- Advertisement -

Hver var árangur Sósíalistaflokksins?

Gunnar Smári skrifar:

Í Noregi, þar sem kosningar voru fyrr í mánuðinum, er hann t.d. 4%. Með þeim mörkum hefði Sósíalistaflokkurinn fengið tvo þingmenn. Og Framsóknarflokkurinn þá tveimur færri.

Í sögulegu samhengi er útkoma Sósíalistaflokksins í fyrstu þingkosningum sínum sú sama og Frjálslynda flokksins 1999. Munurinn er sá að samkvæmt núgildandi kosningalögum fær Sósíalistaflokkurinn ekki þingmenn út á atkvæðin sín. Með því að setja 5% þröskuld á útdeilingu þingsæta verja stærri flokkarnir sig fyrir nýjum framboðum. Enginn flokkur hefur áður fengið jafnmörg atkvæði og Sósíalistar nú án þess að fá þingmann.

Í nágrannalöndum okkar er þessi þröskuldur 4% þar sem hann er hæstur, en lægri víðast hvar. Í Noregi, þar sem kosningar voru fyrr í mánuðinum, er hann t.d. 4%. Með þeim mörkum hefði Sósíalistaflokkurinn fengið tvo þingmenn. Og Framsóknarflokkurinn þá tveimur færri.

Annað sem hefur breyst í íslenskum stjórnmálum að flokkarnir sækja sér nú stórupphæðir í ríkissjóð til að fjármagna sjálfan sig og kosningabaráttu sína. Sú tilhögun hefur gerbreytt inntaki og formi baráttunnar. Síðustu tíu dagana eða svo keyra flokkarnir yfirgengilegar auglýsingaherferðir sem snúast um allt annað en umræðu um samfélagið, markaðssetja sig eins og lífsstílsþjónustu. Þetta er það umhverfi sem meirihluti kjósenda gengur inn í þegar hann setur sig í stellingar til að gera upp hug sinn í kosningum. Nýr flokkur sem ekki getur gengið í ríkissjóð verður einfaldlega undir.

Fjölmiðlarnir sem eiga að halda uppi samfélagsumræðunni hafa á sama tíma veikst. Við erum að hluta til komin aftur með einskonar flokksblaðaumhverfi, nema hvað það eru aðeins auðvaldsflokkarnir eða bakhjarlar þeirra sem halda úti sínum miðlum. Sjónarhorn almennings og þau mál sem helst skipta venjulegt fólk máli hafa veika rödd á meðan frekja og yfirgangur valdastéttarinnar drottnar yfir og ræðast að þeim sem beygja sig ekki undir vald hennar.

Sósíalistaflokkurinn mældist sterkari í skoðanakönnunum en í kosningunum. En það var áður en flokkarnir beittu fjárhagslegu afli sínu af fullum krafti, meðan kosningabaráttan var háð um hugmyndir og stefnu. Það sýndi að flokkurinn á erindi sem heyrist og snertir við fólki. Niðurstöður kosninganna sýna hins vegar að flokknum tókst ekki að draga þetta erindi í gegnum kosningabaráttuna, styrkur hans í fyrri hluta hennar náði ekki að vega upp veikleika hans í seinni hlutanum.

Þetta er umhugsunarefni dagsins. Hvernig háir Sósíalistaflokkurinn baráttu sína innan þess kerfis sem elítustjórnmálin og auðvaldið hefur smíðað utan um lýðræðisvettvanginn.

Staða Framsóknar

Niðurstöður kosninganna er sigur Framsóknarflokksins sem mætti með bestu ímyndarauglýsingarnar en kannski óljósustu stefnuna. Sjálfstæðisflokkurinn fékk sína næst verstu útkomu í sögunni en telur sig sigurvegara, treystir á að Framsókn muni vilja mynda stjórn með sér og pikka upp einn flokk sem einskonar hjálpardekk. Fyrir Sjálfstæðisflokknum eru þessar kosningar ávísun á að halda áfram óbreyttri stefnu, þeirri sömu og hér hefur verið rekin gegn vilja meirihluta almennings allt frá 1991.

Framsókn hefur hins vegar annan kost, sem er að leiða ríkisstjórn Framsóknar, VG, Samfylkingar og Flokks fólksins. Þetta gæti orðið ríkisstjórn endurreisnar grunnkerfa samfélagsins, aukins réttlætis og viðsnúningi frá ríkisfjármálastefnu nýfrjálshyggjuáranna; ríkisstjórn með sambærileg markmið og ríkisstjórn Joe Biden, sem Sigurður Ingi kallaði Framsóknarmann.

Kannski hafa ítök Ásmundar Einars Daðasonar vaxið svo innan Framsóknarflokksins, að honum takist að sveigja flokkinn með þessum hætti til vinstri og til skynsemi. Það er ljóst að þjóðin þolir ekki fjögur ár til viðbótar af drottnandi yfirgangi Sjálfstæðisflokksins. Og þjóðin kaus þann kost ekki, meira en 3/4 kusu einmitt ekki Sjálfstæðisflokkinn.

Tilboð Framsóknarmanna til kjósenda var um að sætta öfga. Frá 1995 hefur flokkurinn hins vegar ætíð tekið sér stöðu að baki þeirri öfgafullu stefnu sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur rekið gegn þjóðinni. Kannski er bara best fyrir Framsókn að standa við stóru orðin.

Staða annarra flokka

Fyrir utan persónulegan sigur Ingu Sæland, sem náði á kjörtímabilinu að reka Klausturdónanna úr flokknum og mæta síðan með nýja sveit í þessar kosningar og bæta við sig fylgi, þá eru fáir sem gleðjast yfir kosningunum.

Þetta sést ef við röðum flokkunum upp eftir því hvort þeir unnu á eða töpuðu. Sá listi er svona (eins og tölur liggja fyrir kl. 10):

  • Framsókn: +6,6 prósentustig
  • Sósíalistaflokkurinn: +4,1 prósentustig
  • Flokkur fólksins: +1,9 prósentustig
  • Viðreisn: +1,6 prósentustig
  • Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn: +0,4 prósentustig
  • Píratar: –0,6 prósentustig
  • Sjálfstæðisflokkurinn: -0,8 prósentustig
  • Samfylkingin: –2,2 prósentustig
  • VG: –4,3 prósentustig
  • Miðflokkurinn: –5,5 prósentustig

Sósíalistaflokkurinn hefur haldið því fram að mótvægið við nýfrjálshyggjunni sé róttækur sósíalismi, að sú vinstristefna sem hefur verið rekin innan nýfrjálshyggjunnar dugi ekki sem valkostur og ýti nýfrjálshyggjunni aðeins lengra, framlengi líf hennar.

Það sést á þessum niðurstöðum. Hin svokallaða frjálslynda miðja sem horfir fram hjá meginátökunum í samfélaginu en leggur áherslu á lagfæringa innan óbreytt kerfis er enginn valkostur við ógnarvald auðsins.

Og hvað gerum við í því? Það eru ekki bara Sósíalistar sem spyrja sig að því í dag heldur allt vinstra fólk, verkalýðssinnar og þau sem sætta sig ekki við að lifa og starfa innan verbúðar Samherja.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: