- Advertisement -

Gunnar Smári, eigðu við mig orð!

Að bera Ísland saman við stór hagkerfi er verra.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Nýlega varstu að pæla í sveiflum gjaldmiðla. Eðlileg niðurstaða þín var að allir gjaldmiðlar sveiflast töluvert. Af þeim ástæðum veltir þú því upp að kannski væri óhyggilegt að skipta krónunni út fyrir til dæmis evru.  Mig langar að grípa boltann á lofti og rekja hann aðeins áfram.

Ég mæli með að þú reiknir út stöðugleika gjaldmiðla (volatility). Stöðugleiki upplýsir meira um hegðun gjaldmiðils en breidd sveiflunnar. Á tilteknu tímabili getur til dæmis gjaldmiðill byrjað og endað á sama stað, en verið á sama tíma mjög óstöðugur. Það er meira vandamál heldur en ytri mörk sveiflunnar. Ég man eftir þegar japanska jenið styrktist um 38% gagnvart dollar á ákveðnu tímabili og skilaði henni að mestu til baka á jafn löngum tíma. Innan tímabilsins var mikill óstöðugleiki á jeninu, þ.e. gengið breyttist oft og hratt upp og niður þó undirliggjandi stefna væri í eina átt í senn (óstöðugleiki). Það er eftirsóknarverðara að gjaldmiðill hreyfi sig eins og kvika en ekki eins og poppmaís í olíuheitum potti.  

Þú gætir haft áhuga á þessum

Hefur þú spáð í hvað inngripin kosta þjóðarbúið?

Svo eru síðustu 10 ár ekki hentugasta tímabilið til athugunar. Frá hruni hafa gjaldmiðlar heimsins verið óvenju stöðugir innbyrðis og á því eru skýringar sem ekki verða raktar hér. Ef þú skoðar síðustu 30-50 ár þá færðu aðra mynd sem sýnir krónuna ekki í góðu ljósi.

Að bera Ísland saman við stór hagkerfi er verra. Bandaríska hagkerfið með sinn sterka og trúverðuga dollar er minna háð utanríkisverslun. Seðlabankinn þar hefur litlar áhyggjur af breytingum á gengi dollars og lætur markaðinn um verðmyndun. Ég hygg að sveiflur og óstöðugleiki krónunnar væri miklu meiri ef ekki væri fyrir tíð inngrip Seðlabanka Íslands (handstýring gengis).

Hefur þú spáð í hvað inngripin kosta þjóðarbúið? Við erum að tala um háar fjárhæðir. Gjaldeyrisforði seðlabankans í dag er 352% meiri en hann var árið 2007. Stendur hann nú í circa 800 milljörðum en var 163 milljarðar árið 2007 (árið fyrir hrunið). Á sama tíma stækkaði hagkerfið um 103%. Þarna munar 469 milljörðum miðað við ef forðinn hefði þróast eins og hagkerfið. Fjárhæð sem nota mætti í þarfa hluti eins og að borga niður erlend lán þjóðarinnar og lækka þar með vaxtabyrðina. Nú eða setja peningana í samfélagsmál eða lækka skatta. Það er pólitísk ákvörðun. Nei, það er ekki að gerast, veik og ótrúverðug króna heimtar þessa peninga að baki sér. Þetta sýnir aðra hlið á því hversu dýrt er að halda í íslenska krónu. Hin hliðin er hátt vaxtarstig sem allir þekkja.  

Með evru væru Íslendingar lausir við þennan tröllvaxna kostnað við krónuna um leið og við losnum við 42% af sveiflu hennar samkvæmt þínum útreikningum. Evra myndi þannig bæta hag neytenda er það ekki? Þetta þekkja íslenskir lífskjaraflóttamenn!

Við þær aðstæður á Seðlabanki Íslands engan séns gegn fjármálamörkuðum heimsins.

Fortíðin endurtekur sig og enginn skal halda að óðaverðbólga og efnahagsskjálftar geti ekki kíkt aftur óboðin í heimsókn. Þá mun veik og óstöðug króna lyppast niður. Við þær aðstæður á Seðlabanki Íslands engan séns gegn fjármálamörkuðum heimsins. Aðgerðir bankans myndu líta út eins og spýtnarusl á Hornströndum.

Nýlegar hræringar rússnesku rúblunnar er ágætt dæmi hvað gerist fyrir óstöðuga og ótrúverðuga gjaldmiðla þegar áföll ríða yfir. Rúblan tapaði 58% af virði sínu gagnvart dollar árið 2014 á svipstundu. Þar reyndi seðlabankinn að grípa inn í og hækkaði líka stýrivexti í 17%. Þær aðgerðir virkuðu ekki og landsframleiðslan féll um 38% næstu tvö árin á eftir. Svipaða sögu má segja um tyrknesku líruna sem tapaði 35% að verðgildi sínu árið 2018 gagnvart dollar eftir að Trump tvöfaldaði tolla á stál og ál frá Tyrklandi. Þetta eru gjaldmiðlar stórra hagkerfa sem hrundu eins og spilaborg þegar fjármálamarkaðir heimsins hnykluðu vöðvana. Þú skilur hvað ég er að fara.

Sem hlutfall af landsframleiðslu þá er gjaldeyrisforðinn á Íslandi 47% meiri en forðinn var hjá Rússum þegar gjaldeyriskrísan þar reið yfir. Over and out!


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: