- Advertisement -

Hvar er besta fólkið?

Ég er hugsi yfir því af hverju besta fólkið sækir ekki um.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Ég var að velta umsækjendum fyrir mér í mikilvæga stjórastöðu á fjármálastöðugleikasviði Seðlabankans. Tíu sækja um og er fjöldi nafna kunnugleg frá hrunaárunum. Önnur eiga ekki erindi í starfið vegna menntunar eða reynslu sem nýtist illa. Ég þykist vita að umsækjendurnir eru ekki okkar besta fólk til að gegna stöðunni. Ég er hugsi yfir því af hverju besta fólkið sækir ekki um. Ég hygg að skýringin sé að það er ekki með klíku sér að baki og láti ekki af umsókn verða af þeim ástæðum! Það er tímasóun í þeirra huga. Skoðum umsækjendur í handahófskenndri röð:

Yngvi Örn Kristinsson er hagfræðingur og fyrrum forstöðumaður verðbréfasviðs gamla Landsbankans var ásamt Sigurjóni Þ. Árnasyni fyrrum bankastjóra dæmdur árið 2015 í héraði til að greiða þrotabúi bankans 238 milljónir króna í bætur. Ástæðan er ólögmæt og vafasöm verðbréfaviðskipti.  


Við hljótum að geta gert betur en þetta.

Guðrún Johnsen er hagfræðingur og sat fyrir hönd ríkisins í stjórn Arion banka. Hún samþykkti umdeildan starfslokasamning við Höskuld H. Ólafsson fyrrverandi stjóra bankans upp á 150 milljónir króna. Hér sýndi Guðrún dómgreindarskort.

Jón Þór Sturluson er hagfræðingur og var aðstoðarforstjóri fjármálaeftirlitsins þar til það rann inn í Seðlabankann. Á hans vakt var Ísland listað sem peningaþvottastöð. Forstjóri FME hefur látið hafa eftir sér að þeim líði bara vel með sín störf hvað eftirlit með peningaþvætti varðar þrátt fyrir skráningu landsins sem peningaþvottastöð. Ekki miklar gæðakröfur þar! 

Kristrún Heimisdóttir er lögfræðingur og fyrrverandi varaþingmaður Samfylkingarinnar. Hún hefur ekki menntun á sviði peninga- og fjármálahagfræði og getur ekki talist hæf í starfið.

Tómas Brynjólfsson hefur verið skrifstofustjóri í fjámála- og efnahagsráðuneytinu í aðdraganda þess að Ísland var listað sem peningaþvottastöð. Þar ríkir menning eftirlitsleysis „laissez-fair“ enda Bjarni Ben yfir ráðuneytinu.

Ásdís Kristjánsdóttir hagfræðingur hjá Samtökum atvinnulífsins er þekkt fyrir ófaglega greiningu og framsetningu hagtalna í áróðri Samtakanna gegn láglaunafólki. Seðlabankinn þarf fólk sem temur sér öguð og vönduð vinnubrögð.

Gunnar Jakobsson er lögfræðingur og skortir menntun á sviði peninga- og fjármálahagfræði og getur ekki talist hæfur í starfið.

Arnar Bjarnason, engar upplýsingar.

Haukur C. Benediktsson fjármálahagfræðingur. Starfaði við eignastýringu hjá spilavítinu Kaupþingi árin fyrir hrun. Hann var samstarfsmaður núverandi seðlabankastjóra hjá Kaupþingi. Eftir hrun hefur Haukur tengst urmul hlutafélaga í gegnum dótturfyrirtæki Seðlabankans vegna umsýslu eigna sem hrukku til bankans í hruninu.

Óttar Guðjónsson framkvæmdastjóri lánasjóðs sveitarfélaga er með hagfræðipróf. Áður en Óttar tók við núverandi starfi þá starfaði hann við markaðsviðskipti og eignastýringu hjá spilavítunum Kaupþingi og Glitni.

Við hljótum að geta gert betur en þetta. Ef ekki þá þarf að auglýsa starfið laust á öllu Evrópska efnahagssvæðinu (EES). Þar er mikið af hæfu fólki! Ráðning Ásgeirs Jónssonar sem seðlabankastjóra var klúður og bankinn má ekki við meiri orðsporsmissi. Nauðsynlegt er að auglýsa stöðuna aftur lausa til umsóknar!


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: