- Advertisement -

Gylfi Þór Sigurðsson ekki valinn í landsliðið

Það er gervi-hagstjórn að treysta sífellt á inngrip Seðlabankans inn á gjaldeyrismarkaðinn.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Þegar Gylfi Þór er ekki valinn í landsliðið þá vekur það heimsathygli. Hann er okkar besti knattspyrnumaður til margra ára og hefur spilað meðal þeirra bestu í heiminum. Í þessum félagsskap þá hefur hann bætt sig og þróað leik sinn. Aðlagar sig tíðum breytingum og uppfærir eigin kunnáttu. Hann lærði ekki fótbolta með því að lesa bækur um knattspyrnu eða með því að hlusta á fyrirlestra inn í einhverjum skólum. Nei, hann er búinn að vera út á akrinum að iðka greinina þar sem hlutirnir gerast og þróast. Þekking hans á gangverki knattspyrnunnar er óumdeild. Hann vinnur í kviku umhverfi og er þrautþjálfaður í að taka ákvarðanir fyrir liðið sem ráða úrslitum leikja. Svo góður er hann að landsmenn rísa upp í mótmælaskyni ef hann er ekki valinn í landsliðið enda á landsliðið alltaf að vera skipað þeim bestu. 

Sami háttur er ekki hafður á þegar valið er í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands. Nefnd sem ákvarðar vaxtarstig landsins sem hefur mikil áhrif á lífskjör. Nefndin er ekki skipuð landsliðsmönnum á sviði fjármálahagfræði sem búa yfir djúpstæðri praktískri reynslu af gjaldeyrismarkaðnum eins og Gylfi Þór hefur á knattspyrnu. Nefndarmennirnir hafa ekki verið út á gjaldeyrisakrinum.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Helst af öllu þá þarf viðkomandi að hafa höndlað með sitt eigið fé án björgunarkúts.

Enginn markaður er eins kvikur og margflókinn og gjaldeyrismarkaður heimsins. Djúpstæð þekking fæst ekki nema með því að vera út á akrinum í mörg ár. Ekki skemur en 10 ár og best er ef viðkomandi hefur reynslu af einu stykki kreppu. Helst af öllu þá þarf viðkomandi að hafa höndlað með sitt eigið fé án björgunarkúts. Með þeim hætti lærir viðkomandi að skilja klukkuverkið í bak og fyrir. Viðkomandi lærir muninn á því að vera ráðgjafi og að taka afdrifaríkar ákvarðanir sem hafa bein áhrif á eigin fjárhagsstöðu. Þeir sem öðlast hafa þessa dýpt og þekkingu á gangverki gjaldeyrismarkaðarins segja stundum við hina reynslulitlu ráðgjafa  „put your money where your mouth is“ eða „iðkaðu eigin ráðgjöf“. Ég nefndi gjaldeyrismarkaðinn sérstaklega vegna þess að Ísland er með sjálfstæða ör mynt í opnu hagkerfi. Slík mynt mótar alla hagstjórn ef rétt er staðið að málum.

Þetta orsakasamhengi misskilja margir. Af þessum ástæðum þá hef ég ítrekað sett fram þá skoðun að taka þurfi krónuna tímabundið af markaði þar til afleiðingar Covid-19 eru gengnar alveg yfir. Krónan hefur veikst þó nokkuð og meiri veiking er í spilunum. Það er gervi-hagstjórn að treysta sífellt á inngrip Seðlabankans inn á gjaldeyrismarkaðinn. Við núverandi fordæmalausu aðstæður þá verður að grípa til efnahagsaðgerða sem í eðli sínu veikja smá myntir og því þarf að aftengja krónuna við markaðinn. Þetta þekkist víðar en margur telur.

Þannig að þessi hópur er ekkert landslið, ekki einu sinni b- eða c-lið.

Þegar ég skoða bakgrunn þeirra sem sitja í peningastefnunefnd þá vantar augljóslega bæði þá  þekkinguna og reynslu sem um ræðir. Tveir nefndarmenn koma innan úr háskólasamfélaginu með sérþekkingu í vinnumarkaðsmálum og krísustjórnun. Sá þriðji sækir einnig reynslu til vinnumarkaðarins og hefur einnig unnið lengi innan bankans. Sá fjórði er sérfræðingur á sviði peningamálahagfræði og með vafasama reynslu innan úr hrunabankanum Kaupþingi. Þar fór hann fyrir allri greiningar- og spávinnu sem margir landsmenn hlutu fimmta stigs brunasár af. Hann er jafnframt sonur fyrrverandi ráðherra VG, en formaður flokksins fer með málefni Seðlabankans í ríkisstjórninni. Sá fimmti er lögfræðingur með minnanám (ársnám) í viðskiptafræði. Hans reynsla er helst á sviði gagnaöryggis. Þannig að þessi hópur er ekkert landslið, ekki einu sinni b- eða c-lið.

Þetta er fólkið sem ákvarðar hver lífskjörin okkar eru að stórum hluta. Nefndin hefur einni áhrif á samkeppnishæfni landsins. Má ég frekar biðja um að nefndin sé skipuð fólki í sama gæðaflokki og Gylfi Þór. Svo er það fólkið sem valdi í nefndina, hver er þekking þeirra á málefninu?


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: