- Advertisement -

Halldór Benjamín kaupir sér pils

Jóhann Þorvarðarson:

Þá var milljörðum króna mokað til fyrirtækja sem þurftu ekkert á stuðningi að halda. Nærtækt er að nefna Bláa lónið og umboðsaðila Toyota á Íslandi. Það síðarnefnda notaði ríkisgjöfina til að greiða út arð til hluthafa.

Það er fagnaðarefni að Halldór Benjamín Þorbergsson sé að hætta sem framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Hann hefur nefnilega ástundað ómerkilegan áróður í kringum kjarasamninga með það fyrir augum að skapa hræðslu meðal launafólks. Margar yfirlýsingar hans endurspegla mann sem er þjakaður af yfirgengilegri frekju, mannfyrirlitningu og lítilmennsku enda ræðst hann gjarnan á garðinn þar sem hann er allra lægstur. Hefur óhikað sparkað í lægst launaða fólk landsins og beitt það framfærsluofbeldi. Það virðist vera hans vörumerki að velja sér andstæðing sem getur vart varið sig, fátækt fólk.

Stundum finnst mér eins og Halldór Benjamín sé vitstola í framgöngu sinni. Hann óð til dæmis allar saurleiðslur borgarinnar í öfgafullri tilraun til að ræna lýðræðislegum og stjórnarskrárvörðum samningsrétti af  Eflingu.

Annað uppátæki Halldórs Benjamíns er að kalla eftir því að hið opinbera skeri niður hjá sér án þess að marktæk rök fylgi með kröfunni. Þetta heyrist gjarnan frá honum þegar frekjuköstin fá ekki reglubundna útrás. En nú er gamla Bleik brugðið ef hann er þá ekki dauður. Halldór Benjamín er víst búinn að ráða sig til starfa hjá fasteignafélaginu Reginn hf.

Ráðning Halldórs Benjamíns verður að teljast í besta falli óskiljanleg þar sem Lífeyrissjóðir eiga vel yfir 50 prósent af öllu hlutafé Regins.

Samkvæmt yfirlýstri stefnu fyrirtækisins þá vill það auka hlutdeild opinberra aðila af leigutekjum fyrirtækisin. Er nú svo komið að 42 prósent tekna koma frá opinberum aðilum. Þannig að hinn kjaftgleiði Halldór Benjamín hefur ákveðið að leita sér skjóls hjá þeim sem hann hefur atast mest í á undanförnum árum, en það hefur vart farið fram hjá nokkrum manni að maðurinn er við það að kasta upp í hvert skipti sem hann ávarpar hið opinbera. Á þessu er þó ein undantekning eða þegar Bjarni Ben fjármálaráðherra sett upp sjálfvirkt færiband beint inn í ríkissjóð á kovít-19 tímum. Þá var milljörðum króna mokað til fyrirtækja sem þurftu ekkert á stuðningi að halda. Nærtækt er að nefna Bláa lónið og umboðsaðila Toyota á Íslandi. Það síðarnefnda notaði ríkisgjöfina til að greiða út arð til hluthafa. Þá brosti Halldór Benjamín sínu breiðasta brosi og hafði ekki uppi nein orð um ráðdeild í ríkisrekstri.

Samhliða opinberri tilkynningu um að Halldór Benjamín taki senn við daglegri stjórn Regins þá var sagt frá því að hann hafi keypt hlutafé fyrir meira en 200 milljónir króna í félaginu, sem er skráð á opinberan hlutabréfamarkað. Þetta hlýtur að vera eitt af dýrari pilsum Íslandssögunnar nú þegar hann kemur sér vel fyrr undir pilsfaldi hins opinbera. Þar sem Reginn er skráð á opinberan hlutabréfamarkað þá hlýtur Halldór Benjamín að upplýsa um hvaðan fjárfestingarfé hans er komið.

Fólk spyr sig hvernig hægt er að beita fátæklinga framfærsluofbeldi á sama tíma og viðkomandi liggur á gulli. Það er eitthvað soralegt við þannig manneskju enda stafar ýldan af manninum. Fólk fær núna að sjá inn í speglasalinn hans Halldórs Benjamíns þar sem hann geymir hin mörgu andlit sín innan um silkisaumaðar flíkurnar.

Ragnar Þór Ingólfsson hefur skrifað mikið um aðkomu Halldórs Benjamíns að málefnum Lindarvatns (Landsímareiturinn) án þess að málið hafi verið útkljáð opinberlega.  Maðurinn á víst að vera tengdur einhverjum undarlegum snúningum í kringum fyrirtækið þar sem viðskiptavild rauk skyndilega upp um marga milljarða króna án þess að fyrirtækið væri komið með tekjur eða búið að reisa hótelið á reitnum. Sjálfur skrifaði ég grein um málið samanber þessi grein hérna Davíð, Ragnar Þór og Halldór Benjamín á flugi!

Ráðning Halldórs Benjamíns verður að teljast í besta falli óskiljanleg þar sem Lífeyrissjóðir eiga vel yfir 50 prósent af öllu hlutafé Regins. Hann hefur einmitt haft það starf undanfarin ár að halda launum fátæklinga niðri og þar með iðgjöldum sem renna til sjóðanna. Hvoru tveggja vinnur gegn langtímahagsmunum lífeyrissjóða. Sjálfur tel ég ráðninguna siðlausa enda er verið að senda fólki upprétta og útataða löngutöng.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: