- Advertisement -

Heima er bezt: Versti farartálminn

Skömmu eftir að ferðir hófust frá Íslandi til Brasilíu, voru kerlingar tvær í Þingeyjarsýslu, sem heyrðu sagt frá því, hvað gott væri að vera í Brasilíu; þar sprytti t.d. kaffi og sykur. Kerlingunum þótti kaffi fjarska gott og töldu paradísarsælu að vera þar, sem nóg væri af því. Vildu þær nú fyrir hvern mun fara til Brasilíu. Þær afréðu því að fara þangað og tóku að afla sér upplýsinga um leiðina. Var þeim þá sagt að þær þyrftu fyrst að fara til Akureyrar. Þá þótti kerlingunum óvænkast ráð sitt, því að þær vissu að þá gátu þær ómögulega komizt hjá því að fara yfir hana Fnjóská, og við svo erfiðum farartálma höfðu þær alls eigi búizt á veginum til Brasilíu. „Nei, það er svo fyrirkvíðanlegt að fara yfir hana Fnjóská, að við verðum að hætta við ferðalagið,“ sögðu kerlingarnar, og þar með var áætluninni um Brasilíuferðina lokið.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: