
Jóhann Þorvarðarson:
Má segja að trúverðugleiki Íslands sé að veði, sem fjármálaráðherra leikur sér að eins og þetta sé hans einkaeign.
Viðbrögð fjármálaráðherra einkennast af vanstillingu, örvæntingu og tilraunum til blekkinga.
Fjármálaráðherra rífst nú við Már Wolfgang Mixa, lektor við Háskóla Íslands, sem lét hafa eftir sér í Kastljósi að ef ÍL-sjóði yrði slitið þá myndi það vera túlkað sem greiðslufall á ríkissjóð. Jafnvel þó ríkið myndi greiða upp skuldbindingar sjóðsins. Og það myndi hafa neikvæð áhrif á lánshæfi Íslands. Þessu hafnar fjármálaráðherra og segir að virkjun ábyrgðar ríkissjóðs yrðu túlkaðar sem efndir og það sé andstæða greiðslufalls. Viðbrögð fjármálaráðherra einkennast af vanstillingu, örvæntingu og tilraunum til blekkinga.
Það er því best að skoða hvernig alþjóðlegu matsfyrirtækin líta á Ísland og til hvaða atriða er litið. Þó ber að hafa í huga að fjármálaráðuneytið hefur talsverða aðkomu að matinu með því að fóðra matsfyrirtækin á þóknanlegum upplýsingum og viðhorfum. Í þessu samhengi þá er ég viss um að málefni ÍL-sjóð hafa ekki borið á góma og að tíðindin muni koma fyrirtækjunum á óvart.
…nýjasta útspilið gæti verið tilraun til að ná fram einkavæðingu bankans.
Um miðjan september þá kom nýtt lánshæfimat frá Fitch og fær Ísland þriðju einkunn eða A. Þetta er prýðileg einkunn þó númer þrjú sé. Þetta eru bronsverðlaun. Í rökstuðningi segir að skuldir ríkissjóðs í hlutfalli við landsframleiðslu séu 75% og hafi lækkað úr 77% frá árinu áður vegna hagvaxtar og sölunnar á Íslandsbanka. Þetta er samt hátt skuldahlutfall fyrir lítið hagkerfi með veikan gjaldmiðil. Við erum á hættuslóð og alveg sérstaklega þegar vextir og verðbólga eru á uppleið.
ÍL-sjóður er í eigu ríkisins og ekki hægt að aðskilja hann frá ríkissjóði og þetta veit fjármálaráðherra vel. Þess vegna reynir hann með hótunum að fá lífeyrissjóði landsins til að taka á sig skakkaföll hins sukksama ÍL-sjóðs. Að öðrum kosti þá aukast skuldir því Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki hækka skatta. Spáð er afar litlum hagvexti á næstu árum og ef ekki á að auka skuldir þá verður að selja ríkiseignir. Og þá horfir Sjálfstæðisflokkurinn til Landsbankans, en það er bara ekki pólitísk samstaða um þá sölu. Þannig að nýjasta útspilið gæti verið tilraun til að ná fram einkavæðingu bankans.
Greiðslufall ÍL-sjóðs mun ekki fara fram hjá alþjóðlegum fjármálamörkuðum, sem munu vafningalaust hækka áhættustuðulinn, sem fólgin er í því að lána Íslandi. Það mun rýra vaxtakjörin og samkeppnishæfni landsins. Þróunin mun einnig hafa áhrif á viðhorf matsfyrirtækjanna. Ef tugir og upp í hundruð milljarða króna falla á ríkissjóð þá fellur einkunnin í fjórða flokk, BBB. Jafnvel í fimmta flokk, BB. Á því leikur enginn vafi í mínum huga. Síðarnefnda einkunnin er verulega vont mál.
Fitch styðst við enduróm og væntingar fjármálaráðherra um að verðbólga hafi toppað, en forsenda er í meira lagi vafasöm, hæpin, og illa rökstudd. Ef verðbólga hefur ekki toppað þá hefur það áhrif á matið.
Landsmenn munu síðan spyrja af hverju var enn einu málinu sópað undir gólfábreiðuna á skrifstofu fjármálaráðherra?
Það er meira á bak við einkunnina A, en skuldastaða. Þar má til dæmis nefna stjórnsýslu og stjórn landsins. Ef ÍL-sjóður fellur þá er það blettur á hvoru tveggja. Þetta er önnur ástæða þess að fjármálaráðherra fer nú fram með grófar hótanir í garð lífeyrissjóða. Hann veit sem er að einkunnin A er í hættu og að það verði dýrkeypt.
Enn annað atriði að baki einkunn Fitch er stærð lífeyrissjóðakerfisins og aðgengi ríkissjóðs að fjármunum sjóðanna með útgáfu ríkisbréfa. Ef fjármálaráðherra stendur við hótanirnar þá munu lífeyrissjóðirnir bregðast við á tvennan máta. Í fyrsta lagi, þá munu sjóðirnir hækka ávöxtunarkröfuna gagnvart ríkissjóði og ná þannig skaðanum til baka og í öðru lagi þá munu þeir fjárfesta erlendis í auknu mæli enda stefnt að því að þeim verði heimilað að ráðstafa 65% af eignum til útlanda. Hvoru tveggja mun vekja athygli hjá matsfyrirtækjunum og valda lækkun á lánshæfieinkunn Íslands.
Síðan er það orðsporsáhættan sem komin er upp. Við greiðslufall ÍL-sjóðs þá þurfa stjórnvöld að svara matsfyrirtækjunum af hverju málið var ekki rætt áður en septembermat Fitch kom út. Landsmenn munu síðan spyrja af hverju var enn einu málinu sópað undir gólfábreiðuna á skrifstofu fjármálaráðherra?
Hvergi í rökstuðningi Fitch fyrir einkunninni A er minnst á ástand ÍL-sjóðs og er rétt mánuður liðinn frá útgáfu matsins. Má segja að trúverðugleiki Íslands sé að veði, sem fjármálaráðherra leikur sér að eins og þetta sé hans einkaeign.