- Advertisement -

Hin móralska réttlæting herrans!

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Kristófer Oliversson, formaður fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu, skrifar kostulegan greinarstúf sama dag og WOW air féll. Stubbinn má lesa í Fréttablaðinu. Skilur formaðurinn ekki af hverju þernur bransans fari í verkfall.

Segir formaðurinn þernurnar hafi unað hag sínum vel hingað til. Kjörin á Íslandi séu sko margfalt betri en í heimalandi launaþrælanna. Jahá, svona hljómar þá hin móralska réttlæting fyrir skítalaununum. Með svona flottan áttavita á náttborðinu þá sefur formaðurinn væntanlega svefni hinna réttlátu.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Kappinn gleymir alveg að nefna að framfærslukostnaður á Íslandi er annar og miklu hærri en í heimalandinu. Hefur til dæmis hár húsnæðiskostnaður eða hár matarreikningur farið alveg framhjá Kristófer & Co.

Rúsínan í pylsuendanum var síðan illa súr. Upplýsti hótelrekandinn að mikil aukning hefði orðið í peningafærslum hjá þernunum til heimalandsins. Vill Kristófer virkilega skipta sér af hvernig þernurnar ráðstafa eigin launum. Kannski vill hann taka auka tíund af smælingjunum eins og á Sturlungaöld.

Það eru örugglega gildar ástæður fyrir millifærslunum. Til dæmis að hjálpa eigin fjölskyldu í daglegri lífsbaráttu.

Ég mæli með að Kristófer fái sér nýjan kompás. Nýlenduhugarfari var útrýmt á síðustu öld. Eða hvað?


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: