- Advertisement -

Gummi sparkar í flugfreyjur

Já, Icelandair vildi ekki gera lagfæringar á samningunum og gekk frá samningaborðinu með látum í gær.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Gummi landsliðsþjálfari í handbolta nær ekki upp í nef sér. Hann ásakar á Fésbókinni að sögn fréttamiðilsins Vísir Flugfreyjufélag Íslands (FFÍ) um að átta sig ekki á stöðu mála nú um stundir. Ja hérna hér hugsaði ég um minn forna kunningja. Ætli hann sé ekki með gott netsamband? Ég kannaði málið, jú eins og mig grunaði þá er súpersamband hjá mínum manni enda vel tæknivæddur. Það virðist aftur á móti hafa verið slökkt á netþjóninum heima hjá Gumma um langt skeið.

Eins og þjóð veit þá var búið að gera kjarasamning milli FFÍ og Icelandair. Upplýst hefur verið að flugfreyjur hafa verið án kjarasamnings í eitt og hálft ár og ekki notið kjarabóta á þeim tíma eins og aðrir. Samt buðu þær tilslakanir, aukinn sveigjanleika og lengri vinnutíma sem leitt hefði til mikilla lækkunar á rekstrarkostnaði og kjaraskerðingu fyrir félagsmenn FFÍ. Á endanum náðust samningar sem Icelandair var sátt við. Vegna mistaka í samningagerð varðandi réttindi þeirra sem starfað hafa um áratuga skeið þá var samningnum hafnað með afgerandi hætti af félagsmönnum FFÍ. Já, Icelandair vildi ekki gera lagfæringar á samningunum og gekk frá samningaborðinu með látum í gær. Reynir félagið nú að sundra FFÍ sem var stofnað árið 1954.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Getur Gummi svarað
okkur?

Fram hefur komið að laun flugþjóna og flugfreyja með áratuga reynslu sé talsvert undir meðallaunum í landinu, en meðallaun á síðasta ári voru um 530 þúsund krónur. Þannig að ætla má að laun þeirra séu um 470 þúsund eftir áratuga starf. Það er engin ofrausn. Miðað við stóryrði Gumma þá ætlast hann til að FFÍ lækki laun niður í hvað, getur Gummi svarað því fyrir okkur? Vill hann fara með launin niður í 350 þúsund krónur eins og flugfreyja hjá Easy Jet fær og býr suður á Spáni. Land með allt annan framfærslukostnað en Ísland. Ef Gummi vill láta taka mark á sér þá ætti hann að sýna gott fordæmi. Hann getur tekið að sér þjálfun hjá sínu gamla félagi Víking fyrir 350 þúsund kall „pro monat“ og sýnt flugfreyjum hvernig á að lifa á 281 þúsund krónum eftir skatta Íslandi.

Ég hugsaði aðeins málið betur hvað Gumma gengur til með því að ráðast á FFÍ því ég veit að Gummi er ekki galinn. Þá mundi ég eftir því að Icelandair er einn aðalstyrktaraðili Handknattleikssambands Íslands og þar starfar Gummi. Úps, var hann eftir allt saman að hugsa um eigin hagsmuni þegar hann ætlar öðrum að lifa á loftinu? Báðu forráðamenn Icelandair Gumma um að skrifa áróður fyrir flugfélagið? Í gamla daga þá átti Gummi það til að togna á ökla. Mér sýnist sú iðja hafa færst yfir á hinn enda líkamans.

Röð rangra og rándýrra ákvarðana.

Það er oft sagt að maður komi í manns stað, það á einnig við um fyrirtæki. Vandi Icelandair er ekkert nýtilkominn og ekki hægt að kenna eingöngu Covid-19 um ástandið. Yfirstjórn Icelandair hefur tekið röð rangra og rándýrra ákvarðana. Ef Icelandair lifir ekki eða núverandi valdhafar fyrirtækisins ráða ekki við verkefnið þá munu kröfuhafar taka firmað yfir og reka áfram. Nú eða eins og gerðist með brotthvarf Wow air þá fylla önnur flugfélög upp í skarðið. Svo er hægt að þjóðnýta fyrirtækið og selja á markaði eftir nokkur ár. Það eru margir möguleikar í stöðunni aðrir en að sparka með tánni í félagsmenn FFÍ. Fólk sem hefur þjónað Gumma og hans liðum um árabil með bros á vör um borð í vélum Icelandair. Gummi hefur fullt tilefni til að biðja þessa stétt afsökunar á orðum sínum.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: