- Advertisement -

Heima er bezt: Rekinn vegna hótanna

Málmsteypa af Lofti Þorsteinssyni.

Hér er kafli úr sögu Félags járniðnaðarmanna.

Loftur Þorsteinsson tók við formennsku árið 1930, þá 35 ára og var formaður til dauðadags 1938. Í æsku hafði hann verið í siglingum á skonnortum víða um heim. Hann fór út í það af reiðileysi en hann var af bláfátækum foreldrum kominn. Hann lærði eldsmíði hjá Þorsteini á Vesturgötunni. Hann fórnaði öllu til að vinna fyrir félagið, auk þess sem hann var ötull félagi í Kommúnistaflokknum og sat í miðstjórn hans frá stofnun. Í ágúst 1936, árið eftir Andradeiluna, var honum sagt upp Héðni út af pólitík. Þá var ég formaður, svo það lenti á mér að ræða við Bjarna forstjóra í Héðni. Bjarna var þá vel til félagsins, eftir baráttu þess að draga togarviðgerðirnar inn í landið. Fann ég að Bjarni hafði neyðst til að reka Loft vegna hótana útgerðarmanna um verkefnasviptingu og skildum við Bjarni sem mestu mátar og unnum síðar saman að samningu nefndarálits um frumvarp til laga um járnsmíði innanlands. Þá þótti Bjarna að ég væri helvíti rauður. En ákvörðun hlutafélagsins Héðins var ekki haggað. Var Loftur atvinnulaus í lengri tíma og urðu þau hjónin að líða fyrir starf i okkar þágu. Seinna kom Magnús Jónsson er rak verkstæði á Barónsstígnum til mín og bað mig að útvega sér fjölhæfan eldsmið. Ég vísaði honum á Loft, en hann bað um umhugsunarfrest – hvort óhætt væri að ráða hann, því hann átti von í verkefni hjá bænum. En hann réði Loft. Var gaman að tilkynna Lofti það og þar vann Loftur til dauðadags og var þessi brautryðjandi jarðaður á kostnað félagsins en hann dó úr lungnabólgu 2. janúar 1938, aðeins 43 ára. Var jarðarför hans ein sú fjölmennasta sem vitað var um í Reykjavík.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: