- Advertisement -

Harakírí ríkisstjórnarinnar?

Þegar krónan hrundi síðast þá fór verðbólga upp í 18%.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Kynntar aðgerðir ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum vegna kórónaveirunnar munu reynast skammgóður vermir, jafnvel vera til óbóta þegar upp er staðið. Verst af öllu er að stjórnin guggnar á að taka tvær bráðnauðsynlegar ákvarðanir vegna þess að hún trúir að efnahagskerfið hafi aldrei verið betur í stakk búið að takast á við efnahagshögg. Þetta er óskhyggja vegna þess að aðsteðjandi efnahagsvandi er stærri og flóknari en áður hefur sést. Afgirða þarf efnahaginn með granítgirðingu án tafar.

Neðangreindar ákvarðanir gagnast öllum, ekki bara sumum, virka strax og munu verja heildina til frambúðar, en um það snýst málið. Að framkvæma þær ekki mun reynast harakírí ríkisstjórnarinnar:

Þú gætir haft áhuga á þessum
  • 1.     Taka verður krónuna strax af markaði eins og ég hef sagt í fyrri greinum. Í dag bíður hún örlaga sinna alveg nakin. Krónan á ekki möguleika ef gjaldeyrismarkaðir fara gegn henni. Forex markaðurinn er ævintýralega stór í heiminum og lítur varasjóður Seðlabankans út eins og hvert annað spýtnabrak í samanburði. Bara einn sæmilegur gammasjóður á Wall Street er stærri. Þegar krónan hrundi síðast þá fór verðbólga upp í 18%. Hún gæti farið hærra núna ef krónan er höfð frjáls á markaði. Þá hefjast aftur stórfelldir eignatilflutningar frá skuldurum með verðtryggð lán til fjármagnseigenda. Ójöfnuður í landinu mun þá aukast!
  • 2.     Færa verður vexti strax niður í núll prósent eins og stóru hagkerfin hafa gert. Með núll prósent grunnvexti þá lækkar kostnaðargrunnur fjárfestingakosta. Opnast þá strax fyrir litla fjárfestingarmöguleika með lága arðsemi og litla áhættu. Fjölmargir einkaaðilar munu fara af stað sem annars sitja heima vegna áhættufælni. Einnig er að meira ráðstöfunarfé er skilið eftir hjá skuldurum. Hvoru tveggja stjakar við eftirspurnarhlið hagkerfisins.

Síðan á að láta markaðinn hreinsa sig án afskipta ríkisstjórnarinnar. Til að koma til móts við fólk án atvinnu þarf að greiða borgaralaun í stað atvinnuleysisbóta. Það byggir frekar upp sjálfsvirðingu fólks, upprætir fátækt og minnkar stéttaskiptingu, þ.e. launaskalinn dregst saman. Rúsínan er að þetta skýtur sterkari stoðum undir efnahags- og atvinnulífið en ella!


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: