- Advertisement -

Hvimleiðar rangfærslur framámanna

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Hækkunin er að mestu rakin til veikrar krónu. Það er ekki fyrr en líða tekur á árið 2021 sem verðhækkanir hjá erlendum birgjum fara að segja til sín að ráði á Íslandi.

…að taka ekki krónuna tímabundið af markaði…

Ásthildur Lóa þingmaður Flokks fólksins og Ragnar Þór formaður VR hófu grein hjá Kjarnanum á eftirfarandi staðhæfingu „Það er blússandi verðbólga í kjölfar heimsfaraldurs. Hún stafar EKKI af atburðum hérna heima nema að litlu leyti“. Fullyrðingin á sér ekki stoð í opinberum gögnum né í greiningu á því sem valdið hefur vaxandi verðbólgu á Íslandi síðan heimsfaraldurinn hófst.

Það eru einkum þrjár ákvarðanir Seðlabanka Íslands sem valda því að verðbólgan hefur verið mikið hærri á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum síðan heimsfaraldurinn hófst. Ein þeirra var afnám sveiflujöfnunarauka banka þannig að útlánagetan jókst um 12 prósent. Önnur var ákvörðunin að lækka stýrivexti í 0,75 prósent. Saman leiddi þetta til örra verðhækkana á fasteignamarkaði. Þegar litið er yfir árin 2020 og 2021 þá stendur húsnæðisliðurinn undir rúmlega 27 prósent verðbólgunnar á Íslandi.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þriðja ákvörðunin var að taka ekki krónuna tímabundið af markaði á fordæmalausum tímum heldur leyfa henni að  dingla. Þegar verst lét þá veiktist krónan um 22 prósent gagnvart evru á árinu 2020. Það orsakaði meiri verðhækkun á innfluttri vöru, miðað við ef krónan hefði verið tekin af markaði, því verðbólga í heiminum var vel tamin á árinu 2020 eða ekki nema 1,4 prósent. Á sama tíma þá námu verðhækkanir á Íslandi 3,6 prósentum. Verð innfluttra vara stóð undir helming verðhækkana á árinu 2020 eða stórum hluta umfram verðbólgu á Íslandi. Hækkunin er að mestu rakin til veikrar krónu. Það er ekki fyrr en líða tekur á árið 2021 sem verðhækkanir hjá erlendum birgjum fara að segja til sín að ráði á Íslandi.

Samantekið, þá eru það einmitt innanlands ákvarðanir sem valdið hafa miklu um það sem tvímenningarnir kalla blússandi verðbólgu. Í Danmörku þá hækkaði verðlag um aðeins 3,6 prósent á árunum 2020 og 2021 samanlagt á meðan það steig um 8,9 prósent á Íslandi. Og það þrátt fyrir að Danir hafi staðið frammi fyrir sömu ytri áhættu og Íslendingar og sömu verðhækkunum hjá erlendum birgjum.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: