Mannlíf

Helgi Seljan og Samherji

By Miðjan

April 23, 2021

Mörg okkar sem starfa við fréttamennsku hefur verið hótað. Stundum illilega. Sjaldan, og jafnvel aldrei, hafa hótarar látið til skara skríða. Nú hefur það gerst.

Samherji hefur ráðist að lífi og framtíð fréttamannsins Helga Seljan. Af miklu afli. Tvennt virðist í spilum Samherja. Annars vegar að særa Helga svo hann hætti skrifum um Samherja. Hitt er að vara aðra við.

Blaðamenn  og fréttamenn eru almennt á frekar lágum launum. Eiga þeir að ganga óhikað að verki til segja frá aðferðum Samherjamanna? Fyrirtækis sem meira að segja er með hálaunaða einkaspæjara á sínum snærum.

Leikurinn, ef leik skyldi kalla, er ójafn. Alveg frá upphafi. Sterk fjárhagsstaða Samherja hefur gagnast þeim víða. Eins og fréttir herma. Vanmáttugur fréttamaður má sín lítils gegn risanum. Staða Helga Seljan er ekki góð.

Um mig hefur verið njósnað. Mér hefur verið hótað illilega. Stundum fór um mig. Verst var þegar hótað var að gera börnum mínum tjón. Ég kærði til lögreglu sem tók málinu ekki alvarlega. Hélt uppi málstað hótarans.

Eitt sinn var ég að vinna viðkvæmt fréttamál. Þá var hringt í síma annars blaðamanns. Hann var beðinn um að kalla á mig í símann. Sá sem hringdi vildi ekki tala við mig í símann minn. Hann sagðist vera lögreglumaður og sagði svo: „Gættu þín, símarnir þínir eru hleraðir.“

Helga Seljan er gert erfitt fyrir. Það er ómögulegt að búa við aðgerðir eins og hann þarf að þola. Von okkar hlýtur að vera sú að hann komist áfram í starfi sínu þrátt fyrir mikil óþægindi. Jafnvel persónulegar njósnir.

-sme