- Advertisement -

Hún Ólöf Helga Adólfsdóttir

Jóhann Þorvarðarson:

Fyrir áhorfanda eins og mig þá get ég ekki séð annað en að launþegahreyfingin verði að hysja upp um sig brækurnar áður en skaðinn verður óafturkræfur.

Sem áhorfandi út í bæ þá hefur það verið raunalegt að fylgjast með Ólöfu Helgu Adólfsdóttur, en hún vakti fyrst athygli þegar henni var sagt upp störfum hjá innlendu flugfélagi fyrir fáeinum misserum. Þá þóttist hún vera trúnaðarmaður á sínum vinnustað, en Félagsdómur dæmdi að hún hafi ekki gegnt stöðunni þegar uppsögnin átti sér stað. Var uppsögnin því gild. Skýringar stjórnenda flugfélagsins á uppsögninni eru neikvæð framkoma Ólafar Helgu í garð starfsmanna hlaðdeildar og starfsmanna farþegaafgreiðslu.

Síðan Ólöfu Helgu var vikið frá störfum þá hefur hún verið ofboðslega upptekin af því að grafa undan lýðræðiskjörinni forystu Eflingar. Og í því samhengi þá er hún með Sólveigu Önnu Jónsdóttur á heilanum eins og um einhverja þráhyggju sé að ræða. Bolabrögð Ólafar virðast engin takmörk sett eins og innbrot hennar inn á tölvupóstsvæði Sólveigar endurspeglar. Þaðan hefur hún dreift efni í þeim tilgangi að níða skóinn undan Sólveigu. Hefur Ólöf sýnt talsverða hæfileika í að viðhalda óvæginni umræðu um Sólveigu þrátt fyrir að hún hafi unnið sannfærandi endurkomusigur til formennsku í Eflingu.

Liðhlaup og eyðingarárátta Ólafar Helgu teygði anga sína inn á ársþingi Alþýðusambands Íslands eins og eftirminnilegt er. Þar náði hún að leysa þingið upp í moðreyk með áður óséðri framgöngu innan ASÍ. Hegðunin á þinginu verður líkast til ekki útskýrð öðruvísi en að þar hafi andlega veikur einstaklingur uppfullur af hatri verið á ferðinni. Aðilar innan ASÍ, sem eru mótfallnir Sólveigu og Ragnari Þór, notfærðu sér jafnframt ástand Ólafar og er það svartur blettur á viðkomandi fólki. Staðan innan ASÍ er núna þannig að sambandið riðar til falls undir þéttu lófaklappi Samtaka atvinnulífsins.

Hefur hún óhikað gengið til liðs við helsta auðvaldsmiðil landsins, sem hikar ekki við að flytja neikvæðar fréttir um Eflingu og Sólveigu.

Þetta var svo sem ekki nóg fyrir Ólöfu Helgu heldur hefur liðhlaup hennar haldið áfram inn í sjálfa kjarabaráttuna. Hefur hún óhikað gengið til liðs við helsta auðvaldsmiðil landsins, sem hikar ekki við að flytja neikvæðar fréttir um Eflingu og Sólveigu. Síðan hefur verið upplýst að Ólöf hafi átt einkasamtöl við Samtök atvinnulífsins og guð má vita hvað þar hefur farið á milli. Það verður því að segjast að hegðun Ólafar jaðrar við að vera í ætt við framgöngu hins norska Arne Treholt, sem njósnaði fyrir óvininn og afhenti fyrrum Sovétríkjunum skjöl, sem vörðuðu þjóðaröryggi Noregs.

Það sem vekur mestu undrun hjá mér er ekki endilega hegðun Ólafar heldur það hversu auðveldlega henni tekst að vaða uppi með skemmdarverk bæði innan Eflingar og Alþýðusambandsins. Það er eins og enginn sé tilbúinn að spyrja ábyrgrar spurninga um hvort hún þarfnist hugsanlega faglegrar aðstoðar heilbrigðiskerfisins? Fyrir áhorfanda eins og mig þá get ég ekki séð annað en að launþegahreyfingin verði að hysja upp um sig brækurnar áður en skaðinn verður óafturkræfur. Enginn er bættari með því að horfa hljóður á eyðingaráráttu Ólafar og allra síst hún sjálf.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: