- Advertisement -

Heima er bezt: Maður norðan af Stöndum

Maður norðan af Stöndum / Úr Heima er bezt

Guðmundur G. Hagalín skrifaði. Teikning Pétur Halldórsson:

Ysti hluti túnsins í Lokinhömrum er nefndur Hjallpartur. Utan við þá er svokölluð Rasshústóft, niðri á bökkunum ofan við Yztapollinn, sem er yzta lendingin af þremur í Lokinhamralandi. Mætti ætla, að þarna hefði aðeins staðið verbúð eða fiskhjallur, en fornar sagnir herma, að í Rasshúsinu hafi búið einsetumaður í tvo eða þrjá áratugi.

Oft var það, þegar harðindi voru á Íslandi, að meiri matbjörg var á Vestfjörðum en víðast annars staðar. Eldfjallaaska varð þar sjaldan gróðrinum að meini, og hafís lá þar ekki oft fyrir landi svo langt fram á vorið, að hann hefti veiðar á áraskipum. Það var því algengt, að fólk úr verstu harðindasveitunum kæmi til Vestfjarða til þess að leita sér bjargar, og stundum svo margt, að til vandræða horfði vestra. Varð sumt af þessu fólki viðloðandi á Vestfjörðum.

Þú gætir haft áhuga á þessum
Ég kippti kænunni yfir jaka og jaka,“ svaraði maðurinn.

Það var eitt sinn síðla vors á seytjándu öld, að heimilisfólkið í Lokinhömrum sá, að maður kom róandi einn á báti fyrir Skollanesstanga, sem eru skammt utan við bæinn. Maðurinn reri löngum og hægum áratogum, en drjúgur skriður var á bátnum. Hann lenti á Yztapolli og gekk síðan til bæjar. Hann drap á dyr og gerði boð fyrir bónda. Honum var sagt, að hann væri á sjó, enda var þetta að morgni dags. Maðurinn gerði þá boð fyrir húsfreyju. Hún kom út, og þó að hún væri ýmsu vön um útlit ókunnugra gesta, hnykkti henni við, þegar hún sá þennan mann. Hann var afar hár vexti og herðibreiður, svartskeggjaður og svarthærður og svo magur í andliti, að augun, sem voru rauð og þrútin, voru langt inni í höfði. Hann var einkennilega búinn, hafði gert gat á miðjuna  á geipimiklu selskinni og smokrað því yfir höfuð sér og girt skinnið að sér með reipi. Hann kvaðst heita Dranga-Bárður, og væri hann kominn á báti sínum norðan af Ströndum. Konan bað guð að hjálpa sér, – hvernig hefði hann komist alla þá leið, svo mikill ís sem nú væri fyrir landi?

„Ég kippti kænunni yfir jaka og jaka,“ svaraði maðurinn, „en það voru drjúgar vakir á köflum. Ég á ekki annað erindi við þig, húsfreyja, en að biðja þig um eina máltíð af mannamat. En bónda þinn þarf ég að hitta meiri erinda.“

Húsfreyja bauð honum til baðstofu og bar honum harðfisk og súrt smjör. Hann tók að maula og mælti:

„Allt er matur, þegar í magann kemur.“

Þegar húsfreyja heyrði þetta, setti hún á sig snúð, þótti maðurinn sá furðu matvandur, kominn langa veg úr harðindasveitum. En svo varð henni litið á hann, og brá hún þá við og kom brátt með stóran ask fullan af nýmjólk og fékk honum. Hann tók við honum báðum höndum, leit á hana og sagði – og svo var sem hagl hrykki af augum hans:

„Ekki þarf þér allt að segja, húsfreyja.“

Þá er hann hafði tæmt askinn, stóð hann upp og gekk út án þess að segja neitt né líta á nokkra manneskju. Fór hann í hlaðvarpa, lagðist þar niður og sofnaði.

Upp úr hádeginu kom bóndi af sjónum. Þegar hann kom heim, sá hann Dranga-Bárð í hlaðvarpanum. Húsfreyja kom út, og sagði hún bónda sínum það litla, sem hún vissi um komumann. Bóndi mælti:

„Ekki getur þetta verið rétt hermt, svo mikill ís, sem nú er fyrir landi.“

„Það heitir Rasshús, því ekki er þetta býli, heldur kotrass,“ svaraði Bárður.

Þá er bóndi vék sér við, stóð Dranga-Bárður frammi fyrir honum, gnæfði yfir hann, þögull og tregaþungur á svip, og andlitið eins og hver holdtægja væri tærð af beinunum. Bóndi horfði á hann og sagði síðan:

„Ekki sýnist mér þú líklegur til að vera lygimaður, og geti ég eitthvað fyrir þig gert, er það velkomið.“

„Þess bið ég þá,“ sagði Dranga-Bárður, „að þú leyfir mér að hrófa upp kofa hér úti með bökkunum og stunda héðan róðra, og að mér verði færður út eftir einn málsverður á dag, þangað til ég get tekið að bera mig eftir björg.“

Þau mæltu það einum munni, hjónin, að þeim væri ljúft að verða við þessari bón gestsins.

Dranga-Bárður tók síðan til starfa. Hann vann alla daga og svaf um nætur í fjárhúsi á Hjallhólnum, en það var yst fjárhúsa í Lokinhömrum. Matur var honum færður út eftir einu sinni á dag og tók hann við honum þegjandi. Seint sóttist honum verkið fyrstu dagana, en brátt tóku að verða verkleg vinnubrögðin, og voru það stórir steinar, sem hann hóf í veggina. Þá er hann hafði hrófað upp kofanum, tók hann að róa til fiskjar, og nú eldaði hann mat sinn sjálfur. Allan afla sinn bar hann upp á bakka, reisti sér hjall við hliðina á kofanum og herti þar fisk. Slori og ræksnum dreifði hann um móana fyrir innan kofann, og var það upphafið að ræktun Hjallpartanna, sem síðar urðu eitt bezta stykkið í túninu í Lokinhömrum.

„Hvað heitir býli þitt, Bárður“? spurði Lokinhamrabóndinn, þá er hann kom og litaðist um hjá Bárði.

„Það heitir Rasshús, því ekki er þetta býli, heldur kotrass,“ svaraði Bárður.

Ekki leið á löngu, unz Bárður sást koma utan Þembu með eitthvað í eftirdragi. Það var spraka, mikil og feit. Hann gerði boð fyrir húsfreyju og mælti við hana:

„Hér eru mjólkurlaunin, húsfreyja.“

Brátt kom hann öðru sinni með sams konar drátt. Þá sagði hann:

„Hér hefur þú matargjöldin, kona góð.“

Þriðja sinni kom hann færandi hendi, en nú heimti hann bónda á sinn fund.

„Hér hefur þú eftirgjaldið, bóndi sæll.“ Og benti á áttflakandi spröku, sem lá á hlaðinu.

„Vilt þú bita úr rassi, vilt þú bita úr rassi?“

Dranga-Bárður sótti fast róðrana og aflaði með afbrigðum vel, enda reri hann stundum á haf út, þegar stillingar voru. Hann dyttaði að kofa sínum, hækkaði hann og setti í hann loft, og reisti jafnstórt hús við hlið honum. Þá er róðrinum lauk, átti hann hús sín full af riklingi, rafabeltum, hákarli og öðru fiskmeti. Ekki seldi hann neinum neitt af birgðum sínum, en hann hafði við bónda skipti á ýmsu góðgæti og sauðarmagálum, súru smjöri, mör og ull. Úr ullinni spann hann band og prjónaði sér sokka og vettlinga og fatnað innri og ytri. Stundum bar svo til, að þegar mikið lá við, að hann gekk óbeðinn að verki með húskörlum bónda og vann þá á við tvo gilda menn. Ekki var til neins að bjóða honum til bæjar. Hann kom aldrei inn fyrir dyr í Lokinhömrum nema morguninn, sem hann kom. Þá er hann þurfti að hitta húsráðendur að máli, lét hann ávallt kalla þá út á hlað. Hann hafði ekkert samneyti við heimilisfólkið og virtist forðast börn – ennfremur allar konur – nema húsfreyju. Á Þorláksmessu fór bóndi til hans og bauð honum að vera í Lokinhömrum um jólin. En Dranga-Bárður svaraði:

„Dauf jól henta Dranga-Bárði.“

Næsta vor var hart, og kom þá margt göngumanna fyrir Nes og inn í Lokinhamra. Stóð þá Dranga-Bárður fyrir dyrum úti, vék sér að karlmönnum, sem um götuna fóru, otaði að þeim sveðju, er hann hafði í hægri hendi, og mælti:

„Vilt þú bita úr rassi, vilt þú bita úr rassi?“

Sumir urðu hræddir, en hann friðaði þá, og veitti hann hverjum þurfandi manni vel í kofa sínum og nestaði þá einnig. Ef konur eða börn bar að dyrum hans, var hann jafnan hníflaus, þá er hann ávarpaði gestina. Bar hann síðan matinn orðalaust út á hlað, en hvarf því næst í kofa sinn. Fyrir kom, að göngumenn báðu hann að flytja sig yfir í Verdali, en þar var á útræði mikið. Gerði hann það ávallt, en þá er konur og börn áttu í hlut, lét þau alltaf snúa sér þannig í bátnum, að hann sæi ekki í andlit þeim.

Þannig voru hættir Dranga-Bárðar öll þau ár, sem hann dvaldi í Rasshúsinu.

Um morguninn var Dranga-Bárður horfinn og bátur hans, en Rasshúsið var fullt af matföngum.

Þegar hann hafði verið þar nokkur ár, var svo við, að bóndinn, sem bjó á Hrafnabjörgum, lézt skyndilega, en Hrafnabjörg eru bær í Lokinhamradalnum, innan við ána. Ekkjan gerði sér ferð til Dranga-Bárðar og bað hann að verða ráðsmann sinn. Hann horfði á hana, og var sem eldur brynni úr augum hans. Svo slokknuðu glæður augnanna, og Dranga-Bárður hristi höfuðið og mælti:

„Far þú kona! Þú stígur ofan á beinin hennar Bjargar.“

Loks kom þar, að Dranga-Bárður tók að hrörna. Hann varð hvítur á hár og skegg og röddin varð rám. Stundum bar það við, að hann reri ekki, þó að veður væri gott, og kom ekki út úr kofanum.

Svo var það eitt haustkvöld, að fólkið í Lokinhörmum heyrði gengið upp á baðstofuna, þegar það var að hátta. Var komið á gluggann yfir rúmi hjónanna og þessi vísa kveðin rámum rómi:

Skáletrað:

„Frera sjávar, frekar lands

fyrst á Ströndum leit ég,

og heiðina upp til himnaranns

hvergi lægri veit ég.“

Um morguninn var Dranga-Bárður horfinn og bátur hans, en Rasshúsið var fullt af matföngum.

Engar fregnir bárust síðan til Lokinhamra af Dranga-Bárði. Á næsta vori útbýttu Lokinhamrahjónin matarbirgðum hans til förumanna.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: