- Advertisement -

Hrein vitfirring

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Brennuvargarnir ríða röftum upp í Seðlabanka. Eru hreinlega gengnir af göflunum, því stýrivextir voru hækkaðir í dag um enn eitt prósentustigið.

Eru komnir í 4,75%.

Hér verður ekki staðar numið því ákvarðanatakar bankans hóta enn hærri vöxtum eða þar til blóðug skuldaól heimila verður svo þröng að fólk fellur í yfirlið.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Hvergi í kringum okkur eru sýrivextir í námunda við íslenska turninn, samanber myndin sem fylgir neðst.

Ef hagstjórnarmistök bankans árið 2020 hefðu ekki átt sér stað þá væri verðbólga lægri í dag og vextir þar með. Óábyrg tunga ritþjófsins upp í Seðlabanka hefur einnig haft mikil áhrif enda ól hann á græðgishugsun fyrirhrunsáranna í veirufaraldrinum: Græða á daginn og grilla á kvöldin.

Ég þykist sjá sama munstur byggjast upp á Ísland í dag og í aðdraganda fjármálahrunsins árið 2008. Verðbólga er á öruggum upptakti og gengi íslensku krónunnar er falskt skráð samanber viðskiptahalli landsins og meteyðsla landans erlendis. Síðan eru stýrivextir á hraðri uppleið, en þeir voru komnir í 15,5% um mitt ár 2008 þegar verðbólga var á sömu slóðum og hún er í dag.

Síðan brennuvargarnir voru skipaðir til starfa í Seðlabankanum af Katrínu Jakobsdóttur árið 2019 þá hafa meira en 200 hundruð milljarðar króna verið teknir ólöglega úr varaforða landsins til að halda uppi röngu gengi á krónunni.

Bankinn er núna lokaður inni með gígantísku fjárhæðina í íslenskum krónum og getur ekki umbreytt yfir í gjaldeyri án þess að myntin hrynji.

Um er að ræða hagstjórnarmistök númer tvö hjá bankanum á árinu 2020.

Það verður að skipta um áhöfn í Seðlabankanum enda hefur bankinn ekkert lært af hrunaárunum. Tilteknir ákvarðanatakar bankans hafa síðan lýst því yfir að nauðsynlegt sé að ná jákvæðum raunvöxtum á Íslandi eins og markmiðið var fyrir hrun.

Það merkir að stýrivextir sigla hratt í átt að 10%. Stefna bankans er séríslensk án þess að haldbærar skýringar hafi fengist á nauðsyn þess að Íslendingar búi við klafann.

Eins og ég hef sagt áður þá dugar ekki einungis að skipta um áhöfn í Seðlabankanum heldur verður að taka málaflokkinn af Katrínu Jakobsdóttur.

Hún hefur hvorki þekkingu né reynslu til að taka farsælar ákvarðanir fyrir hönd þjóðarinnar í málefnum bankans. Heilladrýgst er að hún hverfi úr stóli forsætisráðherra og axli ábyrgð á eigin embættisveitingum.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: