengust af sökudólgunum; en nú var einnig saknað báts Kristins.

Á þriðjudagsmorgun árla, fór Þorvaldur Björnsson lögregluþjónn að finna piltana að máli, og ætlaði að heimta þá með sér í land, svo þeir yrðu löglega yfirheyrðir. En þá féll þeim allur ketill í eld og könnuðust við klæki sína.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Var þá sátta leitað, og varð sú sætt þeirra, að þeir skyldu gjalda Kristni 100 kr. fyrir bátinn, en Frederiksen 30 kr. fyrir prammann. Skipstjóri greiddi sektarféð eftir beiðni sökudólga, og fór Þorvaldur við það i land.

Frétt úr Mogganum 1913.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: