- Advertisement -

Heima er bezt á sunnudegi

Einu sinni voru hjón; þau áttu eina dóttur barna. Margir urðu til að biðja hennar, en hún neitaði öllum. Sóknarpresturinn var ungur maður og ókvæntur; hann bað bóndadóttur, og voru foreldrar hennar þess hvetjandi, en henni sjálfri var um og ó. Átti hún tal við vinstúlku sína og kvaðst þess vegna ekki vilja giftast, að hún kviði svo fyrir að eiga börn. Hin kvaðst eiga grátt nærpils, sem sú náttúra fylgdi, að sú sem væri í því, yrði ekki barnshafandi og kvaðst hún skyldi gefa henni það. Varð bóndadóttir fegnari en frá megi segja, og tók við pilsinu.

Tók hún síðan bónorði prests, fór til hans og giftist honum. Lifðu þau saman í nokkur ár og áttu ekki barn, því að hún var einatt í pilsinu. Eitt sinn bar svo við, einn sunnudag, að prestskonan var komin í kirkju á undan öðrum. Settist hún í kvensæti og sofnaði. Dreymdi hana þá að henni þótti maður koma upp undan altarisgólfinu, ganga að henni og segja: „Vei þér, móðir, ég átti að verða biskup.“ Síðan kom upp kona og sagði: „Vei þér, móðir, ég átti að verða biskupsfrú.“ Síðan þótti henni enn maður koma; sá sagði: „Vei þér, móðir, ég átti að verða prestur.“ Svo kom annar kvenmaður og sagði: „Vei þér, móðir, ég átti að verða prestskona.“ Síðan hinn þriðji: „Vei þér, móðir, ég átti að verða sýslumaður.“ Svo þriðja konan: „Vei, þér móðir, ég átti að verða sýslumannskona.“

Eftir það vaknaði konan. Varð hún mjög hugsandi út af draumi þessum. Faðir hennar var dáinn og tók hún þá móður sína til sín. Gekk móðir hennar á hana að segja sér, hvað gengi að henni, og sagði hún henni drauminn og svo frá pilsinu. Bað móðir hennar hana um fram allt að fara úr pilsinu, og fyrir fortölur móður sinnar gerði hún það.

Eftir þetta fór hún að eiga börn og átti þrjá syni og þrjár dætur, og er eigi getið að hún setti fyrir sig að eiga börnin, eftir að hún var farin til þess. Varð einn sonur hennar biskup, annar prestur, þriðji sýslumaður og dætur hennar biskupsfrú, prestskona og sýslumannsfrú.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: