Fréttir

Hefur ekki trú á Kolbeini

By Ritstjórn

February 02, 2021

Dagfari Hringbrautar hefur ekki mikla trú á að þingmanninum Kolbeini Óttarssyni Proppé takist að tryggja sér þingsæti með því að færa sig yfir í Suðurkjördæmi:

Ari Trausti Guðmundsson, núverandi þingmaður Vinstri grænna í Suðurkjördæmi, hefur lýst því yfir að hann gefi ekki kost á sér til áframhaldandi þingsetu. Fram hefur komið að Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður flokksins í Reykjavík, vill freista þess að fá stuðning innan flokksins til að leiða listann í Suðurkjördæmi. Hann hefur greinilega gert sér ljóst að hann muni ekki ná kjöri í Reykjavík og hefur því ákveðið að róa á önnur mið. Af því tilefni hefur Kolbeinn rifjað upp að undanförnu gömul ættartengsl í sveitum á Suðurlandi mörgum til mikillar skemmtunar. Hins vegar bendir allt til þess að fyrsta sætið gæti fallið Heiðu Guðnýju Ásgeirsdóttur í skaut, gefi hún kost á sér. Heiða Guðný er nú varaþingmaður flokksins í Suðurkjördæmi. Hún er mikil kjarnorkukona, sauðfjárbóndi í Skaftártungum, harður náttúruverndarsinni og stórglæsileg manneskja í alla staði. Hún er af mörgum talin bjartasta vonin í flokki Vinstri grænna og þeirra eina von til að tryggja flokknum fylgi í kjördæminu. Gefi hún kost á sér er engin von fyrir Kolbein Óttarsson Proppé – þó hann finni allnokkra gamla frændur í uppsveitum Árnessýslu!

Gefi Heiða Guðný kost ár sér í efsta sæti listans í Suðurkjördæmi, má ætla að flokkurinn fái einn mann kjörinn í öllum kjördæmum, eða sex samtals. Bætist sjöundi þingmaðurinn við, kæmi hann væntanlega úr Reykjavík norður, þó skoðanakannanir Maskínu dragi ekki upp vænlega mynd af stöðu flokksins þar nú sem stendur.“