- Advertisement -

Hægfara rányrkja

Jóhann Þorvarðarson:

Samt er verðbólgan áþekk hjá þessum löndum. Þetta er kostnaðurinn við að halda uppi ósyndum gjaldmiðli, sem er ekki annað en skemmdarvargur.

Fjármálaráðherra landsins sagði orðrétt á Alþingi í dag „Það er tilfellið með verðtryggð lán að þau bjóða lántakandanum upp á minni mánaðarlega greiðslubyrði, sérstaklega þessi dæmigerðu verðtryggðu lán, sem getur verið algjör lífsbjörg fyrir þá sem hafa tekið óverðtryggt lán og eru núna að upplifa mikla hækkun á greiðslubyrðinni.“ Eins og gjarnan þá segir núverandi fjármálaráðherra aðeins hálfa söguna eða þann helming sem er honum þóknanlegur. Þannig nær hann að hylma yfir óstjórnina og óstöðugleikann. Eða það heldur hann.

Mynd eitt sýnir þessa þóknanlegu frásögn um að mánaðarlegar afborganir verðtryggðra íbúðalána séu lægri en annara lána. Sá sem er með 35 milljón króna óverðtryggt lán á breytilegum vöxtum er að greiða 64 þúsund krónum meira í hverjum mánuði en sá sem er með sama lán verðtryggt.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Hinn helmingur sögunnar er svo sagður á mynd 2. Að óbreyttu þá mun sá sem er með verðtryggða lánið borga 75 milljónum króna umfram þann sem er með óverðtryggða lánið á breytilegum vöxtum. Það má gera ýmislegt við slíka fjárhæð á lífsleiðinni, en í staðinn er sá sem er með verðtryggða lánið fastur með gaddaða skuldaól utan um hálsinn. Ríkisstjórnin ber alla ábyrgð á hörmungarástandinu sem uppi er ásamt seðlabankastjóra landsins.

Vandamálið er að opinberir valdamenn vilja ekki að landsmenn njóti hagsins af því að taka upp evruna. Á meðan íbúðalánavextir á Íslandi eru 7,5 prósent þá eru þeir til dæmis aðeins 3,6 prósent í Þýskalandi og 2,8 prósent í Finnlandi samkvæmt Evrópska seðlabankanum. Samt er verðbólgan áþekk hjá þessum löndum. Þetta er kostnaðurinn við að halda uppi ósyndum gjaldmiðli, sem er ekki annað en skemmdarvargur. Furðulegt er að þetta skuli viðgangast og segir mér að þrælslundin sé enn fyrirferðamikil í sinni landans. Mætti halda að þetta krónuhringl sé partur af genamenginu. Getur Kári Stefánsson ekki reddað þessu og af-genað gallann?


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: