- Advertisement -

HEB: Fann biðilsbrjef á götunni miðri

Blaðið Þjóðhvellur var gefi út á árunum 1906 til 1911. Margt skemmtilegt var að finna í blaðinu. Undirtitill blaðsins var: Gamanmál og Reykjavíkurfréttir.

Geymið betur ástarbrjefin!

Á sunnudaginn var, er svaramaður „Þjóðhvells“ var á gangi suður á Laufásvegi, fann hann biðilsbrjef umslagslaust, er lá á miðri götunni — einstaklega snoturt og laglega samið bréf. — Undir því stendur fult karlmannsnafn. En upphafsstafir nafns og föðurnafns eru: J. K. — Nafns stúlkunnar er líka getið og eru upphafsstafir þess: E. A. Réttur eigandi getur vitjað bréfsins til nefnds finnanda. Hann vill enn fremur geta þess, að enginn nema hann einn hafi lesið bréfið, síðan er hann fann það. Drengskaparþögn er heitið. Ekki verða tekin fundarlaun, — en krónu kostar umgetning þessi.

Það væri mjög gott, ef þetta „rækals“-óhapp gæti orðið til athugunar fyrir ástsjúka unglinga. Þeir ættu að geyma betur skrifleg ástamál sín. — Þótt ætíð sé ylur í innilegu ástarbréfi og geti jafnvel hlaupið upp í 60—70 stig, ef hann mætir undurhlýju meyjarbrjósti, þá er samt heppilegra fyrir ungfreyjurnar að bera slík bréf annarstaðar en í barminum.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Grátlegt óhapp

Það eru fjórir dagar síðan. Og ég er eftir mig enn þá! Ég gekk austur gangstéttina á sunnanverðu Austurstræti. Vildi þá svo slysalega til, er ég fór fyrir hornið hjá Eymundsen, að ég rak mig þar á stúlku, er kom fyrir sama horn af Lækjargötunni, á harða spretti. Af því stúlkan var nákvæmlega jafn-há og ég, þá fjellu andlit okkar saman, er kom því til leiðar, að við kystumst töluvert óþægilegar, en ég hefði óskað, því ferð okkar beggja fylgdi á eftir; en þrátt fyrir þetta var þetta óvanalegt stórhapp fyrir mig, því eg hafði aldrei fengið stúlkukoss á æfinni. Ég margbeiddi hana fyrirgefningar, þótt jöfn væri beggja sök, og beygði mig og „bukkaði“ alla leið í götu niður; meira að segja, ég stóð í einum keng af auðmýkt. — Stúlkan fussaði mér og sveiaði og bölvaði mér fyrir flangur þetta; sagði ég væri fullur. En af þeirri ásökun var ég saklaus eins og nýfædda barnið. — Ég gat varla nokkru orði upp komið mér til bóta, því ég engdist sundur og saman af iðrun. — Ég stundi því loksins upp, að eins og hún sæi, þá væri ég ekki neinn kolakarl, þar sem ég hefði hvítt brjóst og harðan hatt, og því mætti hún ekki taka þetta óviljaverk svona óstint upp. En þá hljóp hún í burt vestur á leið. —

Til mikillar blessunar fyrir mig, var hálf-dimt, svo að gárungar fengu ekki færi á að hlæja að mér eða meyjunni. — En ég segi bara það, að hefði þetta viljað til á sólbjörtum sunnudegi, og stúlkan hefði til dæmis verið trúlofuð, hefði þetta getað komið mér í bölvun; — ef til vill kostað einvígi inn á Steinkudysi að kvöldi sama dags. Hefði það sannarlega ekki borgað sig fyrir annan eins mann og mig, þótt aldrei nema Góðtemplari sé. Svo dýran koss af þessari tegund vil eg ekki kaupa. Það veit Óðinn.

En mér finst svo ofur-eðlilegt, að önnur eins óhöpp og þetta gætu orðið til þess, að blessuð bæjarstjórnin hérna, sem alt gerir svo vel og fljótt fyrir okkur, findi hvöt hjá sér til að semja reglur handa mönnum að ganga eftir hér um strætin.

Blása frá sér óþverradauninum

Heilbrigðisnefnd bæjarins er með dýpstu lotningu ámint um, að útvega mönnum hagfeldar viftur eða físibelgi til þess að geta blásið frá sér óþverradauninum, er leggur upp úr forarvilpum bæjarins, þá er þeir ganga um göturnar.

Þetta þyrfti nauðsynlega að vera komið í kring næsta vor snemma, áður en sólarhitinn fer að steikja pönnukökur í ræsum Reykjavíkur næstkomand í sumar.

Hvað maður má hlakka til að sjá alla ramba um með viftur og físibelgi þegar til kemur! En sá vindur í bænum sem hlýtur að fylgja þessu!

Í kjötbúðinni

Fregnriti „Þjóðhvells“ í Austurbænum labbaði inn í kjötbúð eina hér í bænum, ekki alls fyrir löngu; hann var að fá sér kjötbita í soðið. –

Var þar ös mikil. Sá hann þar, meðal annara, frú eina, er vel var í hold komin. Sá hann, að hún var í smjörkaupaferð. Náttúrlega vildi hún ekki „kaupa köttinn í sekknum“ og varð því að bragða á blessuðu smjörinu; gerði hún bað á þann hátt, að hún drap fingri í smjörið og náði á nögl sína dálítilli smjörklípu, sem hún svo sleikti af með tilhlýðilegu ransóknarsmjatti. Endurtók hún þetta tvisvar eða þrisvar, keypti að því búnu 1 pund og bað um að senda það heim til sín; er slíkt ekki frásögur færandi, því öllum skilst, að frú með „nýmóðins“ sumarsólhlíf og silkihatt sæmir alls ekki að bera smjörpund heim í bú sitt.

En hitt hefði enginn vítt, þó frúin hefði tekið hníf, sem lá á borðinu og drepið honum í smjörið í stað þess að bora nöglunum í það. Jæja, fregnr. „Þj.hv.“ labbaði nú heim með rollubóginn, sem hann hafði keypt og tautaði fyrir munn í sér: Ojæja, svona eru þær þá innan, blessaðar silkidúfurnar okkar!


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: