- Advertisement -

Hvert er erindi Brynjars?

Hann hafði engin málefnaleg rök fram að færa, var bara á móti til að vera á móti.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Það er á brattann að sækja fyrir Brynjar Níelsson þingmann innan eigin flokks. Þar ræður töluverðu afstaða hans til orkupakkamálsins. Hún fór illa í margan félagsmann Sjálfstæðisflokksins. Fleira veldur þó mótbyrnum. Hann þykir latur til starfa og ásýnd hans sem einn af varaforsetum er sögð óaðlaðandi. Var til dæmis gripinn við að spila tölvuleik þegar hann stýrði þingfundi. Svo þykir það ámælisvert fyrir Brynjar að formaður Stjórnsýslu- og eftirlitsnefndar Alþingis sá sig knúinn nýverið til að hvetja Brynjar til að mæta á fundi nefndarinnar og sinna vinnuskyldum sínum. Það er ekki eins og kjörin sem Brynjar býr við séu letjandi. Hann þiggur rúmar 1,4 milljónir króna í mánaðarlaun.

Brynjar finnur augljóslega fyrir því að hans tími gæti verið uppurinn í stjórnmálum. Á stuttum tíma þá hef ég heyrt hann sjálfan segja að það sé nú ekki svo vitlaus hugmynd að hætta í pólitík. Núna síðast þegar hann mætti í drottningarviðtal í Kastljósi til að segja okkur að sóttvarnaraðgerðir landsins væru honum ekki að skapi. Hann hafði engin málefnaleg rök fram að færa, var bara á móti til að vera á móti. Augljóslega að sýnast eitthvað gagnvart sýnu baklandi. Honum vantaði athygli, auglýsingu.

Árásir á sóttvarnaraðgerðir í landinu er ekki eina tilraun Brynjars til að slá pólitískar keilur. Hann ákvað að ráðast á garðinn þar sem hann er allra lægstur í samfélaginu og sparka í öryrkja. Í hlaðvarpsþætti Sölva Tryggvasonar á dögunum þá sagði Brynjar að aukning í fjölda öryrkja væri svo til í veldisvexti. Fullyrðingin er langt frá sannleikanum. Við þessi orð þá rifjaðist upp fyrir mér að Þuríður Harpa Sigurðardóttir formaður Öryrkjabandalagsins skrifaði nýverið grein hér á Miðjuna. Í henni vitnaði hún til skýrslu Kolbeins Stefánssonar félagsfræðings. Fram kemur í skýrslunni að þeir sem þiggja örorkulaun hafi ekki fjölgað mikið frá árinu 2017 og virðist toppnum vera náð. Ég reiknaði aukninguna frá árinu 2017 út og er hún ekki nema 1,5 prósent á ári að jafnaði. Það er svipað og mannfjöldaaukning landsins. Á myndinni sem fylgir þá má sjá þróunina frá árinu 2008. Þar sést glögglega að um engan veldisvöxt er að ræða. Línan er nánast línuleg og orðin lárétt á hægri endanum. Árleg aukning frá frá árinu 2008 til dagsins í dag er 2,24 prósent að jafnaði. Það er ekki heldur veldisvöxtur og fjölgunin hefur hægt mjög á sér. Svo mikið að Brynjar fer erindisleysu. Eitthvað hefur menntaskóalakunnátta Brynjars í reikningi skolast til.

Þingmanninum finnst meiri sómi af að sparka í öryrkja og halda út röngum upplýsingum.

Ein af ástæðum fjölgunar öryrkja eru vinnuslitnar konur eins og tölur frá Virk sýna. Svo er aukning í málaflokknum geðraskanir, sem loksins fær verðskuldaða athygli. Áður fyrr var fólk með þannig sjúkdóm litið hornauga. Brynjar er augljóslega enn þá staddur í miðri sögunni um Óhreinu börnin hennar Evu eftir Kristján Sigurðsson. 

Hafi þingmaðurinn áhuga á að að minnka ríkisútgjöld þá er upplagt fyrir hann að beina athygli sinni að dómstólabákninu sem þanist hefur út undir stjórn Sjálfstæðisflokksins. Við erum með heilan Hæstarétt sem ekkert hefur að gera. Þar leggja dómararnir kapal dagana langa og láta aðstoðarmenn skrifa synjanir á áfrýjunarbeiðnum til réttarins. Bara húsnæði réttarins er metið á meira en 3 milljarða að markaðsvirði og svo eru það himinháu laun dómara og fylgifiska fyrir að gera svo til ekkert. Fyrrverandi forseti réttarins sagði eftir að hann hætti þar störfum nýlega að starf hæstaréttardómara væri ekki nema fjórðungsstarf. Brynjar hefur augljóslega ekki áhuga á hagræðingu í dómstólakerfinu því þá gæti kona hans, sem var ólöglega skipuð hið fyrra sinni, mögulega misst starf sitt sem Landsréttardómari. Þingmanninum finnst meiri sómi af að sparka í öryrkja og halda út röngum upplýsingum.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: