- Advertisement -

Hjálp, fjármálaráðherra úr raunveruleikatengslum!

Fjármálaráðherra getur aldrei tekið þessa ákvörðun frá neytendum með fjáraustri úr ríkissjóði til vildarvina.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Ég hef áður sagt að efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna veirunnar séu gagnslausar þegar upp er staðið. Aðgerðirnar tefja fyrir nauðsynlegri endurskipulagningu og nýliðun innan ferðaþjónustunnar. Hinn raunverulegi vandi er á eftirspurnarhlið hagkerfisins ekki framboðshliðinni. Umframframboð var af ferðaþjónustu áður en veiran reið yfir. Þetta birtist til dæmis í því að atvinnuleysi á landinu jókst um 11 prósent árið 2018 og um 56 prósent á síðasta ári. Stórt hlutfall, eða yfir 43% atvinnulausra, kom frá ferðaþjónustutengdum greinum, en greinarnar telja samt aðeins 12 prósent af vinnumarkaðnum.

Eftir tröllvaxinn vöxt þá kemur alltaf að því að atvinnugreinar endurskipuleggist. Þannig er gangur markaðarins. Fyrirtæki lifa af sem eru fyrirhyggjusöm og einnig þau sem neytandinn kýs að eiga viðskipti við. Markaðurinn stjórnar niðurstöðunni en ekki fjármálaráðherra. Með því að ríkið ábyrgist laun fyrirtækja í uppsagnarfresti eru skattborgarar að fjármagna samruna og yfirtökur í ferðaþjónustunni. Einnig er verið að tefja að vonlaus fyrirtæki fari í gjaldþrotaferli. Gjaldþrot er nefnilega eðlilegur hluti markaðshagkerfisins og virkar sem agatæki á óreiðumenn og áhættugosa. Nærtækt er nýtt dæmi þar sem tvö stór ferðaþjónustufyrirtæki sameinuðust nánast sama dag og ríkisstjórnin tilkynnti að almenningur myndi greiða uppsagnarlaun fyrirtækja. Þannig má segja að bæði fyrirtækin hafi sparað sér stórfé og hluthafarnir njóta góðs af. Ríkisgjafirnar eru notaðar til að fjármagna samrunann án þess að ríkið eignist hlut í hinu sameinaða fyrirtæki. Almenningur borgar þarna einkaaðilum fúlgur fjár. Hin eðlilega leið er að fjárfestar leggi til nýtt fé inn í hið sameinaða fyrirtæki eða þau eru einfaldlega sett í gjaldþrot. Í gjaldþrotaferlinu kemur endanlega í ljós hvort fyrirtækin eru lífvænleg. Ef ekki þá eru eignir seldar hæstbjóðanda. Þá er ekki ólíklegt að vel rekin og fyrirhyggjusöm fyrirtæki kaupi eignir af þrotabúinu og standi öflugri á eftir. Ef komið er í veg fyrir gjaldþrotaferli fyrirtækja með peningamokstri úr ríkissjóði er í raun verið að hygla illa reknum fyrirtækjum á kostnað þeirra vel reknu sem hafa fyrirhyggju að leiðarljósi! Við skulum ekki gleyma því að það eru aðeins tíu ár síðan Eyjafjallagosið var og ætti því ekki að koma neinum á óvart að náttúran geti sett strik í reikning fyrirtækja!

Þú gætir haft áhuga á þessum

Einhver þarf að hjálpa Katrínu Jak og stöðva þessa vitleysu.  

Til að örva eftirspurnarhlið hagkerfisins þá verða efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar að taka mið af stöðu neytenda. Á endanum þá eru það neytendur sem ákveða hvort fyrirtæki skapa verðmæti eða ekki! Og hvort þau dafni til framtíðar. Það gera neytendur með daglegum kaupákvörðunum. Fjármálaráðherra getur aldrei tekið þessa ákvörðun frá neytendum með fjáraustri úr ríkissjóði til vildarvina. Fjármálaráðherra landsins virðist úr öllum raunveruleikatengslum! Einhver þarf að hjálpa Katrínu Jak og stöðva þessa vitleysu.  

Farsælasta almenna leiðin er að hefja tímabundið átak um greiðslu borgaralauna til meira en 30 þúsund atvinnulausra neytenda í stað atvinnuleysisbóta. Sú leið virkar strax! Ég fjalla ítarlega um leiðina í annarri grein hér á Miðjunni samanber „Þetta kom sjálfum mér á óvart!“. Þar komst ég að þeirri niðurstöðu að tímabundin borgaralaun upp á 450 þúsund krónur á mánuði skili hagnaði á sjötta ári. Góð reynsla er af borgaralaunum í Finnlandi þar sem komið hefur á daginn að þau eru ekki letjandi til vinnu og fólkinu líður betur en ella. Aukin vellíðan atvinnulausra dregur úr álagi á innviði heilbrigðiskerfisins sem sparar mikið skattfé!


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: