- Advertisement -

Hún er stór, sterk og vinsælust

Seðlabanki Bandaríkjanna og Evrópu eru í bílstjórasætinu á meðan Seðlabanki Íslands er í eltingarleik.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Utanríkisviðskipti í heiminum (fjármálamarkaðir undanskildir) fara fram í evrum eða Bandaríkja dollar að lang mestu leyti samanber myndin sem fylgir. Evran er mest notuð, en dollarinn er útbreiddari á heimsvísu. Hlutföllin sem myndin sýnir vekja athygli þegar haft er í huga að 180 gjaldmiðlar eru í heiminum hið minnsta. Þetta er ein af niðurstöðum nýrrar og víðfeðmrar rannsóknar á vegum Alþjóða gjaldeyrissjóðsins. Náði hún til yfir hundrað landa og greip utan um þrjá fjórðu hluta af öllum heimsviðskiptum á árabilinu 1990 til 2019. Utanríkisviðskipti Íslendinga fara einnig mest í gegnum evru og dollar. Hlutdeild evrunnar er 39 prósent ef ég tel dönsku krónuna með. Eðlilegt er að gera það því danska krónan er bundin með rembihnút við evruna. Hún hreyfist því í fullkomnum takti við evruna. Dollarinn er síðan notaður í 46 prósent viðskipta til og frá landinu. Samtals fara fer því 85 prósent af allri erlendri verslun á  Íslandi í gegnum þessa tvo gjaldmiðla. Það er Því fullkomið samræmi milli Íslands og annarra þjóða í veröldinni í þessum efnum.

Sú þróun er í gangi hjá Evrópuþjóðum að hlutur dollarans fer minnkandi á sama tíma og evran er í hröðum vexti, eðli málsins samkvæmt. Sem dæmi þá fer milliríkjaverslun Norðmanna um það bil að jöfnum hluta fram í evrum og dollar.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Að tveir gjaldmiðlar séu ráðandi í heimsviðskiptum vegur að rótgrónum hagfræðikenningum um opið  hagkerfi með sjálfstæða mynt. Kjarninn í þeim er að útflutningur sé reikningsfærður í gjaldmiðli útflutningslands og að viðskipti tveggja landa leiti jafnvægis til lengri tíma litið. Þannig á að nást fram greiðslujöfnuður í verslun með vöru og þjónustu milli landa með ólíka gjaldmiðla. Efnahagsáföll og ójafnvægi hagkerfa hefur síðan áhrif á gengi gjaldmiðils sem ætlað er að vera jafnvægisstillir á hagkerfið. Litlar og ótrúverðugar myntir hreyfast nánast alltaf í veikingarátt með ofsamiklum hreyfingum, jafnvel gengishruni. Undantekning er auðvitað svissneski frankinn, en hann nýtur gjarnan mikils trausts á ögurstundu og styrkist ótæpilega. Hagsaga heimsins geymir mörg vond dæmi um slæmar afleiðingar af hraðvirkum hreyfingum gjaldmiðla. Þar inn í er hagsaga Ísland meðtalin: há verðbólga og mikið atvinnuleysi. Vel reknar þjóðir hafa yfirgefið peninga- og hagstjórn sem ætlað er að hafa áhrif á gengið enda leiðir það til gjaldmiðlastríðs. Í slíku stríði þá sigra stóru gjaldmiðlarnir litlar myntir án þess að þurfa að hnykla vöðvana, en efnahagslegar afleiðingar sitja eftir hjá litlu þjóðunum.

Stór hlutur dollars í heimsverslun má að góðum hluta rekja til viðskipta með hrávöru. Ef hrávöruverslun er tekin út fyrir sviga þá lækkar hlutur dollarans niður í 23 prósent á mynd 1. Þar sem olía er ekki framtíðar orkugjafi þá má búast við að hlutur dollarans fari minnkandi á komandi árum. Það er þó fleira sem mun minnka hlutdeildina. Þar má til dæmis nefna að Rússar greiða fyrir innflutning frá Kína með evrum vegna mála sem tengjast viðskiptaþvingunum Bandaríkjanna gagnvart Rússlandi. Einnig má benda á að Kínverjar styðja í dag við þá skipan að þeirra eigin gjaldmiðill „yuan renminbi“ verði notaður sem uppgjörsmynt í milliríkjaviðskiptum við landið. Þeim hefur ekki orðið mikið ágengt, en mál þokast þó í þá átt að myntin er meira gildandi en áður.

Að tveir gjaldmiðlar séu ráðandi veldur því að gengi dollars og evru stjórnar í raun för varðandi gengisskráningu krónunnar. Seðlabanki Bandaríkjanna og Evrópu eru í bílstjórasætinu á meðan Seðlabanki Íslands er í eltingarleik. Þetta táknar að Ísland er í raun ekki með sjálfstæðan gjaldmiðil. Skipan gjaldmiðlamála í heiminum ætti því að vera mikilvægt innlegg í umræðuna um framtíðarskipan gjaldmiðilsmála Íslands.  

Í umræddri rannsókn kom fram að eitt prósent veiking dollars leiddi eingöngu til 0,03 prósent minnkunar innflutnings til Bandaríkjanna. Yfirburðar staða dollars skapar því aukinn stöðugleika að öllu öðru óbreyttu. Með öðrum orðum þá taka minni myntsvæði á sig hallann af gengisbreytingum í formi minni framlegðar. Sama á við um evrusvæðið. Yfirhagfræðingur Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, Ms. Gita Gopinath, kallar þetta „priviledged insularity“ eða „forréttinda ónæmi“ Bandaríkjanna og evrusvæðisins gagnvart gengisbreytingum. Inn í þetta spilar auðvitað sú staðreynd að Bandaríkin eru minna háð útflutningi en margar aðrar þjóðir.

En af hverju er staðan sú að tveir gjaldmiðlar eru ráðandi í heimsviðskiptum? Ástæðurnar eru einkum þríþættar:

Krónan er hvort sem er undir stjórn Seðlabanka Bandaríkjanna og Evrópu.

Sú fyrsta er að fólk og fyrirtæki kaupa sér öryggi eða viðhalda kaupmætti eigin eigna og tekna með því að velja sér meginstraums gjaldmiðil, evru eða dollar. Þetta hefur leitt til þess að tvöfalt gjaldmiðlakerfi er víða við lýði vegna tregðu stjórnvalda að verja almannahagsmuni umfram sérhagsmuni. Þegnar og fyrirtæki í löndum með tvöfalt kerfi hafa í í raun tekið ómakið af stjórnvöldum að breyta rétt.  Ég hef áður tekið Kosta Ríka sem ágætt dæmi, en þar er dollarinn meira metinn en sjálf þjóðarmyntin, kolóna.

Önnur ástæða er að virðiskeðja vöru og þjónustu nær yfir mörg lönd og fleiri en eitt hagkerfi. Alþjóða fyrirtæki kjósa því að verja eigin framlegð og markaðsstöðu með því að gera öll viðskipti í einum ráðandi gjaldmiðli. Þannig er gengissveiflum eytt út og má segja að þetta snúist á endanum um áhættustýringu fyrirtækja.

Þriðja ástæðan er að áhrif gengislækkunar heimamyntar minnkar með hækkandi hlutdeild meginstraums gjaldmiðla í erlendum viðskiptum viðkomandi lands. Á sama tíma þá eru áhrif gengisbreytinga evru og dollars meiri á hagkerfi viðkomandi lands. Gjaldmiðlarnir tveir eru aftur á móti þeir stöðugustu í veröldinni ef kínverski gjaldmiðillinn er ekki talinn með, en honum er handstýrt innan þröngra marka. Hægt er að fullyrða að út frá rannsókninni að það taki gengislækkun heimamyntar lengri tíma að skila sér í gegnum verðlagið ef millilandaviðskipti landsins fara í gegnum meginstraums myntirnar tvær. Með öðrum orðum verð er stöðugra en ella.

Nú gæti einhver spurt sig í ljósi þess að evra og dollar eru nú þegar ríkjandi myntir í utanríkisviðkiptum Íslands hvort hægt sé að gera betur. Stutta svarið er já. Með því að taka upp aðra hvora myntina þá fæst miklu meiri stöðugleiki um leið og verið er að minnka áhættu. Ávinningurinn er lægri verðbólga og meiri atvinna að jafnaði. Samkeppnishæfni landsins færi einnig upp á við. Nýleg dæmi um óstöðugleika sem hefði verið hægt að afstýra blasa við okkur á hverjum degi.   

Í greininni þá set ég fram nýja röksemd fyrir því að taka upp meginstraums gjaldmiðil. Í ljós hennar og alls þess sem að ofan er sagt þá er það í raun skylda út frá almannahagsmunum að taka skrefið til fulls og taka upp evru eða dollar. Það er hagfellt fyrir þjóðina. Krónan er hvort sem er undir stjórn Seðlabanka Bandaríkjanna og Evrópu með óbeinum hætti. Þeir sem eru á móti eiga  enn eftir að leggja fram marktæk og málefnaleg rök.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: