- Advertisement -

Hnignandi heimsveldi sem stingur Ísland

Jóhann Þorvarðarson:

Vandinn er heimabakaður, eins og hjá Bretum, en það hefur aldrei gengið upp að reyna að handstýra markaðsöflunum. Það ber feigðina í sér og er gamaldags hagfræði.

Tvær síðustu táknmyndir bresks heimsveldis eru fallnar. Hin þaulsetna drottning, Elísabet II, féll frá í mánuðinum og nú riðar breska pundið til falls. Ekkert var hægt að gera við fyrri atburðinum enn fall pundsins er sjálfskaparvíti, sem byggðist upp á mörgum árum eins og myndin sýnir. Verðið á breska pundinu gagnvart bandaríska dollaranum var yfir 1,7 dollari á hvert pund í júní árið 2014, en var komið í 1,07 dollara í dag. Virðislækkunin er yfir 37 prósent.

Seðlabanki Bretlands hefur sent frá sér yfirlýsingu um að vera tilbúinn að hækka vexti enn hraðar því sílækkandi gengi pundsins stuðlar að enn meiri verðbólgu, sem er ærin fyrir. Má segja að bankinn sé kominn í sama vanda og sá íslenski að þurfa að hækka vexti til að halda upp fölsku gengi.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Maðurinn gat bara ekki hætt að ljúga að sjálfum sér og eigin þjóð.

Aukinn umræðuþungi um Brexit þegar líða tók á árið 2014 endurspeglast á myndinni. Alþjóðasamfélaginu hugnaðist ekki möguleg útganga Breta úr Evrópusambandinu og hvað fælist í því. Pundið byrjaði bratt ferðalag niður á við allt fram í október árið 2016 þegar aðeins 3 mánuðir voru liðnir frá þjóðaratkvæðagreiðslunni um Brexit. Afar tæpur meirihluti bresku þjóðarinnar samþykkti útgönguna, sem byggði að miklu leyti á fölskum áróðri Borisar Johnsons og félaga.

Síðan varð Boris forsætisráðherra og formaður Íhaldsflokksins árið 2019 og örlaði þá á smávægilegri bjartsýni án þess þó að pundið næði viðvarandi fótfestu. Maðurinn gat bara ekki hætt að ljúga að sjálfum sér og eigin þjóð. Fór svo að hann hrökklaðist frá völdum nýlega með heljarskömm. Við tók ríkisstjórn Liz Truss og byrjar hún vægast sagt afar illa. Í miðju verðbólgubáli, litlu atvinnuleysi og hækkandi vöxtum þá leggur ríkisstjórn Liz Truss fram fjárlagafrumvarp þar sem ætlunin er að lækka almenna skatta hressilega og fjármagna þar með almannaþjónustu með enn meiri skuldsetningu á tímum þegar ríkisskuldirnar eru nú þegar meiri en landsframleiðslan.

Fjármálamarkaðir bregðast nú illa við og hafa vextir á ríkisbréfum Breta snarhækkað og var ekki á hækkun vaxta bætandi. Á fáeinum dögum þá hafa vextir á 10 ára löngum bréfum hækkað um 35 prósent og hefur önnur eins hækkun á svo skömmum tíma ekki sést áður. Hraðinn er svo ógnvænlegur að Seðlabanki Bandaríkjanna telur hann geta framkallað kreppu. Í raun er ekki annað í stöðunni fyrir Liz Truss en að bakka með óskapnaðinn ellegar fá á sig vantraust tillögu eftir aðeins fáa daga í embætti.

Ef leiðrétta á gengi pundsins gagnvart krónunni þá kallar það á aukinn verðbólguþrýsting.

Þróun mála í Bretlandi á umliðnum árum hefur haft áhrif hér á landi enda fjöldi breskrar ferðamanna farið hratt minnkandi. Árið 2017 þá voru þeir rúm 322 þúsund og tveimur árum síðar þá var fjöldinn kominn í 262 þúsund ferðamenn. Á þessu ári má búast við að fjöldinn fari vart mikið yfir 200 þúsund manns vegna þess að það verður dýrara með degi hverjum fyrir Breta að ferðast erlendis. Vandinn er ekki bara bundinn við ferðaiðnaðinn því útflutningur sjávarafurða til Bretlands finnur einnig fyrir hruni pundsins.

Staðan á Íslandi er snúin þegar vetur nálgast því ofan í veikingu pundsins þá hefur Seðlabanki Íslands haldið uppi fölsku gengi á krónunni eins og tvenn inngrip í þessum mánuði endurspeglar vel. Það fást fáar krónur fyrir hvert pund. Það kæmi því ferðaþjónustunni vel ef gengi pundsins væri rétt skráð. Vandamálið er að Seðlabanki Íslands er að glíma við mikla og vaxandi verðbólgu og hefur reynt að vinna gegn henni með rangri gengisskráningu. Ef leiðrétta á gengi pundsins gagnvart krónunni þá kallar það á aukinn verðbólguþrýsting. Vandinn er heimabakaður, eins og hjá Bretum, en það hefur aldrei gengið upp að reyna að handstýra markaðsöflunum. Það ber feigðina í sér og er gamaldags hagfræði.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: