- Advertisement -

Bernskuheimili Bítlanna

Þetta eru bernskuheimili þeirra fjórmenninga. Og á þeim sést vel stéttaskiptingin innan Bítlanna, sem og innan bresks samfélags – enn í dag.

Fyrst sjáum við að heimili Lennons er það eina, sem er í einkaeigu. Það var eign Georges Smith tannlæknis, eiginmanns „Mimi frænku“ sem gat ekki alið honum börn og tók því John að sér eftir skilnað Juliu og Alfreds Lennon, svo Julia gæti náð sér í annan mann, því fordómar gagnvart einstæðum mæðrum voru svo miklir, þar og þá. Man eftir slíkum fordómum á Íslandi a.m.k. fram yfir 1970.

Takið eftir að það er umtalsvert hærra til lofts hjá Lennon, en hinum. Og að þar eru stöðluð glerlistaverk í rúðunum. Ekki hjá hinum. Og, að hjá Ringo er enginn gluggi opnanlegur, ólíkt gluggum hinna.

Heimili Lennons var með þessum „bay windows“ sem þykir mjög fínt hér. Þá sést til þriggja átta úr glugganum. Lennon er sá eini sem bjó við sérsmíðaða forstofu, ferkantaða og vel glerjaða og þar var þykkt þrep niður á gangstétt. Stóri glugginn til hægri er fremri stofan og yfir henni er hjónaherbergið. Yfir forstofuhúsinu var einkaherbergi Johns. Þrír bay windows er mjög fínt og dýrt, enn í dag. Þetta er millistéttarheimili. Heimili Pauls og Georges eru keimlík, en þó er sá augljósi munur að yfir útidyrunum hjá Paul er klósettgluggi. Þar var sum sé inniklósett, sem þótti lúxus hjá lágstéttunum. Hjá George og Ringo voru kamrar úti í bakgarði.

Þú gætir haft áhuga á þessum
McCartney bræður sváfu saman tveir í herbergi, rétt eins og Harrison bræðurnir fjórir, sem sváfu í kojum í sama herbergi.

McCartney bræður sváfu saman tveir í herbergi, rétt eins og Harrison bræðurnir fjórir, sem sváfu í kojum í sama herbergi. En, þótt fjárhagsleg afkoma fjölskyldna þeirra hafi sjálfsagt verið svipuð, var ýmislegt sem skildi þá að. Pabbi Pauls, „Jimmy Mac“ átti litla hljóðfæra- og nótnabókabúð (var sjálfs síns herra) og spilaði með eigin hljómsveit allar helgar á árshátíðum og öðrum veislum, um alla Liverpool, (vann tvöfalda vinnu alla sína tíð) og Mary mamma Pauls var ljósmóðir. Harold pabbi Georges keyrði rauðan, tveggja hæða strætó og Louise mamma hans afgreiddi á kassa í kjörbúð. Þetta er ekki endilega fjárhagslegur munur, en mikill menningarmunur. George kom úr ekta verkamannastétt, meðan hægt væri að kalla Paul ögn hærra settan. Og þegar litið er til markmiða þessara sex drengja (Harrisonanna og McCartneyanna) er freistandi að segja að Paul komi úr lægri millistétt, (pabbi hans var „sjálfstæður atvinnurekandi“). Paul ætlaði að verða hljómlistarmaður og Michael bróðir hans ætlaði að verða myndlistarmaður. Og þeir urðu það. Slík markmið eru millistéttarinnar. Verkalýðinn dreymir engan slíkan hégóma George dreymdi um að verða iðnaðarmaður og varð rafvirki, sem var tveggja ára verknám eftir skyldunám. Og hann var „menntamaðurinn í fjölskyldunni“. Af bræðrum hans þrem fer engum sögum. Þeir hafa sennilega orðið atvinnubílstjórar eins og pabbinn. Keyrt strætó, rútur, leigubíla eða trukka.

Þá er það Ringo. Þið sjáið að þar er búið að múra upp í gluggann yfir útidyrunum, til hægri. Það þýðir að þar hefur ekki verið nein kynding.

Þá er það Ringo. Þið sjáið að þar er búið að múra upp í gluggann yfir útidyrunum, til hægri. Það þýðir að þar hefur ekki verið nein kynding. Kalt á vetrum og gluggar illa séðir. Mig minnir að hálfsystkini Ringos hafi orðið átta, eða níu, allt í allt. Fósturpabbi hans var verkamaður í dráttarbrautinni í slippnum í Liverpool. Mamma hans var bara alltaf ófrísk. Og svo var mamma hennar, amma Ringos. Hún dýrkaði Ringo meira en aðrar jarðneskar verur. Og það var gagnkvæmt. Þau voru sem sagt að minnsta kosti tólf í þessum þröngu húsakynnum. Og um nætur varð svo loftlaust að sú gamla ræsti krakkana kl. sjö á morgnana og rak þá út á götu, svo þau köfnuðu ekki af súrefnisskorti. Þau voru kölluð inn á matmálstímum. Annars voru þau bara úti á strætunum. Ringo var því ekta götustrákur. Enda byrjaður að nota tóbak og áfengi áður en hann byrjaði í barnaskóla. Hvort sem það var nú þeim óhollu nautnum að kenna, eða súrefnisleysinu, þá var hann alger sjúklingur sín fáu barnaskólaár. Var kallaður Lazarus í skólanum, þar sem hann lá fram á borðið og svaf, ýmist veikur eða fullur, eða hvoru tveggja. Hann var oft á sjúkrahúsi. Eitt árið var hann yfir ellefu mánuði samfellt á spítala. Ég tel að þessi bernska hans og hve oft hann lá fyrir dauðanum hafi gefið honum þessa auðmýkt og hlýju gagnvart öllu fólki, sem einkennir hann enn í dag. Þakklæti fyrir að fá að lifa.

George Harrison og John Lennon.

Ég lýk þessari hugleiðingu á eftirfarandi: Mimi frænka, hin fína frú, hafði skömm á drykkfelldri systur sinni og var mjög ofbeldishneigð. T.d. þegar John kynnti hana fyrir Cynthiu, fyrri eiginkonu sinni, þá varð hún svo reið að hún henti í hann spegli! Cynthia væri svo langt fyrir neðan hans virðingu, að mati Mimi frænku. Hún lamdi John eins og harðfisk alla bernskuna. En út á við var hann flottasti krakkinn í sínum borgarhluta. Gekk alltaf í klæðskerasaumuðu. Seinna átti líkamleg ofbeldishneigð eftir að valda honum endurteknum vandræðum í mannlegum samskiptum. Sagt er að eitt það besta sem gerðist hvað það varðar, þegar Ringo gekk í bandið. John hætti þá að lemja Paul og George í hvert sinn er hann reiddist. Ringo bjó yfir „tilfinningagreind“ og fann á sér hvert stefndi og sneri út úr fyrir John með aulabröndurum og orðhengilshætti sem John dýrkaði og reiðin breyttist í skellihlátur.

Og, þegar horft er yfir æfi þessara fjórmenninga, sýnist mér að John, sá ríkasti, hafi alltaf verið vansælastur, en Ringo, sá fátækasti, hafi alltaf verið hamingjusamastur.

Sigfús Arnþórsson skrifaði. Greinin birtist í fyrsta tölublaði Heima er bezt sem Krosseyri gaf út, haustið 2020.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: