- Advertisement -

Hvað verður á föstudag?

Jóhann Þorvarðarson:

Hvort og hvenær árleg verðhækkun fer þarna upp þá er það krafturinn og útbreiðslan í hreyfingunni sem ég mun horfa til varðandi það hvort við þurfum að óttast 18 prósent ársverðbólgu. Það er styttra þangað en margan grunar.

Á föstudag er ögurstund, ef svo má segja, varðandi ástand verðbólgunnar, en þá verður nýr álestur verðbólgumæla birtur. Þó maður vilji vera bjartsýnn þá gefa nýlegar tölur ekki tilefni til þess því mánaðarleg verðbólga hefur aukist að jafnaði um 1 prósentustig það sem af er árinu. Á tímabilinu maí til júlí í fyrra þá var mánaðarleg hækkun heldur meiri eða 1,1 prósentustig. Ef mynstrið frá því  í maí í fyrra endurtekur sig þá mun ársverðbólga halda sig við 10 prósentin samanber myndin sem fylgir. Verða þá liðnir 10 mánuðir frá því íslenskar verðhækkanir fóru að daðra við 10 prósenta markið. Það þarf síðan verðhjöðnun til að koma bólgunni undir 9 prósent á föstudag.

Lesandinn getur farið upp og niður lárétta ás myndarinnar og séð hver árs verðbólga verður allt eftir álestrinum sem birtur verður á föstudag, en þar læt ég duga að fara upp í 2 prósent verðhækkun í maí.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Beggja vegna Atlantsáls þá hefur sú hjöðnun bólgunnar sem átt hefur sér stað annað hvort staðnæmst eða hægt verulega á sér. Sem dæmi þá hefur breskt verðbólga á ósamræmdan mælikvarða ekki enn  komist undir 10 prósentin og verðbólga á samræmdan mælikvarða er í sókn í Frakklandi. Þar er hún við það að brjóta 7 prósentin og nálgast verðbólguna í Þýskalandi, sem er 7,6 prósent. Víða innan evrusvæðisins þá er bólgan enn mjög há eða langt yfir 10 prósentum. Og svo ég gleymi nú ekki Ítalíu þá eru verðhækkanir aftur í sókn og nálgast 9 prósentin á samræmdan mælikvarða.

Í Bandaríkjunum og Kanada þá er sömu sögu að segja þó verðbólgan sé lægri en í Evrópu. Heilt yfir þá má gróflega segja að í Norður Ameríku og Evrópu sé undirliggjandi bólga annað hvort meiri eða í námunda við allsherjar verðbólgumæla. Það út af fyrir sig eru slæm tíðindi og vísbending um að glíman við verðbóluna sé hvergi nærri á enda þó ýmsir hafi reynt að þjarma að kýlinu og hleypa greftinum út.

Hvað Ísland varðar þá hef ég ekki séð tilefni til að víkja frá ugg mínum frá því fyrir tveimur árum um að verðbólgan muni reyna við 11 til 12 prósenta fyrirstöðuna. Hvort og hvenær árleg verðhækkun fer þarna upp þá er það krafturinn og útbreiðslan í hreyfingunni sem ég mun horfa til varðandi það hvort við þurfum að óttast 18 prósent ársverðbólgu. Það er styttra þangað en margan grunar.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: