- Advertisement -

Hefur Silfur Egils runnið sitt skeið á enda?

Ég held að Silfrið hafi runnið sitt skeið á enda og það fyrir löngu síðan.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Silfur Egils hefur hafið leik að nýju, enn eitt árið! Á síðasta tímabili þá var þátturinn almennt slappur og aðal þáttastjórnandinn áhugalítill. Allur ferskleiki er horfinn og það fyrir nokkru síðan. Sjá má sömu andlitin koma í heimsókn aftur og aftur og aftur. Og allir gestirnir eru af Reykjavíkursvæðinu. Fyrsti þátturinn í gær var engin undantekning. Rosalega held ég að landsbyggðin sé orðin þreytt á þessu og borgarbúarnir líka ef einhver nennir þá að horfa á.

Og umræðuefnið í fyrsta þættinum var af verri gerðinni, væntanleg heimsókn varaforseta Bandaríkjanna hans Mike Pence og áhugi Bandaríkjanna á norðurslóðum. Fram og til baka var rætt með hvaða hætti væri best að tala við manninn ef tala ætti yfir höfuð við hann. Og hvort Katrín Jak ætlaði að hitta manninn. Þetta þurfti ekki að ræða því hún var sjálf gestur í seinni hluta þáttarins þar sem Mike Pence var aftur til umræðu. Hún afgreiddi málið snyrtilega í fáum orðum og þurfti ekki heilan þátt undir.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Jæja ok, en gat Egill alls ekki rætt meira áríðandi sjónarhorn á þessum norðurslóðamálum en að býsnast með Mike Pence og ímyndað  kaldastríðsbrölt sé að hefjast. Það vill svo til að á Akureyri eru tvær ansi merkilegar og mikilvægar alþjóða skrifstofur Norðurskautsráðsins sem heitir PAME og CAFF. Þessar skrifstofur eru samstarfsvettvangur fjölmargra ríkja um verndun lífs og hafssvæða á Norðurslóðum.

Umræðan í Silfrinu hefði betur fjallað um málefni norðurslóða í umhverfislegu samhengi. Það er það sem brennur á fólki en ekki kjaftæðið sem var í boði. Það hefði verið hægt að nýta sér þekkingu PAME og CAFF og senda út frá Akureyri. Nei, fyrsti þáttur Silfursins á þessari leiktíð minnti á þættina; “Veröldin sem var“, sem nú eru til sýnis á RÚV. Ég held að Silfrið hafi runnið sitt skeið á enda og það fyrir löngu síðan.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: