- Advertisement -

Heima er bezt: „Ég hefi frægastur orðið fyrir veiði mína á hrognkelsum og ál“

Helgarlesning í boði Heima er bezt:

Tveir þjóðþekktir menn ferðuðust saman, þetta voru Pétur Hoffmann Salómonsson og Stefán Jónsson, útvarpsmaður og rithöfundur. Ferðinni var heitið í Borgarfjörð á Mýrar. Tilgangur ferðarinnar var að Pétur Hoffmann ætlaði að sýna álaveiðar, en hann var ókrýndur meistari álaveiða. Snemma varð ljóst að Pétur Hoffmann, sem var annálað hreystimenni, var bílhræddur. Áður en við setjumst upp í bílinn með þeim félögum þá skulum við gefa Pétri orðið skamma stund og láta honum eftir að skýra eigin hreysti, fyrir þá sem ekki þekkja til afreka hans. Stefán minnir Pétur á sögu af átökum Péturs við Dani við Strandgade fem og tyve í Kaupmannahöfn. „Þá fannst mér, skal ég segja þér, þegar ég stóð yfir höfuðsvörðum þeirra, að ég gæti lagt undir mig alla Danmörk með berum höndunum. Og það væri heimsmet, ef út í þá sálma væri farið, að einn maður skyldi komast frá því ókláraður að hlaða svo mörgum Dönum. Það mætti fara með þann mann blindan í hjólastól um allan heim og sýna hann fyrir stórfé, – dauðan í hálfan mánuð,“ hefur Stefán eftir Pétri Hoffmann.

Í bílinn með þeim félögum: „Við mættum mörgum bílum á leið inn með Hvalfirði. Pétur vakti athygli mína á þeim flestum með nægum fyrirvara. Suma kallaði hann skriðdreka, aðra nefndi hann hjólaljón eða gírajóa og skorti aldrei skynsamlegar kenningar. Annað slagið sveigði hann að bílstjórunum og kallaði þá ýmist blessaða, angurgapa eða dela, allt eftir því hversu hratt þeir óku eða hversu vel þeir véku fyrir okkur.“

Þeir áðu í Hvalfirði þar sem drukkinn maður hóf við Pétur létt gaspur um álaveiðar. Eftir að hann skýrði fyrir Stefáni mat sitt á drykkjuskap var ferðinni haldið áfram og frá drykkjuskap var tekið að ræða um álaveiðarnar og annan veiðiskap:

„Annars veit þessi maður, sem ég var að tala við áðan, ekki svo mikið um álaveiðiskap, að hann þurfi að drekka frá sér ráð og rænu þess vegna. Þér að segja.

Natan Ketilsson var merkilegur maður. Hann kvað einu sinni:

Hrekkja spara má ei mergð,

manneskjan skal vera

hver annarrar hrís og sverð;

 hún er bara til þess gerð.

Hið sama gildir í veiðiskapnum. Þar má ekki spara fláttskapinn. Ekki hefðum við mörg dýrslíf í hendi okkar ef ekki væru vitsmunirnir og slægðin. Um það eru til margar sögur.

En þar sem þér mun helzt í huga að fræðast um sigra mína á þeim dýrum, sem anda með tálknum, skulum við sleppa hinum. Ég vil aðeins vekja athygli þína á því, – að ég hefi frægastur orðið fyrir veiði mína á hrognkelsum og ál. Og hvaða vísdóm má svo draga af því? Jú, það eru þessir tveir fiskar, sem ólíkastir eru í vextinum af öllum fiskum við Íslandsstrendur.

Allt er þetta merkilegt. Og allt hefur þetta sín áhrif á persónuleikann. Eftir að við fluttum í Miklaholtshrepp, þá hélt ég þeim vana mínum á Laxárbakka að athuga af gaumgæfni framferði síla í lækjum og flóum og óx nú fróðleiksfýsn mín hröðum skrefum.

Og enn kemur þar bíll, eigi allsmár á að líta. Og heldur sig bara á miðjum veginum, drjóli sá.“

Úr viðtali Péturs Hoffmann Salómonssonar og Stefán Jónssonar sem birtist í bókinni Aflamenn.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: