- Advertisement -

Heima er bezt: „Skall á norðan frostbylur, eins og skot úr byssu“

Tómas Sigurðsson.

„Mér er víst óhætt að fullyrða, að fáir séu þeir, austfirzku sjómennirnir, sem eigi kannast við Tómas Sigurðsson á Norðfirði, annað hvort af orðspori eða þá persónulega. En Tómas er víðar þekktur en á Austurlandi. Þorri hinna eldri sjómanna í Vestmannaeyjum og flestum verstöðvunum sunnanlands munu að einhverju leyti kannast við manninn.“

Þannig byrjar umfjöllun í Sjómannablaðinu Víkingi fyrir um áttatíu árum síðan. 

Með það í huga að ná tali af Tómasi fyrir blaðið, geng ég niður á Strandgötuna í Neskaupstað. Ég hugsa sem svo: „Illa er ég svikinn, ef Tómas heldur sig langt frá fjöruborðinu!

Þú gætir haft áhuga á þessum

Ég er orðinn hundgamall, blessaður vertu.

Þetta stendur allt heima. Tómas kemur neðan af bryggjum, brosandi, léttur í spori, hreyfur í máli og um allt hinn viðmótsbezti. Ég tek hann tali. Fyrst um aflabrögðin. Hvað þessi og hinn hefði aflað. Hvar hann hefði verið á sjónum. Hve lengi hann hefði verið í róðrinum. Hvernig veðrið væri úti og. s. frv. Tómas kunni góð skil á því öllu. Út frá þessari algengu samtalsbyrjun, fer ég svo að „þreifa fyrir mér“ um aðalmerg málsins — upplýsingar um hann sjálfan og sjósókn hans.

Hvað ertu nú orðinn gamall og hvar ertu fæddur, Tómas?

„Ég er orðinn hundgamall, blessaður vertu, — 68 ára, — bráðum sjötugur — fæddur að Sigmundarhúsum í Reyðarfirði 4. des. 1872.“

Og hvenær byrjaðir þú svo að sækja sjó að staðaldri?

„Ég var nú ekki gamall þá. Á 13. árinu byrjaði ég að róa með föður mínum, Sigurði Eiríkssyni skipstjóra, en á 17. árinu gerðist ég formaður í fyrsta skiptið á árabát föður míns.“

Varstu ekki strax aflasæll og heppinn?

„Jú, það er mér óhætt að segja. Allir, sem með mér hafa róið, hafa verið ánægðir með hlutskipti sitt.“

Hvenær fluttir þú svo hingað til Norðfjarðar?

„Um aldamótin — ég var þá um þrítugt. Fyrst hélt ég úti árabát, sem ég átti sjálfur, en skömmu seinna keypti Lúðvík sál. bróðir minn lítinn vélbát, er hann nefndi „Víking. Réðist ég þá til Lúðvíks sem formaður á Víkingi, síðar á Sæfarann, svo á Gylfa og seinast á Sæbjörgu. Alls var ég formaður á bátum Lúðvíks í meira en 30 ár.“

Meðal annara orða: Einu sinni var mér sagt, að þú hefðir fundið miðið, þar sem Norðfirðingar hafa stundað veiðar svo mikið á undanförnum árum og sem kallað er „Gullkistan“ í daglegu tali?

Enginn þeirra vissi, hvar ég var á sjónum.

„Já, ekki get ég borið á móti því. Þá var ég á Víkingi. Það var tregur fiskur um vorið á vanalegu slóðunum. Ég fór þá að leita nýrra og lóðaði mig út með álunum. Þar setti ég í fisk — já, mikinn fisk, maður! Það var róandi í hann þar — fullur báturinn dag eftir dag! Ég var einn um hituna í nokkra daga, og skildu menn sízt hverju þessi uppgripaafli hjá már sætti. Enginn þeirra vissi, hvar ég var á sjónum. En þeir komust brátt að því, og var mér það í sjálfu sér ekki á móti skapi. Oft var harðsótt út í „Kistuna“ á 7—9 smálesta bátum, þetta 35—40 mílur frá landi, t.d. í myrkri og haustsjóum. Þá var haldið út fram í okt. og nóvember, þegar mögulegt var, og var þó útbúnaði bátanna ærið ábótavant. Ekkert var línuspilið — allt dregið af handafli — engin lagningarrennan — ekkert stýrishúsið og lúkararnir þröngir og óvistlegir. En þetta smá batnaði og allt blessaðist furðanlega og langt fram yfir það. Og mikið fiskaðist á þessum árum — og á þessi „horn“.

Oft hefir þú fengið foraðsveður og vonda sjóa, Tómas, og ekki hefir ævinlega verið langt á milli lífs og dauða?

„Ojæja, jú—jú! Ekki sízt í Kistunni. Hann getur verið snöggur upp á lagið þar úti“.

Aldrei misstir þú samt mann, — eða hvað?

„Nei, svo er fyrir þakkandi, og sömu mennina hafði ég ár eftir ár.“

En hvenær fékkstu hann verstan, Tómas minn?

„Það get ég sagt þér — það var þegar við urðum viðskila, Sæfarinn og ég. Það var víst í apríl 1918. Báðum bátum Lúðvíks bróður, Sæfaranum og Sæbjörgu, var þá haldið út frá Djúpavogi, ásamt fleiri bátum héðan, sem ekki koma við sögu núna. Það mun hafa verið viku fyrir páska, að sú fregn barst okkur, að Hornafjarðarbátar hefðu nægan fisk á færi. Var þá ákveðið að leita þangað. Létum við, formennirnir á Lúðvíksbátunum, beita línu, sem við ætluðum að fara með, þó að við annars ætluðum aðallega að stunda handfærið. Við leggjum af stað frá Djúpavogi undir nótt í góðu veðri. Á Sæfaranum voru auk mín: Gunnar Gíslason, vélstjóri, Önundur Steindórsson, báðir til heimilis hér í bæ, og Stefán Erlendsson, Brekastíg 37 í Vestmannaeyjum.

Man ég ekki eftir sneggri veðrabrigðum.

Eftir sólarhrings útivist var ákveðið að halda heim. Veður var eiginlega gott, dálítill sunnan kaldi, en allt í einu sléttlygndi og varð blæjalogn um stund. Við vorum komnir það áleiðis, að við sáum vel til Papeyjar. En óðum syrti að af nótt og svo tók að hríða. Sæbjörgin fylgdist með okkur, enda var svo ákveðið, að bátarnir skyldu fylgjast að á heimleiðinni. Allt í einu skall á norðan frostbylur, eins snöggt eins og skot úr byssu. Man ég ekki eftir sneggri veðrabrigðum. Var nú farið að ráðslaga um, hvað gera skyldi. Dimmviðrið og rokið var óskaplegt og við, formennirnir báðir, og raunar allir bátsverjar, tiltölulega ókunnugir á þessum slóðum. Það ráð tókum við að dýpka á okkur og andæfa upp í unz birta tók af degi. Hríðinni létti með birtingunni að miklu leyti, svo að við fengum landsýn. Vorum við þá komnir suður fyrir Hvítingja. Rokið hélzt alltaf óbreytt með 12 stiga frosti. Við fylgdumst að á báðum bátunum, og reyndum nú að grynnka á okkur og héldum til lands. Fer svo fram um nokkra hríð. Þá bar svo til að við fengum sjó á Sæfaranum, er færði milligerðir í lestinni úr skorðum og kastaði fiski og öðru út í aðra hliðina. Urðum við því að fara niður og lagfæra þetta og rétta bátinn. En þá misstum við sjónar á Sæbjörgu. Hún var okkur gersamlega horfin sýnum.

Geymi ég það í þakklátri endurminningu.

Sjórokið var ægilegt. Allt var ein hvíta. Sjólagið var vont, hörð og kröpp alda, en þó ekki afskaplega vondur sjór. Bátinn var tekið að yfirísa, en fátt höfðum við til að berja af honum, annað en okkar eigin fætur. Reykpípan sprakk undir „kappanum“ snemma morgunsins og var nú hvorki hægt að yla lúkarinn eða „hita á katlinum“. Nú kom til mála að reyna að ná höfn í Papey, en frá því var horfið, því að enginn okkar þekkti sig þar. Við héldum áfram til lands. Var þá um tvær leiðir að velja: skerjótta grunnleið, eða þá skipaleiðina — og hana tókum við. Sóttist okkur seint en slysalítið. Þegar við vorum komnir inn fyrir skerið, stöðvaðist vélin skyndilega. Hefir vatn sjálfsagt komizt í olíuna. Tók okkur nú að reka all-ískyggilega, meðan verið var að koma vélinni í lag aftur. En þegar vélin var aftur komin í gang, gekk allt vel, þótt seint sæktist. Sæfarinn var góður bátur og fór vel í sjó. Alltaf var sama hvíta rokið og frostið, enda var báturinn. þegar hér var komið, orðinn svo yfir-ísaður, að slétt var af lestarkarmi út á skjólborð. Mastrið var lagt aftur á vélarhúsið og segl og stagir bundnir við það. Mátti svo heita, að það væri allt orðið að einum klakaklumpi og allt annað eftir því. En nú styttist óðum til hafnar. Þegar við vorum komnir inn að Svartaskeri, þóttumst við sama sem komnir heim. Eftir var svo sem 10—15 mínútna keyrsla inn að bryggju. En þá stöðvaðist vélin allt í einu og fór af eðlilegum ástæðum ekki af stað aftur, því að nú vorum við orðnir olíulausir, enda var ferðin orðin sólarhring lengri en upphaflega stóð til og olíueyðslan tiltölulega meiri en tímalengdin. Tók okkur strax að reka undan veðrinu út í skerjaklasann — sjómenn kannast við hann — og innan stundar bar okkur upp á smásker við svokallað Hlífólfssker. Bátnum hallaði í fyrstu til lands á skerinu og komumst við allir upp í það fyrirhafnarlítið. En þar var köld vist. Hins vegar lá báturinn vel og virtist stöðugur á skerinu. Hurfum við þess vegna að því ráði, að leita okkur skjóls í bátnum, og vorum all-lengi um borð (niðri í lúkar). En af því að sjór var flæðandi, hækkaði báturinn á skerinu. Allt í einu tekur hann til að velta og kastast til, unz hann nemur staðar á þeirri hliðinni, er að sjónum vissi. Hafði hann þá brotnað all-mjög og fylltist þegar af sjó. Stóðum við í sjó upp fyrir kné þarna á lúkarsgólfinu. Við fluttum okkur þá upp á þilfar. Var nú all-breiður áll milli báts og skers og aðstaðan til björgunar vond. Ég verð að segja, að lífsvonin var lítil. Var þá rætt um, hvað taka skyldi til bragðs, en fá úrræði sáust. Meðan á þessum umræðum stóð, sáum við hvar Sæbjörg kom með árabát aftan í og stefndi í áttina til okkar. Lífsvonin glæddist af nýju — en víst var það, að úr Sæfaranum varð okkur ekki náð. Við urðum að komast niður á skerið, hvað sem það kostaði. Sæfarinn lá hreyfingar lítill, fullur af sjó, með síðuna brotna inn. Sá var siður hér á þessum dögum, að árar fylgdu hverjum vélbát. Við losuðum ár og brúuðum með henni af hástokk bátsins niður í skerið. Tilætlunin var sú, að einn okkar henti sér í senn út á árina og renndi sér á henni niður á skerið, en hinir; sem í bátnum voru, héldu henni stöðugri á meðan. Eftir nokkrar tilraunir heppnaðist Stefáni Erlendssyni að henda sér með snarræði á árina og komast eftir henni niður á skerið. Hélt hann svo í endann sín megin meðan við hinir rendum okkur niður. Gekk þetta allt vel og farsællega og langtum betra en á horfðist. Vorum við svo allir brátt teknir af skerinu og fluttir í land. En Sæfarann dró út af skerinu og sökk hann þar. Þegar í land kom, var tekið á móti okkur með hinum mestu ágætum og allt hugsanlegt fyrir okkur gert. Geymi ég það í þakklátri endurminningu.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: