
Jóhann Þorvarðarson skrifar:
Ólýðræðiskjörinn aðili var gerður að ráðherra umhverfismála. Rökin voru að hann væri svo mikill séffi, tákngervingur umhverfisverndar.
Katrín Jakobsdóttir og Vinstri græn (þykjustunni umhverfisflokkur) ákvað að ná sérstaklega í Guðmund Inga Guðbrandsson út fyrir eigin þingflokk til að gegna embætti umhverfisráðherra í síðustu ríkisstjórn. Ólýðræðiskjörinn aðili var gerður að ráðherra umhverfismála. Rökin voru að hann væri svo mikill séffi, tákngervingur umhverfisverndar. Annað kom í ljós enda sinnti hann lítið sem ekkert málefnum hafsins, stærsta vistkerfi veraldar. Eitt af fyrstu verkum hinnar meintu táknmyndar var að taka þátt í að afnema lýðræðislega ferla til að menn gætu hraðað sér við að skaða náttúru sjávar. Krafa um fullnægjandi umhverfismat laxeldis í sjó var afnumið. Og komið var í veg fyrir almenna umræðu meðal landsmanna um það lagafrumvarp sem lá fyrir. Þetta staðfestir Eftirlitsstofnun Evrópska efnahagssvæðisins.
Nú geta vanskapaðir og sjúkir laxar synt í búrum án tillits til áhrifanna á umhverfið. Mengandi úrgangur, ólyfjan og önnur óþrif safnast upp í mengunarhauga á sjávarbotni. Allt til þess að svala norskum græðgisöflum, fáeinum Íslendingum og skapa fáein störf. Síðan er mikið af laxinum slátrað um borð í erlendu sláturskipi, mannað af erlendu láglaunafólki. Meint verðmæti sigla brosandi frá lánni eins og títt er um nýlendur og vanþróuð ríki. Upprunalandið græðir minnst. Mengunin verður aftur á móti öll eftir í fjörðunum. Afgjald laxeldisfyrirtækja fyrir að menga er efni í þorraskaup. Dugar hvorki til að hreinsa upp né til sómasamlegs eftirlits með umhvefisskaðanum.
Þessa fáu klukkutíma sem það tók að setja laxeldislögin þá sagði sá sem nú er orðinn tákngervingur sjávarmengunar að lög væru ekki brotin. Nú þegar annað er komið í ljós lætur Guðmundur Ingi sem ekkert sé og er orðinn að andliti sjávarmengunar.