- Advertisement -

Hildarleikur Svissneska seðlabankans

Jóhann Þorvarðarson:

Að vona að frankinn snúi við er eins og fugl í skógi, sýnd veiði en ekki gefin. Háttalagið flokkast því undir ábyrgðarleysi því önnur tímasprengja gæti farið í gang í millitíðinni.

Eftir fjármálahrunið árið 2008 þá tók Svissneski seðlabankinn þá stefnu að vera virkari á gjaldeyrismarkaði og verja tiltekið gengi gagnvart evrunni. Tilgangurinn var að koma í veg fyrir að styrking frankans færi fram úr hófi vegna innstreymis erlends fjár til Sviss. Landið hefur nefnilega lengið verið griðastaður fjár af misjöfnum uppruna.

Samhliða hófst hröð uppsöfnun gjaldeyrisforða hjá bankanum, sem í dag er orðinn jafn stór landsframleiðslunni. Svo gerist það næst að einn morgun í janúar árið 2015 að bankinn tilkynnir að hann sé hættur að verja yfirlýst viðmiðunargengi evrunnar. Í þessu fólst auðvitað viðurkenning á því að leikurinn hafi tapast, stefnan var hrunin. Í hugum ráðamanna bankans þá var ósigurinn samt ekki meiri en svo að hann ætlaði að halda áfram afskiptum af markaðsverkinu með inngripum, en bjóða núna upp á aukið ógagnsæi varðandi ásættanlegt gengi.

Einhver stífla brast við tilkynninguna og styrktist frankinn umsvifalaust um tugir prósenta. Fór gengið til dæmis úr 1,2 gagnvart evrunni og niður fyrir pargildi. Það tók frankann síðan meira en þrjú ár að ná fyrra verði, en hann hefur verið í samfelldum styrkingarham eftir það. Árið 2021 þá fór gengið gagnvart dollar undir 0,88 franka og í tæplega 0,94 franka á móti evrunni í september á síðasta ári. Svissneski seðlabankinn gafst loks upp á stefnunni og tilkynnti í fyrra að hann væri hættur afskiptum af verðmyndun frankans á markaði. Frankinn hélt áfram sínu ferðalagi og enginn veit hvar sá túr endar.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Að tapa reikningsfjárhæð, sem nemur 18 prósentum af landsframleiðslunni er skuggalegt.

Seðlabanki Sviss tekur fjárstýringu gjaldeyrisforðans alvarlega. Svo alvarlega að bankinn opnaði útibú í Singapúr árið 2013, en borgríkið er stundum sagt vera Sviss Asíubúa þegar kemur að peningum. Útibúið er sagt eiga að auka nálægð bankans við mikilvæg markaðssvæði og auðvelda ákvarðanir.

Markmið fjárstýringar Seðlabanka Sviss er að hún skili jákvæðri raunávöxtun til að viðhalda kaupmætti forðans, mælt í frönkum. Bankinn hefur ekki tiltekið eitthvert tölulegt gildi í þessum efnum svo ég viti til um. Til að ná áhættunni sem mest niður þá ráðstafar bankinn um fjórðung varaforðans í kaup á traustum hlutabréfum. Í dag þá á bankinn bréf í yfir 7.000 fyrirtækjum vítt og breytt um veröldina. Uppsöfnuð arðsemi fjárfestinga bankans, að teknu tilliti til gengisbreytinga, á árunum 2007 til 2021 var 29 prósent á sama tíma var samanlögð verðbólga einungis 3 prósent. Raunarðsemin var því 26 prósent eða 1,75 prósent á ári. Svo kom árið 2022 og nam tap bankans 18 prósentum af landsframleiðslu.

Ég dreg þetta fram til að sýna að seðlabankar geta lent á góðæris- og stöðugleikatímabilum eins og hver annar fjárfestingarsjóður þar sem óhaldbær stefna gengur upp, en svo springur tímasprengja af dýrustu gerð. Að tapa reikningsfjárhæð, sem nemur 18 prósentum af landsframleiðslunni er skuggalegt. Ekki er á vandann bætandi að Seðlabankinn ætlar bara að bíða veðrið af sér. Að vona að frankinn snúi við er eins og fugl í skógi, sýnd veiði en ekki gefin. Háttalagið flokkast því undir ábyrgðarleysi því önnur tímasprengja gæti farið í gang í millitíðinni.

Ef yfirstandandi ár verður óhagfellt fyrir bankann þá gæti allt eigið fé hans gufað upp. Bankinn væri þá upp á náð og miskunn erlendra banka og Alþjóða gjaldeyrissjóðsins. Ástandið myndi kalla á innspýtingu fjár frá ríki og kantónum Sviss því bankinn væri tæknilega gjaldþrota. Jafnframt, gæti ástandið kallað á skattahækkanir. Sú spurning hlýtur því að hreyfast hvort ekki sé tímabært fyrir Sviss að taka upp evruna í stað hildarleiksins.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: