- Advertisement -

Harakírí í boði Sjálfstæðis- og Miðflokks

Landið hefur ekki efni á niðurskurði í opinberum rekstri við núverandi aðstæður.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Sjálfstæðisflokkur og Samtök atvinnurekenda hrópa reglulega að opinber starfsemi sé orðin of umfangsmikil. Þetta hefur verið fullyrt án þess að útskýra hvað sé of mikið og af hverju það er of mikið. Þetta er svona gaspur út í loftið. Frjálshyggju-kapítalistinn Óli Björn Kárason er duglegur í þessum efnum án þess þó að hann hafi rökstutt fullyrðingar sínar. Nú hefur helsti Klausturdóni landsins Bergþór Ólason þingmaður Miðflokksins bæst í kórinn. Aðspurður í Kastljósi hvernig best væri að bregðast við aðsteðjandi efnahagskreppu þá sagðist hann vilja minnka báknið. Eins og aðrir upphróparar þá færði hann engin rök fyrir máli sínu.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Á myndinni sem fylgir má glögglega sjá að rekstur hins opinbera (ríki og sveitarfélög), sem hlutfall af landsframleiðslu, er nokkuð stöðugur ár frá ári. Í dag þá er hlutfallið á sömu slóðum og það var um aldamótin. Við fjármálahrunið þá rauk hlutfallið yfir 54 prósent þökk sé bestu vinum Sjálfstæðis- og Framsóknarflokksins. Síðan þá hefur hlutfallið farið lækkandi. Vegna veirufaraldursins þá mun hlutfallið fara tímabundið upp vegna minni landsframleiðslu. Síðan kemur hagvöxturinn til baka og hlutfallið færir sig þá á kunnuglegar slóðir. Fjölmörg farsæl lönd hafa hærra hlutfall en Ísland í þessum efnum. Þar má til dæmis nefna Austurríki, Danmörk, Finnland, Frakkland, Kanada, Luxemborg, Noreg, Svíþjóð og Þýskaland. Hlutfall Bretlands nálgast það íslenska hratt.  

Halldór Benjamín Þorbergsson og Bjarni Benediktsson:
Félagsmenn beggja hljóta að spyrja sig hvort ekki sé tímabært að skipta um menn í brúnni. 

Þegar veiran kom upp þá hefur Sjálfstæðisflokkurinn og Samtök atvinnurekenda rekið óvenju ósvífinn áróður um að draga þurfi úr umsvifum hins opinbera. Sú stefna mun einungis dýpka og lengja niðurdrátt hagkerfisins. Mikið atvinnuleysi verður viðvarandi vandamál og það framkallar niðursveifluspíral sem dýrt verður að snúa við. Eftirspurn neytenda mun dragast hratt saman og fjöldagjaldþrot félagsmanna Samtaka atvinnurekenda verður staðreynd. Þessi vanhugsaði áróður vinnur þannig gegn hagsmunum fyrirtækja landsins. Spyrja verður hverjir innan Sjálfstæðisflokksins og Samtaka atvinnurekenda eru ábyrgir fyrir þessari vanhugsuðu herferð gegn almannahagsmunum. Félagsmenn beggja hljóta að spyrja sig hvort ekki sé tímabært að skipta um menn í brúnni.  Það er viss ögurstund varðandi framhaldið og því full ástæða að varast áróður upphrópara og þá alveg sérstaklega ef þeir eru einnig hinir mestu Klausturdónar. Landið hefur ekki efni á niðurskurði í opinberum rekstri við núverandi aðstæður. Það væri blóðrautt harakírí.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: