- Advertisement -

Héraðið – Framsókn stefnir fólki í ánauð

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Þeir sem kjósa Framsókn eru að stuðla að ánauð heillar starfsstéttar og tengdra þjónustugreina. Stefna Framsóknar er hreint út sagt viðbjóðsleg og maður vart trúir henni.

Framsóknarflokkurinn er með þá stefnu að gefa sægreifum sjávarauðlindir þjóðarinnar. Til að ná markmiðinu leggur flokkurinn til að úthluta veiði- og nýtingarrétti til 23 ára í senn. Skipanin mun koma í veg fyrir nýliðun og atvinnufrelsi í sjávarútvegi nema þú komir af sægreifaættum. Sama á við um nýtingu fjarða landsins undir fiskeldi, sem úthlutað var án endurgjalds til Norðmanna. Og án undirgenginna umhverfisrannsókna. Er nú svo komið að laxar synda í stórum stíl afskræmdir og roðlausir um kvíarnar þegar þeir fljóta ekki dauðir upp á yfirborðið vegna súrefnisskorts. Vart þarf síðan að nefna erfðamengun sem fæst af blöndun eldislaxa við náttúrulega stofna við Íslandsstrendur. 

Tuttugu og þrjú ár er stór partur af starfsævi manna og því verður ómögulegt fyrir duglegar og skapandi kynslóðir framtíðarinnar að hasla sér völl í sjávarútvegi nema með kaupum á kvóta fyrir fúlgur fjár. Þá rennur andvirðið til sægreifa en ekki þjóðarinnar. Til þess að geta keypt kvóta þá þarftu að koma af efnuðum ættum. Röksemd Framsóknar fyrir gjöfinni er að þetta veiti útgerðarfyrirtækjum fyrirsjáanleika. Á mannamáli þá kallast þetta einokun.

Almennt er það svo í rekstri fyrirtækja, nema þau séu í ríkiseigu, að óvissa er daglegt brauð. Þau taka áhættu og hagnast ef vel gengur. Þau best reknu spjara sig. Þetta á við um allar starfsgreinar. Nærtækt er að nefna rekstur flugfélaga, sem hafa enga vissu um viðskipti. Nú eða prjónakonan sem gengur ekki að því vísu að geta selt eigin hannyrðir. Það er einfaldlega enginn fyrirsjáanleiki í einkarekstri. Þess vegna er talað um rekstrar- og markaðsáhættu.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Jóhann:

Margar fjölskyldur hafa lent í grimmdinni og orðið að flýja eigin heimasveit því helsið er óbærilegt.

Þjónkun Framsóknar við sægreifa á rætur sínar að rekja til Kaupfélags Skagfirðinga (KS), sem drottnar yfir öllu í Skagafirði og víðar. Kaupfélagið er stórtækt í sjávarútvegi. Til að átta sig betur á hvert Framsókn er að fara þá er ágætt að horfa á kvikmyndina „Héraðið“ sem var frumsýnd árið 2019. Myndin segir frá vinnubrögðum Kaupfélags sem drottnar yfir bæði mönnum og dýrum. Bændur eru hnepptir í ánauð og eiga allt undir Kaupfélaginu. Stefna Framsóknar er að fjötra sjómenn með sama hætti.

Vilji menn komast undan okinu eða þeir láta frá sér óvarlega tjáningu þá er þeim skipað utangarðs. Margar fjölskyldur hafa lent í grimmdinni og orðið að flýja eigin heimasveit því helsið er óbærilegt. Okið er allt um liggjandi þar sem Kaupfélög og sjávarútvegsfyrirtæki eru ráðandi. Nægir hér að nefna til viðbótar stöðu Samherja í íslensku samfélagi og starfsemi þess í Namibíu.

Þeir sem kjósa Framsókn eru að stuðla að ánauð heillar starfsstéttar og tengdra þjónustugreina. Stefna Framsóknar er hreint út sagt viðbjóðsleg og maður vart trúir henni. Þegar vel er að gáð þá er Framsókn ekkert annað en flokkur ánauðar og eymdar. 


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: