
Jóhann Þorvarðarson:
Vandamál hleypiflokksins er að Bergsveinn er með doktorspróf og hann státar einnig af heiðursdoktorsnafnbót. Hann er virkur fræðimaður, á að baki hátt í fimmtíu fræðigreinar og starfaði áður við Háskóla í Noregi.
Sverrir Jakobsson og Ásgeir Jónsson eiga það sameiginlegt að vera saman í hleypiflokki, sem ræðst að mannorði Bergsveins Birgissonar í vörn fyrir rit- og hugverkastuld Ásgeirs. Báðir hafa látið hafa eftir sér að Bergsveinn sé alþýðufræðimaður með leikmannsþanka, en það ku vera yfirlætislegt níðyrði Háskóla Íslands um þá sem ekki tilheyra fræðaklíku skólans. Alþýðufræðimaður er einskonar gervifræðimaður samkvæmt klíkunni og frá honum má stela hugverkum, tilgátum og rannsóknarniðurstöðum.
Vandamál hleypiflokksins er að Bergsveinn er með doktorspróf og hann státar einnig af heiðursdoktorsnafnbót. Hann er virkur fræðimaður, á að baki hátt í fimmtíu fræðigreinar og starfaði áður við Háskóla í Noregi. Uppnefni tvímenninganna um að Bergsveinn sé gervifræðimaður er því ekkert minna en níðreising gagnvart fræðimanni, sem er utangarðs við fræðasamfélagið á Melavöllum. Ekki verður betur séð en að níðið brjóti í bága við bæði siðareglur og lög um opinbera starfsmenn. Að uppnefna Bergsvein er hleypidómur, sem endurspeglar öfundsýki og lítilmennsku.
Árásarflokkurinn stendur forsætisráðherra landsins nærri. Sverrir er bróðir Katrínar og Ásgeir var skipaður seðlabankastjóri af Katrínu. Ásgeir er síðan sonur fyrrverandi ráðherra Vinstri grænna og náins samstarfsmanns Katrínar til margra ára. Hún hefur ekkert aðhafst í málinu þó Seðlabanki Íslands heyri undir hennar ráðuneyti. Þar með hefur hún leyft smán að falla möglunarlaust á orðspor tveggja ríkisstofnana. Aðgerðarleysið vegur að lánshæfi Íslands enda heiðarleg stjórnsýsla einn af grundvallarþáttum sem alþjóðleg lánshæfifyrirtæki horfa til.